Allir í leikhús að hlæja
-Mikið grín framundan í Frumleikhúsinu
Leikfélag Keflavíkur á rætur að rekja alveg til áranna 1940 en driffjöðrin í leikstarfseminni var Helgi S. Jónsson og í leikfélaginu reis starf hans hæst, einkum á árunum 1940–1950. Draga fór þó úr leikstarfseminni eftir 1950, enda var þá orðið það mikið um að vera í atvinnulífinu í Keflavík að tími manna var orðinn mjög knappur. Árið 1961 var Leikfélagið Stakkur stofnað í samvinnu við Njarðvíkinga og hélst svo til 1965, þegar Njarðvíkingar stofnuðu eigin leikflokk og Leikfélag Keflavíkur var myndað.
Revíur í þrjátíu ár
Í dag er Leikfélag Keflavíkur eitt af öflugustu áhugaleikfélögum á landinu en félagið er þekkt á landsvísu vegna mikillar elju og dugnaðar. Félagsmenn hafa verið nokkur hundruð í gegnum árin. Börn, unglingar og fullorðnir hafa tekið þátt í uppsetningu leiksýninganna.
Í ár, eða nánar tiltekið þann 7. apríl, verða þrjátíu ár síðan fyrsta revían, „Við kynntumst fyrst í Keflavík“, var frumsýnd í Félagsbíói. Þessi revía markaði tímamót í sögu leikfélagsins sem Ómar Jóhannsson heitinn samdi. Revían sló öll aðsóknarmet og áhorfendur urðu alls 2.600 talsins. Hulda Ólafsdóttir leikstýrði. Svo mikil var innkoman að leikarar fengu greitt fyrir nokkrar sýningar.
Framundan er revía þar sem gert verður grín að mönnum og málefnum á Suðurnesjum, stórskemmtileg sýning sem allir verða að sjá. Við hittum áhugaleikkonuna Guðnýju Kristjánsdóttur sem er ein af elstu þátttakendum revíunnar og sú sem hefur lengst starfað með Leikfélagi Keflavíkur.
Færðu aldrei nóg af þessu Guðný?
„Jú, það kemur alveg fyrir en svo gleymist það því það er svo gaman að taka þátt í hvert skipti. Þetta er svolítið svona eins og fæða barn, það er bara svoleiðis. Þrátt fyrir streð þá er ánægjan svo miklu meiri sem ég fæ út úr þessu starfi með leikfélaginu. Þessi fyrsta revía fyrir þrjátíu árum markaði einnig spor í einkalífi mínu en þarna kynntist ég ástinni minni því Júlli var að spila í leikhúsbandinu. Þarna sat hann, síðhærður í lopasokkum á bak við trommurnar, nýkominn með bílpróf og ég, fjórum árum eldri en litli trommarinn, féll kylliflöt fyrir þessum unga manni. Enn erum við bæði að taka þátt, ég er að leika og Júlli minn er í tónlistinni, auk þess sem hann leikur eitt lítið hlutverk. Svo er miðbarnið okkar, Brynja Ýr, að leika og tengdasonur okkar. Fjölskylda okkar hefur alltaf verið viðloðandi Leikfélag Keflavíkur. Í kjölfar fyrstu revíunnar fyrir þrjátíu árum voru settar upp revíur með reglulegu millibili sem Ómar heitinn skrifaði. Þær nutu allar mikilla vinsælda. Fólki finnst svo gaman að sjá þegar verið er að gera grín að mannlífinu, engin er alveg óhultur þegar kemur að revíum. Í gegnum árin höfum við fengið til liðs við okkur góða leikstjóra og má þar nefna Keflvíkinginn Þórarinn Eyfjörð og Andrés Sigurvinsson. Eftir að við fluttum í Frumleikhúsið leikstýrði Helga Braga tveimur revíum. Leikfélag Keflavíkur hefur sett upp margar og fjölbreyttar sýningar, alltaf metnaðarfullar sýningar og minnst tvær á leikári,“ segir Guðný sem bíður spennt eftir að sýna íbúum Suðurnesja nýjasta grínafkvæmi Leikfélags Keflavíkur.
Á trúnó
Föstudaginn 8. mars verður ný revía frumsýnd sem nefnist Á trúnó en þar verður tekið á mönnum og málefnum líðandi stundar. Gert verður góðlátlegt grín að mannlífinu á Suðurnesjum. Fjórtán leikarar skipta með sér hlutverkum en leikstjóri er Björk Jakobsdóttir. Höfundateymið eru LK-félagarnir Júlíus Guðmundsson, Ómar Ólafsson, Jón Bjarni Ísaksson, Arnór Sindri Sölvason, Yngvi Geirsson, Arnar Ingi Tryggvason og Sigurður Smári Hansson.
Tónlist skipar stóran sess í sýningunni og samkvæmt Guðnýju Kristjáns er þessi nýja revía brjálæðislega fyndin. Miðasala fer í gang í næstu viku. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu leikfélagsins.