Aldrei of seint að læra

MSS er sveigjanleg menntastofnun sem er í góðu samstarfi við aðrar stofnanir í samfélaginu

Hefur þig dreymt um að efla færni þína í bókhaldi eða langar þig að sölsa um og breyta algjörlega um starfsvettvang? Nú er tækifærið því Miðstöð símenntunar er að hleypa af stað spennandi námi sem kallast Skrifstofuskóli.

Er þetta nám fyrir þig?

Skrifstofuskólinn er ætlaður fólki á vinnumarkaði sem er átján ára eða eldra, hefur stutta, formlega skólagöngu að baki, vinnur við almenn skrifstofustörf eða stefnir á að starfa á skrifstofu. Tilgangur Skrifstofuskólans er að auka hæfni námsmanna til að takast á við almenn skrifstofustörf og stuðla að jákvæðu viðhorfi þeirra til áframhaldandi náms. Í náminu er lögð áhersla á að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og starfsfærni. Námsaðferðir eru aðallega byggðar á hagnýtum viðfangsefnum sem auðvelt er að yfirfæra á almenn skrifstofustörf. Við hittum að máli Særúnu Rósu Ástþórsdóttur, verkefnastjóra hjá MSS, sem sagði okkur nánar frá þessu námi og fleiru sem er framundan hjá Miðstöð símenntunar.

Mikil ánægja með þetta nám

„Við erum að taka á móti umsóknum núna frá þeim sem vilja efla færni sína í almennum skrifstofustörfum. Skrifstofuskóli I og II eru fimmtán vikna námskeið sem hefjast 28. og 29. janúar og lýkur í maímánuði. Grunnur að bókhaldi er aðalviðfangsefni fyrri hluta námskeiðsins ásamt ferilskrárgerð en áfram er unnið með bókhaldshringrásina og byggt ofan á þekkinguna í seinni hlutanum. Þar er einnig vettvangsnám og aukin tengsl við atvinnulífið. Námið er hluti af því sem við köllum starfstengdar námsleiðir þannig að nemendur geta kynnst fyrirtækjum. Nemendur í skrifstofuskólanum hafa verið að vinna í almennum skrifstofustörfum. Þeir hafa starfað sem ritarar í skólum, í móttöku hótela og hjá alls konar einkafyrirtækjum. Opinber fyrirtæki hafa einnig verið með starfsfólk innan raða sinna frá Skrifstofuskólanum. Fólk hefur verið mjög ánægt með þetta nám sem passar báðum kynjum. Við sjáum þörf fyrir námið fyrir fólk sem langar að efla sig á vinnumarkaði og hefur að baki stutta, formlega menntun,“ segir Særún.

Margt spennandi framundan

Særún segir MSS hlusta eftir samfélaginu og sé sífellt að þróa sig áfram í að bjóða upp á nám sem hentar almenningi.

„MSS er sveigjanleg menntastofnun sem er í góðu samstarfi við aðrar stofnanir í samfélaginu, s.s. Vinnumálastofnun og Virk. Það er alltaf þróun í gangi hjá MSS en við erum að hlusta á samfélagið, hvað vantar og finna út fagnámskeið fyrir sem flesta hópa. Við bjóðum upp á allskonar styttri og lengri námskeið. Íslenska er eitt þeirra námskeiða sem MSS hefur boðið upp á í mörg ár, með góðum árangri fyrir fólk af erlendum uppruna. Allir þættir íslensks tungumáls eru þjálfaðir; skilningur, hlustun, tal, lestur og ritun. Jafnframt er farið í málfræði. Þessi námskeið eru alltaf í gangi. Í fyrsta sinn er jógakennaranám er að fara af stað hjá okkur, það hefst 2. febrúar og eru nemendur byrjaðir að skrá sig. Framundan er einnig fagnámskeið starfsmanna leikskóla sem hefst 28. janúar. Það er svo margt skemmtilegt í boði sem fólk getur kynnt sér nánar á vefnum okkar,“ segir Særún að lokum og bendir á heimasíðu Miðstöðvar símenntunar  www.mss.is