Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Aldrei leiðinlegt að mæta í vinnuna
    Sif og Ingibjörg að læra með börnunum, en „Ú“ var stafur vikunnar þegar ljósmyndara Víkurfrétta var boðið í heimsókn á Garðasel.
  • Aldrei leiðinlegt að mæta í vinnuna
Laugardagur 18. nóvember 2017 kl. 06:00

Aldrei leiðinlegt að mæta í vinnuna

-Leikskólinn Garðasel í Reykjanesbæ fékk frábæra umsögn í ytra mati mennta- og menningarmálaráðuneytis

„Við erum alveg í skýjunum með þetta,“ segir Ingibjörg Guðjónsdóttir, leikskólastjóri Garðasels, en fyrr á árinu fór leikskólinn í gegnum ytra mat mennta- og menningarmálaráðuneytis sem Menntamálastofnun stendur fyrir. Í lokaorðum ytra matsins var m.a. sagt að skipulag leikskólans væri til fyrirmyndar og að foreldrar telji að börnunum sínum líði vel í skólanum. Þá sögðust foreldrar einnig vera afar ánægðir með upplýsingagjöf frá leikskólanum og starfið sjálft. „Við vissum að við værum að gera ótrúlega góða hluti. En það er svo gott að fá utanaðkomandi aðila sem segir manni að það sé rétt. Við erum mjög stoltar af því starfi sem við vinnum hérna,“ segir Ingibjörg. Í matinu kom einnig fram að vikulegar áætlanir á deildum leikskólans væru til fyrirmyndar og einnig hvernig staðið væri að sérkennslu á leikskólanum.


Brosmild börn á Garðaseli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sif Stefánsdóttir hefur starfað sem aðstoðarleikskólastjóri á Garðaseli síðustu þrjú ár en þegar hún hóf störf segist hún strax hafa tekið eftir metnaði starfsfólksins á leikskólanum. „Fólkið hérna brettir bara upp ermar. Það er rosalega mikill metnaður fyrir því að gera vel og starfið er fjölbreytt.“

Leikskólastarfið gríðarlega mikilvægt
Frá Menntamálastofnun komu tveir aðilar sem eyddu þremur dögum á leikskólanum og fylgdust með. „Þetta var bara notalegt. Við héldum okkar striki og gerðum það sem við erum vanar að gera. Þetta var ekkert öðruvísi,“ segir Sif.

Þær segja leikskólastarfið gríðarlega mikilvægt og að undirbúningurinn fyrir grunnskólann skipti börnin miklu máli því ótrúlega margt breytist við það að fara í grunnskóla. „Maður finnur það alltaf betur og betur hversu mikilvægt þetta starf er,“ segir Sif. Flestir leikskólar leggja áherslu á það að kennslan sé gerð að leik og Garðasel reynir eftir bestu getu að minnka þetta stóra skref sem fylgir því að fara í grunnskóla. „Við viljum eiginlega láta leik- og grunnskóla renna svolítið saman,“ bætir Ingibjörg við.


Leikskólinn Garðasel.

Fjórðungur barnanna af erlendum uppruna
Leikskólinn Garðasel var stofnaður árið 1974 og er því þriðji elsti leikskóli Reykjanesbæjar. Á leikskólanum er ákveðin aðferð, atferlismótun, kennd er snýr að nemendum með einhverfu. „Þau börn fá yfirleitt svona myndrænt dagskipulag. Sumum einhverfum börnum þarf að kenna hvað þau eigi að gera í dagsins önn.“

Um 25% barnanna á Garðaseli koma annars staðar frá í heiminum, en flest þeirra koma frá Póllandi. „Það gengur rosalega vel. Við erum líka með börn sem eru tvítyngd og einn af starfsmönnunum okkar er frá Póllandi.“


29 einstaklingar starfa á Garðaseli og segir Ingibjörg að hópurinn sé rosalega góður.

Í hverri viku er nýrri áætlun á leikskólanum fylgt, en þær áætlanir eru hluti af þróunarverkefni deildarstjóranna. „Vikuáætlanirnar eru algjörlega skipulagðar. Þegar ég byrjaði hérna fyrir þremur árum fannst mér frábært að fylgja þessu. En þetta er alltaf í þróun. Við erum alltaf að breyta og bæta okkur,“ segir Sif.

Kraftgöngur í vettvangsferðum
Heilsustefna leikskólans birtist vel í starfinu er fram kemur í matinu, en mikið er lagt upp með útiveru og vettvangsferðir. „Þegar þau fara í vettvangsferðir ganga þau rösklega. En svo notum við ferðirnar náttúrulega líka í að læra,“ segir Sif. „Stafur vikunnar“ er fastur liður á leikskólanum og í síðustu vettvangsferð var stafurinn Ú. „Þá leituðum við að stafnum í náttúrunni og lékum okkur í leiðinni.“

Ómetanlegt að vinna með börnum
Aðspurðar af hverju þær starfi sem leikskólakennarar segja þær báðar að starfið sé skemmtilegt. „Áhugi á börnum er náttúrulega númer eitt. Það er ekki hægt að vera í þessu ef maður hefur ekki áhuga á börnum. Sama hvernig maður vaknar á morgnana, þá fær maður alltaf það sama frá þeim. Þú getur verið í ótrúlega vondu skapi en farið svo inn á deild til barnanna. Það er bara ómetanlegt,“ segir Sif.


Ingibjörg leikskólastjóri með krökkunum sínum í stærðfræðispili.

Leikskólakennarar í flugstöðinni
29 einstaklingar starfa á Garðaseli og segir Ingibjörg að hópurinn sé rosalega góður. „Við erum átta sem erum lærðir leikskólakennarar, ein er með uppeldis- og menntunarfræði og ein er lærður íþróttafræðingur. Margar þeirra hafa verið hér lengi,“ segir Ingibjörg, en hún hóf störf á Garðaseli árið 1989. „Ég er orðin ein af húsgögnunum,“ segir hún og hlær. „Ég var átján ára þegar ég byrjaði í sumarvinnu á Tjarnarseli. Á þeim tíma var leikskólinn svo mikils metinn. Það komst ekkert hver sem er inn á leikskóla. Ef leikskólar loka þá lamast atvinnulífið algjörlega. Lærðir leikskólakennarar fá hærri laun við að vinna í flugstöðinni, sem er sorglegt. Það er sorglegt að við missum þetta góða fólk sem er búið að leggja það á sig að læra þetta.“

„Af hverju ert þú í Bónus?“
Leikskólastjórarnir rekast reglulega á krakkana utan leikskólans en þær eru þó ekki jafn vinsælar þar. „Þau vilja helst ekkert vera að tala við okkur fyrir utan. Sumir halda bara að við eigum heima á Garðaseli. „Hvað ert þú að gera hérna? Af hverju ert þú í Bónus?“ Svo spyrja þau okkur daginn eftir hvort við munum eftir því að hafa hitt þau,“ segir Ingibjörg. „Svo minna þau mann á það vikurnar og mánuðina eftir á,“ bætir Sif við.

Að sögn stelpnanna er enginn dagur á Garðaseli eins. „Móttökurnar sem maður fær þegar maður mætir á morgnana eru það besta við daginn. Það er aldrei leiðinlegt að mæta í vinnuna því börnin koma hlaupandi til manns. Þetta er yndislegt,“ segir Ingibjörg. „Það er alveg ástæða fyrir því að maður er búinn að vera svona lengi hérna. Það er eitthvað hérna sem heldur í mann.“

[email protected]