Allir með jafn stóran sess á Rokksafni Íslands

-Safnið hlaut nýlega Nýsköpunar- og hvatningarverðlaun

Rokksafn Íslands, sem staðsett er í Hljómahöll í Reykjanesbæ, hlaut á dögunum Nýsköpunar- og hvatningarverðlaun 2019 frá Ferðaþjónustu Reykjaness. Safnið var stofnað í apríl 2014 og fagnar því fimm ára afmæli í ár, en Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar og Rokksafnsins, segir þrónunina í gegnum árin hafa verið talsverða og að stefnt sé að því næstu misseri að gera safnið gagnvirkara og færa það nær nútímanum.

„Þetta var mjög skemmtileg viðurkenning. Viðbrögð gestanna hafa verið góð og fólk er almennt mjög ánægt með sýningarnar. Áður héldu margir að hér væri bara sýning um Bítlabæinn Keflavík, en hér eru í rauninni allir með jafn stóran sess í sýningunni, enda heitir þetta Rokksafn Íslands en ekki Poppsafn Reykjanesbæjar,” segir Tómas.

Stefnt að stafrænna rokksafni
Til að byrja með var Rokksafn Íslands grunnsýning um rokksöguna hérlendis en fljótlega kom í ljós að bæta þyrfti við til að fá gestina aftur í heimsókn á safnið. Þá var fleiri sýningum bætt við, um tónlistarmennina Pál Óskar og Björgvin Halldórsson, og urðu þær gífurlega vinsælar. „Í dag erum við komin í samstarf við margmiðlunarfyrirtækið Gagarín sem er skref í áttina að því að gera safnið gagnvirkara. Fyrst var þetta kannski svolítið hefðbundið en nú erum við að færa okkur svolítið nær nútímanum í þessu samstarfi.” Stefnt er að því að safnið verði mun stafrænna og að lögð verði meiri áhersla á upplifun gestanna með hjálp nútíma tækni.

Stapinn fengið endurnýjun
Fyrir utan Rokksafn Íslands er nóg annað um að vera í Hljómahöll enda starfsemi hússins margs konar. Þar er Tónlistarskóli Reykjanesbæjar starfræktur í topp aðstöðu og þar fyrir utan eru salir leigðir út fyrir alls kyns viðburði, svo sem árshátíðir, ráðstefnur og slíkt. „Svo er tónleikahaldið náttúrulega mjög fyrirferðarmikið hjá okkur líka. Við flytjum til dæmis inn erlenda tónlistarmenn og höldum stórtónleika í Stapa. Þetta sögufræga félagsheimili hefur fengið endurnýjun lífdaga, ef svo má að orði komast, og það er búið að byggja mjög stóra byggingu hérna við sem telur yfir fimm þúsund fermetra og þjónar hlutverki sem svona hálfgerð tónlistarmiðja Reykjanesskagans.”


Frá afhendingu Nýsköpunar- og hvatningarverðlauna ferðaþjónustunnar á Reykjanesi 2019. T.v. Daníel Einarsson frá Reykjanes Geopark, Tómas Young framkvæmdastjóri Hljómahallar og Rokksafns Íslands og Þuríður Aradóttir Braun frá Markaðsstofu Reykjaness. Ljósmynd frá Markaðsstofu Reykjaness.

Viðskiptavinir flestir erlendir gestir
Viðskiptavinir Rokksafnsins eru í dag um 80% útlendingar en svoleiðis var það ekki til að byrja með. „Þegar við opnuðum fyrst voru gestirnir sirka 80% Íslendingar og 20% útlendingar en nú hefur þetta eiginlega alveg snúist við. Við auglýsum ekkert svakalega mikið í samanburði við aðra risa eins og til dæmis Bláa lónið eða Reykjavík Excursions. Við höfum fengið góð viðbrögð á netinu, eins og á til dæmis Trip Advisor og Facebook og ég held að það sé ástæðan fyrir því að fólk sé að koma hingað aftur. Ef sýningin er flott þá munu gestir koma. Það virðist hafa spurst út á meðal útlendinga og ferðaþjónustuaðila að safnið sé flott og gott,” segir Tómas.

Stefnt er að því á næstunni að gera safnið, eins og áður kom fram, stafrænna. „Ég hef hugmyndir um það að snúa áherslunni við, að við förum að sanka að okkur fleiri munum. Við erum ekki með það sem ég myndi kalla reglulega söfnunarstarfsemi. Við vöknum ekki hérna á daginn og hringjum í Mugison eða Björgvin Halldórsson til að spyrja hvað þeir geti gefið okkur, heldur höfum við svona verið að taka á móti munum sem hafa lent hjá okkur. En mig dreymir um að við förum að safna munum úr rokksögunni áður en það verður of seint og snúum áherslunni kannski svolítið við.”