Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Allt jólaskraut komið upp 1. desember
Þriðjudagur 22. desember 2020 kl. 07:50

Allt jólaskraut komið upp 1. desember

Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og meistaranemi, hefur haft meiri tíma til að jólaskreyta meira og hún hefur verið dugleg að kaupa jólagjafir. Jólagjöfin sem hún óskar er svolítið sérstök.

– Hvernig hefur gengið að kaupa jólagjafir?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er búin að kaupa flestar jólagjafir. Mér finnst svo erfitt að vera að þessu á síðustu stundu eins og venjan er en þar sem ég er í námi þá hef ég mun meiri tíma til að sinna erindum eins og þessum. Mest hef ég keypt á netinu þar sem maður vill vera minna í búðum núna en reyni að versla allt sem ég get í Reykjanesbæ.“

– Hvað með jólaskreytingar,
eru þær fyrr í ár?

„Klárlega. Skipulagða árið mitt 2020. Allt skraut komið upp fyrir 1. des nema jólatréð, finnst það aðeins of snemmt.“

– Skreytir þú heimilið mikið?

„Já, eins mikið og ég get áður en maðurinn minn fer að kvarta. Þá veit ég að ég hef farið yfir strikið.“

– Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst?

„Já, dóttir mín elskar að baka og við gerum lakkrís­toppa og piparkökur, eitthvað sem er ekki svaka flókið. Hef ekki þolinmæði að standa yfir þessu allan daginn.“

– Hvernig sérðu desember fyrir þér í jólastemmningu í ljósi Covid-19?

„Bara ágætan. Aðalatriðið er að kjarnafjölskyldur nái að hittast og njóta saman örugg.“

– Eru fastar jólahefðir hjá þér?

„Já, ég horfi alltaf á Hobbitann og Lord of the Rings myndirnar meðan ég skreyti húsið á hverju ári. Það kemur mér í þvílíkt jólaskap og fínt að hafa eitthvað undir þegar maður er að þrífa. Við erum alltaf með jólamat heima hjá okkur og erum oftast með gesti hjá okkur. Nú verða allar stelpurnar saman, mamma kemur og systur mínar.“

– Hvernig eru fyrstu jólin sem þú mannst eftir?

„Ég man eftir jólaboði hjá ömmu og afa á Faxa­brautinni. Ég man bara hvað það var gaman þegar við systurnar vorum að leika okkur og allir virkuðu svo glaðir. Afi dó svo í desember þegar ég var sex ára og jólin voru lengi vel ekki hátíðleg stund – en með tímanum lærir maður að minnast fólks með kærleika og gleði þó að þau séu ekki lengur til staðar hjá manni.“

– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

„Já en ekki oft. Mér finnst kjarni jólanna vera heima með fjölskyldunni. Þegar við erum búin að opna pakkana og borða yfir okkur þá leggjumst við saman í sófann og ég fer að lesa bókina sem ég fæ í jólagjöf, yndisleg stund.“

–Eftirminnilegasta jólagjöfin?

„Gunni, maðurinn minn, gaf mér veski í jólagjöf sem ég var búin að þrá í mörg ár. Fallegasta og hugljúfasta gjöf sem ég hef fengið – en best er samt að vera heilbrigður og fagna með fólkinu okkar.“

– Er eitthvað sérstakt sem þig langar í jólagjöf?

„Bólusetningu fyrir Covid og samveru með fjölskyldu og vinum.“

–Hvað verður í matinn hjá þér á aðfangadagskvöld?

„Við erum með blómkálssúpu í forrétt og hamborgarhrygg í aðalrétt. Erum yfirleitt aldrei með eftirrétt enda allir sprungnir eftir matinn.“