Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Allir glaðir í nýjum tæknivæddum Stapaskóla
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 16. október 2020 kl. 07:35

Allir glaðir í nýjum tæknivæddum Stapaskóla

„Þetta gengur bara vel og hér eru allir sælir og glaðir,“ segir Gróa Axelsdóttir, skólastjóri í nýjum Stapaskóla í Innri-Njarðvík en skólastarf hófst í honum í haust.

Þegar Víkurfréttir kíktu í heimsókn í síðustu viku var líf og fjör. Stapaskóli er heildstæður skóli með 65 nemendur á leikskólastigi frá átján mánaða aldri og 265 nemendur á grunnskólastigi. Nýlega var matsalur opnaður og í síðustu viku var eldhús tilbúið. Aðalinngangur skólans verður tekin í notkun á næstu vikum en í næstu áföngum verða íþróttahús og sundlaug og bygging fyrir leikskólastigið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stapaskóli er tæknivæddur og þar eru ekki hefðbundin kennaraborð, töflur og nemendur sitja ekki við hefðbundin borð og stóla. Risaskjáir, gerðir úr níu minni tölvuskjám, eru á sérstökum hringsvæðum. „Við erum búin að kaupa fullt af tækjum og tólum til að nýta í kennsluna og við höfum verið að læra á hlutina. Við höfum verið með menntabúðir fyrir kennara og starfsmenn vegna þessarar nýju tækni í námi barnanna. Krakkarnir geta valið sér það vinnuumhverfi sem þeir vilja og kennarar eru líka að aðlagast nýju umhverfi í skólanum. Þetta er allt mjög spennandi en líka nýstárlegt. Nemendur eru fljótir að aðlagast og í raun fljótari en við fullorðna fólkið,“ segir Gróa en meðalaldur kennara í skólanum er þó ekki nema 37 ár, þannig að kennarar eru líka í yngri kantinum og tilbúnir að takast á við nýjungar. Það var áhugavert sjá nemendur reikna á tölvuskjá og spjaldtölvur eru margar á lofti. Nemendur voru að skoða laufblöð í stafrænni smásjá og afraksturinn mátti sjá í spjaldtölvunum. Tæknin í hávegum höfð.

Nemendur voru ánægðir með heimsókn Víkurfréttamanna og vildu fá myndir af sér. Hér má sjá allnokkrar en fleiri má finna á Víkurfréttavefnum vf.is. Þar eru enn fleiri myndir af börnum og úr skólanum sem er stórglæsilegur.

Gróa Axelsdóttir, skólastjóri Stapaskóla í matsal skólans.

Stapaskóli - nýr og tæknivæddur