Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Allt leyfilegt í raftónlist
Fimmtudagur 24. mars 2016 kl. 11:03

Allt leyfilegt í raftónlist

Björn Valur vinnur með vinsælustu tónlistarmönnum landsins

Grindvíkingurinn Björn Valur Pálsson hefur látið að sér kveða í raf- og hip hop tónlistarsenunni á Íslandi. Hann mun eiga nokkur lög á næstu plötu Emmsjé Gauta sem er væntanleg innan skamms auk þess sem hann hefur unnið talsvert með strákunum í Úlfi Úlfi en þar er einnig að fæðast nýtt efni.

Björn sem er 24 ára fékk snemma áhuga á tónlist og stundaði á sínum yngri árum nám í Tónlistarskóla Grindavíkur þar sem hann spilaði á gítar og trommur. Hann var eitthvað að grúska í hljómsveitum en á unglingsárum kviknaði áhugi Björns á raf- og rappónlist. Snemma fór hann að starfa sem plötusnúður á skemmtistöðum og víðar en hann hafði ávallt hug á því að gera sína eigin tónlist. Hann ákvað fyrir tæpum tveimur árum að bregða sér til Bandaríkjanna þar sem hann nam svokallaða pródúseringu í tónlist í góðum skóla í Los Angeles. Þar lærði hann handtökin í bransanum og allt um nútímatónlist og hvað einkennir hana. Björn segir að með tækninni í dag sé hægt að fara ansi langt í tónlistarsköpun. „Það má allt og þú getur gert það sem þú vilt. Vinsælasta tónlistin í dag er kannski frá einhverjum 17 ára gutta sem fann einhverja svala hljóma og bætir trommum við. Svo kemst það í hendurnar á einhverjum rappara sem fleytir tónlistinni enn lengra,“ segir Björn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á menningarviku Grindavíkur var Björn með námskeið fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á raftónlist.

Hjálpar að hafa góðan grunn í tónlist

Eftir að áhuginn á tónlist kviknaði þá varð Björn sér úti um tæki og tól til þess að fikra sig áfram í að skapa eigin tónlist. „Ég fór að fikta í þessu og vildi sjá hversu erfitt það væri að gera takta sjálfur,“ segir Björn sem hrífst mikið af tónlist með miklum bassa. „Það hjálpaði mér mikið að hafa kunnað á trommur áður en ég fór að gera tónlist.“ Hann segir ekki beint auðvelt að gera þessa tegund tónlistar en mikilvægt sé að þekkja tónlist vel og vita hvað getur virkað saman. „Þetta er orðið mun aðgengilegra í dag með öllum þessum forritum sem eru í boði. Þú getur fundið svo mikið af upplýsingum á netinu um hvernig á að gera hlutina og þannig getur þú komið þér áfram. Svo er undir þér komið hversu vel þú vilt hljóma og þá er það bara meiri vinna sem felst í því.“ 

Björn lauk skólagöngu sinni í Los Angeles á síðasta ári þar sem hann útskrifaðist sem dúx frá skólanum. Eftir heimkomu hefur hann verið gjörsamlega á kafi í tónlistinni og þá aðallega með Emmsjé Gauta og Úlfi Úlfi þar sem þeir félagar spila um land allt flestar helgar. Björn er með nokkur lög á næstu plötu Gauta en þeir félagar eru einnig að vinna að mixteipi sem kemur út fljótlega eftir plötuna. Björn segist ekki spá mikið í því hvort litið sér niður á hip hop tónlist á Íslandi en tónlistin nýtur gríðarlega vinsælda þrátt fyrir að hljóta kannski ekki mikillar hylli svokallaðra tónlistarspekinga. Sem dæmi þá var ansi umdeilt hve rýr uppskera rappara var á Íslensku tónlistarverðlaununum síðustu. „Ég hef ekkert verið að hugsa um það sem aðrir segja og geri bara það sem ég fíla. Ætli það sé ekki gamla fólkið sem er ekki alveg búið að kveikja á þessari tónlist. Það er þó að síast inn hægt og rólega,“ segir Björn léttur að lokum.