Álfar og tröll fara á kreik
Álfar og tröll er heiti söngsýningar sem hópur tónlistarfólks af Suðurnesjum æfir af kappi þessa dagana. Sönghópurinn Orfeus og hljómsveitin Talenturnar sjá um tónlistarflutning. Útsetningar eru eftir Arnór B. Vilbergsson og handritið er eftir Bylgju Dís Gunnarsdóttur og Henning Emil Magnússon. Alls koma 15 listamenn að verkinu.
„Álfar og tröll byggist á þjóðsögum og þjóðtrú sem skapast hefur í kringum þennan árstíma skammdegisins. Hugmyndina fékk ég eiginlega frá afa mínum en við sungum alltaf saman áramótalög á gamlárskvöld. Einhvern tímann eftir tónleika hjá mér spurði afi mig hvenær ég ætlaði svo að syngja áramótalögin. Spurningin var nú eiginlega meira sett fram í gríni en ég greip þetta á lofti og fannst alveg kjörið að gera eitthvað með þessi lög og sögur,“ svarar Bylgja Dís aðspurð um hvað hafi kveikt hugmyndina að verkinu.
„Þetta eru lög sem flestir þekkja eins og Máninn hátt á himni skín, Stóð ég út í tunglsljósi, kvæðin um jólaköttinn og Grýlu, svo eitthvað sé nefnt. Þessi þjóðlegu lög verða alveg glæný og rosalega flott í útsetningum Arnórs. Hugmyndin er sú að skapa þjóðlega áramótastemmningu með blöndu af söng, sögum og leikrænni framsetningu,“ segir Bylgja Dís.
Um tvenna tónleika verður að ræða og eru aðgöngumiðar seldir í forsölu. Að sögn Bylgju hafa viðbrögð verið góð en þeir sem hafa áhuga á að tryggja sér miða geta haft samband við hana í síma 661 7719. Tónleikarnir verða 3. janúar kl. 17 og 6. janúar kl. 20 í Bíósal Duushúsa. Þess skal getið að uppselt er á fyrri tónleikana en ennþá eru lausir miðar á þá seinni.
VFmyndir/elg – Frá æfingu hópsins í gær.