Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aldrei of seint að láta draumana rætast
Sýning Kolbrúnar mun standa til 4. september í Listatorgi við Vitatorg í Sandgerði.
Föstudagur 26. ágúst 2016 kl. 06:00

Aldrei of seint að láta draumana rætast

Listakonan Kolbrún Vídalín heldur sýningu á verkum sínum núna á Sandgerðisdögum og mun hún standa til 4. september. „Markmið mitt í gegnum lífið hefur ávallt verið að efla listsköpun í umhverfi mínu og hef ég verið dugleg að sækja ýmis konar námskeið og miðlað þekkingu minni til annarra og með því vakið áhuga margra á listsköpun,“ segir hún.

Kolbrún á að baki langan feril í myndlistinni og hafði lengi átt sér þann draum að fara í myndlistarnám. Kolbrún á þrjú börn með eiginmanni sínum, Jóni Bjarna Pálssyni, og þegar þau voru búin með sitt háskólanám fannst henni tímabært að að láta drauminn sinn rætast og fara í myndlistarskóla. Þá var hún komin á sextugsaldur. „Árið 2010 ákvað ég að leigja mér íbúð á Akureyri og hefja eins árs fornám í Myndlistarskóla Akureyrar. Eftir þetta eina ár fann ég að mig langaði til að halda áfram og hóf þriggja ára nám í fagurlistum.“ Kolbrún útskrifaðist vorið 2014. „Maðurinn minn hélt áfram á sjó en heimsótti skólastelpuna sína í fríum. Við héldum okkar heimili hér í Sandgerði og vorum við því í eins konar fjarbúð,“ segir Kolbrún.

Námið á Akureyri var öflugt, að sögn Kolbrúnar og þar lærði hún margt, bæði í listasögu og listsköpun. „Ég kynntist fullt af frábæru fólki, kennurum skólans, skólasystkinum og eignaðist  góða vini. Þetta var svo mikið ævintýri og ég hef lært að það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast.“

Síðasta veturinn fyrir norðan lét Kolbrún sig hafa það að búa ein í 20 fermetra bústað sem var hinu megin í Eyjafirðinum. „Á morgnana gekk ég í svarta myrkri í gegnum skóg með vasaljós. Þetta var um 600 metra leið upp brekku í bílinn minn, oft í miklum snjó og byl. Það var mikið lagt á sig fyrir skólann.“ Kolbrún segir námið hafa gefið sér sjálfstraust til að halda áfram að þróa sína list og jafnframt veitt sér mikinn innblástur.


Verk eftir Kolbrúnu á sýningunni í Listatorgi. Birtan spilar stórt hlutverk í öllum verkunum á sýningunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir rúmlega ári síðan hélt Kolbrún einkasýningu í Norðurbryggju í Hörpu og voru verkin þar innblásin af lokaverki hennar úr Myndlistarskóla Akureyrar. Málverkasýning Kolbrúnar sem nú stendur yfir í sal Listatorgs við Vitatorg í Sandgerði er sölusýning. Verkin á sýningunni eru unnin í olíu og blek á bómullarefni með blandaðri tækni. „Birtan spilar stórt hlutverk í verkunum þannig að þau eru ávallt að breytast og fylgja birtunni í rýminu,“ segir hún. Verkin eru römmuð inn í plexígler til þess að birtan geti leikið um þau. Sýningin mun standa til 4. september og verður opin alla daga frá klukkan 13:00 til 17:00.

[email protected]