JS Campers
JS Campers

Mannlíf

Alli á Eyri les fyrir gömlu karlana
Laugardagur 28. október 2023 kl. 06:19

Alli á Eyri les fyrir gömlu karlana

Aðalgeir Jóhannsson, eða Alli á Eyri eins og hann er jafnan kallaður, er mikill listamaður í sér og er mikill og góður sögumaður. Þegar hann rak kaffihús sitt, Bryggjuna, á neðstu hæðinni í húsinu sem hann og Kristinn bróðir hans voru með veiðafæragerð á efstu hæðinni, tók Alli sig til og fór að lesa úr bókum fyrir vini og kunningja. Þegar bræðurnir seldu reksturinn og nýir aðilar þurftu að loka tímabundið vegna framkvæmda, færði hópurinn sig yfir í Kvikuna, menningarhús Grindavíkur. Þar hittast daglega, nokkrir hressir karlar og stundum kíkja konurnar líka við.

Þegar Alli á Eyri les leggja menn við hlustir. VF/Sigurbjörn

Alli skýrði út hvenær og hvernig þessi hefð kom til. „Við Krilli byrjuðum með kaffihúsið á Bryggjunni árið 2009 og eftir nokkur ár byrjaði þetta hjá mér, að lesa upp úr bók á föstudögum. Það komu alltaf karlar á Bryggjuna í kaffi, menn sem voru komnir á eftirlaun og á einhverjum föstudeginum kom andinn yfir mig og ég las upp úr bók fyrir þá. Þetta varð að hefð en eftir að við seldum Bryggjuna og nýir aðilar voru í framkvæmdum og þurftu að loka neðstu hæðinni tímabundið, færðum við okkur yfir í Kvikuna. Þar hittast flesta morgna hressir karlar en við erum alltaf á sunnudögum á Bryggjunni því þá er lokað í Kvikunni. Svo höfum við líka verið á miðvikudögum á Bryggjunni, þangað kem ég þegar ég er búinn að lesa fyrir gamla fólkið á Víðihlíð. Þangað kem ég alla miðvikudagsmorgna kl. 10 og les. Ég held að ég fái jafnvel meira út úr þeim stundum en þau sem hlýða á lesturinn, þetta gefur mér mjög mikið,“ sagði Alli.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024