Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Aldrei á ævinni blómstrað jafn mikið
Laugardagur 19. ágúst 2017 kl. 06:00

Aldrei á ævinni blómstrað jafn mikið

-Guðlaugur Ómar hugsaði um að fyrirfara sér en ákvað að leita sér hjálpar eftir mikla vitundarvakningu í samfélaginu

„Við erum öll gölluð og eigum ekkert að fela gallana okkar. Þeir eru oft það sem gera okkur að þeim persónum sem við erum,“ segir 24 ára Skagstrendingurinn Guðlaugur Ómar Guðmundsson, en hann hefur glímt við kvíða og þunglyndi allt sitt líf.

Guðlaugur skrifaði færslu á Facebook fyrir stuttu þar sem hann opnaði sig um sín andlegu veikindi en hann segir færsluna hafa kraumað í sér í langan tíma. „Mikil vakning hefur verið í samfélaginu undanfarið. Ég vil ekki vera einn af þeim sem hæðst að andlegum vandamálum. Ég er kvíða- og þunglyndissjúklingur og ég ákvað að stíga fram og standa með þeim sem eru að berjast við það sama.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hann flutti til Keflavíkur og hóf nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í janúar 2014, en þá ákvörðun tók hann eftir að hafa fengið nóg á Skagaströnd. Móðir Guðlaugs og systur höfðu þá flutt til Keflavíkur nokkrum árum áður. „Ég var búinn að koma hingað nokkrum sinnum en fór alltaf aftur heim til Skagastrandar. Ég ákvað svo að skrá mig í FS til að binda mig fastan í Keflavík svo ég færi ekki aftur til baka.“

Tveimur árum áður en Guðlaugur flutti til Keflavíkur ákvað hann í fyrsta skipti að leita sér hjálpar vegna veikindanna. „Það var vegna þess að ég ætlaði að fyrirfara mér.“ Sálfræðimeðferðin reyndist Guðlaugi vel og fór hún að skila árangri. „Ég var fyrst um sinn lítill í mér, en þegar á leið sá maður að þetta var að skila einhverju og ég fór að líta stærra á mig. Ég hef alltaf verið metnaðarfullur einstaklingur en einhvers staðar hætti maður að hafa trú á sjálfum sér. Sálfræðingurinn minn hjálpaði mér að líta á mig í réttu ljósi. Svo er ég líka mikill áhugamaður um tónlist og leiklist og hann hvatti mig til að halda fast í það.“

Guðlaugi langaði fyrst og fremst að skipta um umhverfi þegar hann ákvað að flytja til Keflavíkur en hann segist aldrei hafa blómstrað jafn mikið á ævinni og eftir að hann flutti hingað. „Ég datt fyrir einhverja tilviljun inn í félagslífið hérna. Ég fór í leikrit, fór í sönghópinn Vox Felix og ég er mjög þakklátur fyrir það. Það er engin framtíð að búa í 500 manna þorpi á 21. öldinni, allavega ekki fyrir mann með stóra drauma.“

Nýlega byrjaði Guðlaugur svo aftur á lyfjum við sínum andlegu veikindum en honum finnst mikilvægt að kvíða- og þunglyndislyf séu ekki feimnismál. „Maður tekur lyf ef maður fær höfuðverk. Auðvitað er alltaf betra að sleppa lyfjum ef maður kemst af án þeirra en ef þau geta hjálpað er ekkert að því að taka þau.“

Guðlaugi finnst mikilvægt að fólk geti opnað sig með andleg veikindi en hann segir það hafa verið erfitt að alast upp sem strákur á landsbyggðinni vegna krafa samfélagsins. „Ég ólst upp í dálítið úreltu umhverfi, í litlu þorpi við gömul gildi. Ég var eini strákurinn í systkinahópnum og ég varð bara að kyngja hlutunum. Samfélagið er búið að setja hömlur á stráka. Það er eins og við megum bara ekki.“

Mikil vitundarvakning hefur þó verið í samfélaginu síðustu ár um andleg veikindi en Guðlaugi finnst mikilvægt að ekki sé litið á það að sýna tilfinningar sem veikleika. „Mér finnst það vera styrkleiki að sýna tilfinningar. Hlutirnir eru að breytast til hins betra í samfélaginu og ég er ánægður með það.“

Lykillinn að vellíðan segir Guðlaugur sá að vera samkvæmur sjálfum sér, þó það geti verið erfitt. „Það er erfitt að opinbera það að maður sé andlega veikur. En það er þess virði. Svo á maður að sjálfsögðu að leita sér hjálpar og ekkert að fara leynt með það.“ Þá segir hann einnig mikilvægt að fylgja sinni ástríðu. „Við eigum öll okkar hillu í samfélaginu, við þurfum bara að finna hana. Maður á að vera þakklátur fyrir að vera sá sem maður er því gallarnir okkar gera okkur sérstök. Lífið getur verið erfitt, en á sama tíma er það líka yndislegt. “

[email protected]