Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Allir í list nema Júlli bróðir
Laugardagur 22. júlí 2017 kl. 06:00

Allir í list nema Júlli bróðir

-Listamaðurinn Linda Steinþórsdóttir með sýningu á Korpúlfsstöðum

Listasýningin ART Diagonale verður haldin á Korpúlfsstöðum 25. júlí næstkomandi, en Keflvíkingurinn Linda Steinþórsdóttir stendur á bakvið sýninguna, en hún hefur málað síðan hún var tvítug. Tilgangur hennar er sá að erlendir og íslenskir listamenn, listunnendur og listasafnarar fái tækifæri til að styrkja tengslanet sitt, kynna list sína og öðlast reynslu með samstarfi við aðra listamenn, en listamenn sýningarinnar hafa tíu daga til að vinna verk sitt á Korpúlfsstöðum. Hægt verður að fylgjast með vinnunni á þeim dögum sem og á sýningunni sjálfri. Listamennirnir eru ellefu talsins, en þeir eru frá Austurríki og Íslandi.


Verk eftir Lindu.

Public deli
Public deli

Linda segir hugmyndina að sýningunni hafa kviknað þegar Kristine Bauer hafði samband við hana. „Henni finnst Ísland svo spennandi og spurði hvort við gætum ekki haldið sýningu þar. Ég vildi byrja á því að sýna í Austurríki og sjá svo hvort við gætum gert þetta á Íslandi líka. Á sýningunni verða alls konar verk, myndbönd, skúlptúrar og fleira. Verkin verða gerð út frá þeim áhrifum sem Ísland hefur á listamennina. Þetta kemur bara í ljós,“ segir Linda.

Hún hefur nú verið búsett í Austurríki í 29 ár. Upphaflega ætlaði hún einungis að fara í eitt ár til Austurríkis til að læra þýsku og skíða. „Ég fór bara aftur og aftur út og svo voru allt í einu liðin tíu ár.“ Linda fór svo í fjölmiðlafræði í háskólanum í Salzburg, eftir að hafa starfað í fjóra vetur sem skíðakennari, en í dag starfar hún sem hljóðmaður samhliða listinni og tekur upp fyrir sjónvarpið úti. „Ég kenndi alltaf á skíði í fríunum mínum frá skólanum og þannig kynntist á manninum mínum. Ég ákvað svo að ég yrði áfram í Austurríki þegar við eignuðumst okkar fyrsta barn og það eru liðin 21 ár síðan.“

Linda hefur nú undirbúið sýninguna á Korpúlfsstöðum í rúmt ár en í nóvember síðastliðnum kom hún til Íslands til að skoða staðinn. „Þetta er mun meiri vinna en ég bjóst við en þetta er samt æðislegt. Þeir sem styrkja okkur tóku rosalega vel í þetta. Bílaleigan Geysir lét okkur hafa bíl í tvo daga, þannig við fórum í dagsferðir með listamennina í gær og í fyrradag. Fyrri daginn fórum við á Gullfoss og Geysi og svo var okkur boðið í mat á Þingvöllum. Í gær var svo Suðurstrandavegurinn keyrður. Ég sýndi þeim Suðurnesin því það er svo fallegt hér,“ segir hún.

Eftir helgina verður svo byrjað að vinna á fullu, en Korpúlfsstaðir verða opnir öllum þeim sem vilja fylgjast með vinnu listamannanna. „Það mega allir koma hvenær sem þeir vilja og spjalla við listamennina. Fólk getur þá séð hvað það er mikil vinna á bak við verkin.“

Linda stefnir að því að sýna fjögurra metra langt verk. „Ég ætla að vera með innsetningu, sem er svolítið eins og foss á löngum striga, svipað hinum verkunum mínum nema með meiri mýkt. Ég ætla að nýta mér hæðina. Ég er bara búin að reikna út að ég geti gert þetta á tíu dögum, en þetta þarf náttúrulega að þorna svo ég verð að byrja snemma. Mér finnst voðalega gott þegar ég er að gera svona stærri verk að vinna á nóttunni þegar hinir eru sofandi því þá eru færri sem koma. Ég geri það líka í þetta skipti og það er mjög þægilegt á Íslandi þar sem það er bjart alla nóttina. Þetta verður spennandi.“

Það er mikið um listamenn í fjölskyldu Lindu en foreldrar hennar söfnuðu list. „Það eru allir í list nema Júlli bróðir, en hann þarf að umbera þrjár listasystur og hann er mjög mikill stuðningur í því,“ segir Linda og hlær. Rakel systir hennar málar og Helga er stofnandi Mýr Design. Öll stórfjölskyldan skíðar líka mikið og fer reglulega í ferðir, en frænka Lindu var fyrsti Ólympíufarinn á skíðum. „Ég hætti sjálf að kenna á skíði fyrir tuttugu árum, en ég skíða mikið og er farin að fara meira á fjallaskíði síðustu ár. Mér finnst það rosalega gaman.“


Sama verkið, frá mismunandi sjónarhorni.

Hafi fólk áhuga á því að kaupa verk eftir Lindu er hægt að hafa samband við hana, en hún er bæði á Facebook og Instagram. „Svo verð ég með fleiri sýningar á Íslandi. Ég verð 1. ágúst á Hannesarholti með einkasýningu og á ART67 gallerý á Laugarveginum í ágúst, en ég er listamaður mánaðarins.“ Eftir sýningarnar í ágúst liggur leið Lindu aftur heim til Austurríkis en hún á þó ennþá eftir að kaupa sér flugmiða út. „Maðurinn minn spurði mig hvort ég væri bara með one way ticket, ég sagði honum að ég myndi koma aftur,“ segir Linda létt í lund að lokum.