Aldrei of seint að setjast á skólabekk
– segir Guðbergur Reynisson sem hefur verið valinn fyrirmynd í námi fullorðinna af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
Á aðalfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA), sem haldinn var fimmtudaginn 27. nóvember, var Guðbergur Reynisson frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) valinn fyrirmynd í námi fullorðinna ásamt Ragnhildi Gísladóttur sem stundaði nám hjá Fræðsluneti Suðurlands. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa breytt stöðu sinni eftir þátttöku í úrræðum FA, sýnt framúrskarandi árangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmiss konar hindranir.
Guðbergur fór í nám hjá MSS árið 2013 og stundaði þar sölu-, markaðs- og rekstrarnám. Guðbergur hafði stofnað fyrirtækið Cargoflutningar á Suðurnesjum eftir miklar breytingar árið 2009.
Í ávarpi sem Guðbergur flutti á fundinum undir yfirskriftinni „reynslusögur námsmanna“ sagði hann m.a.:
„Árið 2013 las ég svo auglýsingu í Víkurfréttum um sölu-, markaðs- og rekstrarnám hjá MSS. Þegar ég las hvað væri kennt varð ég ákveðinn í að þótt ég hefði engan aukatíma yrði ég að fara í þetta nám og skráði mig daginn eftir. Í stuttu máli var námið skemmtilegt og vel sett fram fyrir mann eins og mig sem er með athyglisbrest. Í lokin gerðum við viðskiptaáætlun og höfðum einnig lært undirstöðuatriði í markaðssetningu en þetta hafði mig lengi langað að læra. Í kennslutímum leyfði ég kennurunum að nota mitt fyrirtæki, Cargoflutninga, sem dæmi og áttaði mig þá á að ég væri kannski með eitthvað í höndunum sem hægt væri að byggja á.“
BORGAR SIG ALLTAF AÐ NÁ SÉR Í MENNTUN
Í samtali við Víkurfréttir sagðist Guðbergur ánægður með viðurkenninguna en í fyrstu hafi hann ekki alveg áttað sig á hvað væri í gangi.
„Hólmfríður Karlsdóttir hjá MSS hringdi í mig fyrir nokkrum vikum síðan og sagði mér að MSS gæti tilnefnt einstaklinga til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem þeim þætti hafa skarað fram úr eftir nám hjá Miðstöð símenntunar. Hólmfríður spurði hvort hún mætti tilnefna mig til þessara verðlauna og ég gerði bara eins og áður, segi bara alltaf já, án þess að vita nákvæmlega hvað ég væri að samþykkja,“ segir Guðbergur.
Eins og Guðbergur sagði í ávarpi sínu þegar hann tók við viðurkenningunni frá FA þá hafði hann engan tíma til að fara í námið á sínum tíma. „Það er fullt af fólki þarna úti sem heldur að það geti ekki farið í nám, heldur að það sé orðið of seint. Ég segi að það sé aldrei of seint að setjast á skólabekk. Þú þarft ekki að fara í nám út af einhverju fyrirfram ákveðnu. Farðu í nám og menntaðu þig. Þetta margborgar sig alltaf.
Eftir að ég var í þessu námi þá lifnaði meiri áhugi hjá mér að rífa fyrirtækið mitt upp sem ég var búinn að vera að berjast fyrir í þrjú eða fjögur ár á þeim tíma. Það má eiginlega segja að eftir að ég skyldi markaðssetningu, viðskiptaáætlanir og áætlanagerð þá hafi allt gengið miklu betur. Eftir að ég lauk þessu námi þá fór ég úr því að vera með þrjá bíla tvisvar á dag milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar í átta bíla tvisvar á dag þegar mest var og það var brjálað að gera hjá öllum.“
FINNST AÐ MAÐUR EIGI AÐ BERJAST
– Hvernig er að standa í rekstri og setjast á skólabekk?
„Það var ekki auðvelt. Árið 2009 stóð ég uppi með ekkert. Ég var atvinnulaus og skuldugur en ákvað að ég ætlaði ekki að láta það drepa mig. Einhver hefði farið á atvinnuleysisbætur og setið bara í sófanum og beðið eftir tækifæri. Ég kann það ekki og finnst að maður eigi að berjast. Ég var búinn að sækja um alls konar störf en ákvað á þessum tíma að kaupa sendibíl. Ástandið 2009 var svipað og núna, þú hleypur ekki í nýtt starf. Ég keypti bíl og ákvað bara að byrja að keyra. Á þessum tíma var aðili að hætta rekstri og ég kaupi lítinn rekstur sem er Cargoflutningar og þar með var kominn grunnur að því hvernig ég ætlaði að gera þetta. Ég ætlaði mér samt ekkert að vera í þessu. Ég ætlaði bara að fara í bílasölu aftur. Ég var búinn að vera fimmtán ár í bílasölu og löggiltur bifreiðasali eftir mikið nám árið 2000.
Ég hafði farið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1987 en flosnaði upp úr því námi því ég hafði ekki áhuga fyrir því sem ég var að gera. Mig langaði ekkert að læra bókfærslu og stærðfræði þá og fór frekar á sjóinn en dauðsá eftir því alla tíð síðan.
Árið 2013 sé ég í auglýsingu í Víkurfréttum að það er verið að kenna bókfærslu, viðskiptaáætlanir, Excel og markaðssetningu á fyrirtækjum. Öll upptalningin í auglýsingunni talaði til mín. Þetta var allt sem ég hafði langað til að kunna. Ég ákvað því að skrá mig þó ég hefði engan tíma í þetta, ekki mínútu.“
ALLTAF AÐ LEITA AF EINHVERJU ÖÐRU
– Hvernig breytti það rekstrinum sem þú stofnaðir til árið 2009 að setjast á skólabekk á þessum tíma? Hvaða sýn fékkstu á fyrirtækið þitt?
„Ég var á þessum tíma alltaf að leita að einhverju öðru en reksturinn gekk alveg ágætlega. Ég var að fá nýja viðskiptavini en þetta snýst allt um að viðskiptavinir viti af þér og geti notað þjónustu fyrirtækisins. Eftir námið fór ég miklu meira í að auglýsa mig. Áður var ég ekkert að auglýsa starfsemina. Þetta var bara svona maður á mann og átti að spyrjast út. Ég byrjaði að auglýsa og láta vita betur af mér. Ég byrjaði að hringja og bjóða viðskipti og lagaði til bílaflotann. Mín stærsta auglýsing er að bíllinn sé merktur og snyrtilegur, þá muna allir eftir þér og auðvitað að þjónustan sé góð.
Eftir námið fór ég í að laga svona hluti og að gera áætlanir inn í framtíðina, hvernig reksturinn ætti að vaxa og dafna næstu árin. Á Íslandi er reyndar erfitt að gera áætlanir langt inn í framtíðina en ég gat sett niður áætlun hvað ég ætlaði að gera á næsta ári – og þegar þú gerir áætlun, þá ferðu ósjálfrátt að reyna að fylgja henni eftir. Ef það er ekkert plan að vinna eftir þá vaknar þú bara á morgnana og veist ekkert hvað er að fara að gerast. Með því að gera áætlun og skipulag, þá fer maður að vinna eftir því. Það var ekki þannig áður en varð þannig eftir námið.“
Guðbergur segir að það hafi auðvitað verið brjálað að gera árin 2014 til 2015 í ferðamannaiðnaði. „Það var brjálað að gera í flugstöðinni og þá jókst líka hjá mínu fyrirtæki því öllum vantaði að fá vörur. Vöxturinn hjá mínu fyrirtæki varð ekkert ekki bara af því að ég var með betri sýn á hlutina en ég var þó alla vega með í uppbyggingunni. Ég hefði alveg getað verið sofandi og einhver annar tekið flutninginn. Þarna ákvað ég að taka þátt í uppbyggingunni.“
Árið sem nú er að líða er í raun það fyrsta sem fyrirtækið er ekki að stækka. „Ég fór að finna fyrir erfiðleikum í atvinnulífinu á Suðurnesjum þegar WOW féll. Þá fóru margir svolítið inn í sig. Þá er erfitt að vera að bjóða þjónustu. Síðustu tvö ár hafa verið erfið og sérstaklega þetta, sem hefur verið mjög erfitt en ég gefst ekki upp.“
NETVERSLANIR STÓRAR Í FLUTNINGUM Í DAG
– Nú er mikið talað um netverslun. Er hún ekkert að skila sér í sendibílana?
„Jú, netverslun er mjög stór hluti af því sem við erum að gera í dag. Netverslanir hjá Rúmfatalagernum, Dorma, Rekkjunni og Rafha eru mikið notaðar af Suðurnesjamönnum og ég gæti endalaust talið upp. Fólk er að versla svakalega mikið á netinu og það er mesti flutningurinn hjá okkur í dag. Flugstöðin er alveg dottin út, það er ekkert um að vera þar en þar verður snarvitlaust að gera um leið og það leysist úr þessu öllu saman og það þarf bara að halda út þangað til.“
Cargoflutningar eru mikið fjölskyldufyrirtæki. Tveir bræður Guðbergs starfa þar sem bílstjórar og einnig tveir frændur hans. Þá hefur Reynir, faðir Guðbergs, einnig verið að hjálpa syni sínum í akstrinum en er á hliðarlínunni í dag á meðan Covid gengur yfir.
„Það er ekki þannig að maður hafi ætlað sér það að þetta yrði fjölskyldufyrirtæki. Þetta hefur bara þróast svona. Í gegnum tíðina hef ég aldrei farið í gegnum ráðningarferli. Ég hef bara hent auglýsingu á netið ef mig hefur vantað mann og fengið. Ég hef að stærstum hluta verið heppinn með starfsfólk og fengið menn sem vilja vinna og það hefur ekki verið neitt vesen – en bræður mínir eru þaulsetnir í vinnu og það er kannski af því að þeir eru svipað gerðir og ég og þekkja þetta,“ segir Guðbergur og hlær.
MEÐ FIMM BÍLA Í REKSTRI
Cargoflutningar eru í dag með fimm bíla í rekstri en þeir voru átta þegar mest var. Guðbergur hefur því þurft að leggja bílum en hefur verið heppinn með það þurfa ekki að segja upp mörgum mönnum. Hann var með stráka sem hættu til að fara í skóla og þá var hann með sumarafleysingarmenn sem stóð til að halda áfram en þess þurfti ekki þar sem það hefur verið rólegri tíðin.
„Það hefur verið rosalega rólegt en nóvember var stór en sá mánuður er reyndar alltaf mjög stór í flutningum og svo kemur desember sem alltaf er rólegur. Ég trúi því að nú verði desember hins vegar stærri í verslun hér á Suðurnesjum þar sem fólk er ekki mikið að fara að versla á höfuðborgarsvæðinu í því ástandi sem ríkir þar núna vegna veirunnar. Það er tækifæri núna fyrir verslanir hér fyrir sunnan að fólk geti nálgast vörur hér heima en þurfi ekki að sækja hana til Reykjavíkur.“
Guðbergur leggur mikla áherslu fólk opni augun fyrir þeim möguleikum sem eru í samfélaginu eins og hann gerði þegar hann settist á skólabekk hjá MSS. „Fyrsta sem þarf auðvitað að gera er að hunskast út og leita að lausnum það kemur enginn til þín í sófann. Sem sagt rífðu þig upp og farðu út að gera eitthvað og ekki gefast upp þó á móti blási.“
Guðbergur með kvenfólkinu í MSS eftir afhendingu viðurkenningarinnar.
Það er mikið að gera hjá Guðbergi að halda utan um rekstur Cargoflutninga. Þessi mynd var tekin í ársbyrjun 2016 þar sem Guðbergur var að fara yfir pantanir á flutningum en síminn er mikilvægt tæki í rekstrinum hjá Cargoflutningum.