Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aldarfjórðung í bæjarstjórn
Sunnudagur 30. desember 2018 kl. 07:00

Aldarfjórðung í bæjarstjórn

„Að ná að vinna úr vandamálum gaf þessu tilgang,“ segir sjálfstæðismaðurinn Böðvar Jónsson, sem setið hefur lengst allra í bæjarstjórn Reykjanesbæjar

Flestir geta verið sammála því að stjórnmál sé krefjandi starf. Því fylgir mikið álag, margt þarf að vita og margir treysta á mann, enda stýrir stjórnmálafólk landinu okkar. Sjálfstæðismaðurinn Böðvar Jónsson fékk snemma áhuga á stjórnmálum og almennu samfélagslegu starfi, en síðasta vor lauk ferli hans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar eftir tuttugu og fjögur ár í starfi.
Ýmislegt hefur gerst í bæjarfélaginu síðan Böðvar hóf að starfa í pólitíkinni. Sveitarfélagið Reykjanesbær var stofnað, Sjálfstæðisflokkurinn hélt hreinum meirihluta í bæjarstjórn í tólf ár, skólar og aðrar mikilvægar stofnanir voru reistar í bæjarfélaginu og í dag er Reykjanesbær farinn úr því að vera lítill smábær á suðvestur horninu yfir í það að vera gríðarlega öflugt sveitarfélag, sem á næsta ári verður það stærsta á landinu utan höfuðborgarsvæðisins. Böðvar hitti blaðamann Víkurfrétta og fór yfir feril sinn í stjórnmálunum og lífið í gegnum tíðina í Reykjanesbæ.

Ný félagsmiðstöð og  ræturnar í Njarðvík
„Ég flutti til Njarðvíkur með foreldrum mínum árið 1976, þegar ég var átta ára. Þá var pabbi ráðinn skólameistari í Fjölbrautaskóla Suðurnesja,“ segir Böðvar, en faðir hans var Jón Böðvarsson heitinn, fyrsti skólameistari skólans.
„Ég bjó alltaf í Njarðvík á yngri árum. Þegar mamma og pabbi fluttu svo til baka til Reykjavíkur árið 1988 þá varð ég eftir. Ég var búinn að skjóta rótum hér þannig ég fór aldrei aftur til baka.“

Böðvar stundaði nám við Njarðvíkurskóla en einmitt þá tók hann þátt í sínu fyrsta samfélagslega starfi. „Okkur fannst vanta félagsmiðstöð í Njarðvík. Á þeim tíma þurftum við að sækja allt okkar í Holtaskóla. Félagsmiðstöðin var þá þar í Keflavík en engin félagsmiðstöð var í Njarðvík, þannig við heimsóttum þáverandi bæjarstjóra Njarðvíkur, Albert Karl Sanders, sem tók erindinu vel.
Niðurstaðan varð sú að opnuð var félagsmiðstöð, sem síðar fékk nafnið Fjörheimar, og var til húsa í Stapanum fyrstu árin.“

Byltingarkenndar breytingar  í tónlistarkennslu
Böðvar var áberandi í félagslífinu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þegar hann stundaði þar nám. Hann var formaður Málfundafélagsins Kormáks, sem hann sjálfur stofnaði ásamt fleirum, tók þátt í ræðuliði skólans, sat í ritstjórn skólablaðsins og á síðasta námsárinu var hann formaður nemendafélagsins.
Árið 1990 var Böðvar kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins, en sjálfur fór hann fyrst í framboð árið 1994, þá 26 ára gamall. Þá var hann í sjötta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og endaði sem varabæjarfulltrúi það kjörtímabil.
„Þarna var verið að sameina sveitarfélögin og þetta kjörtímabil var mjög skemmtilegt. Það var heilmikið batterí að koma saman tveimur sveitarfélögum, samræma stjórnsýsluna og gera aðrar breytingar,” segir Böðvar, en á því tímabili var honum til dæmis falið að stýra nefnd sem fjallaði um framtíð tónlistarkennslunnar í Reykjanesbæ, en þá voru tónlistarskólar bæjarins tveir.
„Tillögur nefndarinnar urðu allar að veruleika sem fólu m.a. í sér að kennslustofur voru byggðar í öllum grunnskólunum og tónlistarskólinn var í raun færður inn í grunnskólana þannig að nemendur gætu stundað sitt tónlistarnám þar. Þeir gátu þannig verið í tónlistarnámi frá klukkan átta á morgnanna í staðinn fyrir seinni part dags eða á kvöldin. Þetta var í raun byltingarkennt þarna. Ekki að því leiti að þetta hafi hvergi verið til, en þetta hafði örugglega aldrei verið prófað í jafn stóru sveitarfélagi og hér. Þetta lukkaðist ótrúlega “

Böðvar á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á kjörtímabilinu 2014-2018

Skólar sveitarfélagsins  í sama gæðaflokki
Eftir kosningarnar 1998 hlaut Böðvar í fyrsta sinn sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn. „Á því tímabili voru sveitarfélögin að taka við grunnskólunum úr höndum ríkisins og þá þurftum við að fara í gríðarlegar framkvæmdir. Áður var þetta þannig að eldri bekkir skólans byrjuðu kannski um klukkan átta á morgnanna í skólanum og voru til eitt, en yngri bekkirnir mættu þá og voru til klukkan fimm. Þá voru einfaldlega ekki til nógu margar skólastofur til að kenna öllum á sama tíma.“
Úr urðu gríðarlegar framkvæmdir. Heiðarskóli var byggður og Njarðvíkurskóli, Myllubakkaskóli og Holtaskóli voru stækkaðir. Einnig voru skólalóðir teknar í gegn og búnaður skólanna endurnýjaður. Þannig yrðu skólar sveitarfélagsins allir settir í sama gæðaflokk. „Á þessu kjörtímabili var alveg ofboðsleg vinna í kringum þetta. Við vorum þrír í stýrihópi sem sinntum þessu verkefni, við Skúli Skúlason og Jóhann Geirdal. Þetta var gríðarlega kostnaðarsamt verkefni en það var mikil eining um þetta verkefni því það var svo sem ekkert um annað að ræða. Þetta var bara verkefni sem sveitarfélögunum var falið og var mjög skemmtilegur tími,“ segir Böðvar.
Sjálfstæðisflokkurinn vann aftur sigur í kosningunum árið 2002 og náði þá hreinum meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Sá meirihluti hélst svo næstu tólf árin, en þar af var Böðvar formaður bæjarráðs í níu ár og í þrjú ár var hann forseti bæjarstjórnar.

Böðvar með Geir Haarde, þáverandi fjármálaráðherra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Erfiðast þegar herinn fór
Á erfiðum tímum fylgir stjórnmálastarfinu oft mikil pressa og erfiðasta tímabilið þótti Böðvari vera árin 2006 til 2010. „Það voru miklir erfiðleikar árið 2006 þegar herinn fór. Það hafði áhrif á um þúsund fjölskyldur í samfélaginu sem misstu vinnuna, eða fengu að minnsta kosti mun verr launaða vinnu í kjölfarið. Það verkefni var svolítið sett í fangið á okkur, verkefni sem mér fannst auðvitað að ríkið og ríkisstjórnin hefði átt að stýra. En það lenti einhvern veginn í fanginu á Árna Sigfússyni og bæjarstjórninni. Þetta var mjög erfiður tími en það tókst að komast yfir hjallann. Hér var mikil fjölgun og margt að gerast í byggingariðnaði og fleira,” segir Böðvar. Rothöggið kom svo árið 2008 í íslenska efnahagshruninu. Enn fleiri misstu vinnuna, eignarverð lækkaði og lán hækkuðu. Það tímabil var ótrúlega erfitt fyrir samfélagið að sögn Böðvars og líklega flestir Íslendingar sammála því.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins fallinn
Skuldastaða Reykjanesbæjar var svo, eins og mörgum er kunnugt, orðin mjög slæm á árunum 2012 og 2013. Þá var Reykjanesbær orðið skuldsettasta sveitarfélagið á Íslandi. Í kosningunum árið 2014 tapaði Sjálfstæðisflokkurinn í kjölfarið meirihluta sínum í bæjarstjórninni eftir tólf ára valdatíð.
„Árið 2012 er lögum um fjármál sveitarfélaganna breytt með nýjum sveitarstjórnarlögum. Þá voru settar reglur um það hvað sveitarfélögin megi skulda, en þær reglur komu ekki fyrr en þá. Þegar þær reglur koma er staðan auðvitað sú að við erum komin fram úr okkur. En fram að þeim tíma voru engar slíkar reglur í gangi. Skuldastaða sveitarfélagsins hafði í raun svo sem verið mjög sambærileg frá kannski 1998, jafnvel 1994, hlutfallslega séð. Þegar við fengum lög sem sögðu að við mættum ekki skulda meira þurftu menn auðvitað að taka á.“


En fóru menn fram úr sér?
Þegar Böðvar fer yfir þáverandi stöðu sveitarfélagsins og árin áður lýsir hann 2002 til 2014 sem ótrúlegum uppbyggingartíma í Reykjanesbæ. „Við byggjum Akurskóla og leikskólana Vesturberg, Hjallatún og Akur. Í íþróttageiranum var það Akademían, reiðhöllin á Mánagrund og svo innisundlaugin og Vatnaveröld. Á menningarsviðinu var það Hljómahöllin og tónlistarskólinn og svo framvegis. Við þurftum auðvitað að tryggja það að hér væri einhver gangur í atvinnulífinu. Íbúum fjölgaði hratt og við urðum að mæta því með því að til dæmis byggja hér skóla og leikskóla og breyta samfélaginu þannig að það væri vilji til þess að koma hingað og setjast hér að,“ segir Böðvar.

Aðspurður segist hann geta tekið undir það að ekki hafi nógu vel gengið á árunum 2012 og 2013 þegar byrja þurfti að bremsa. „Það tókst hins vegar betur á kjörtímabilinu 2014 til 2018, en það var auðvitað kannski fyrst og fremst vegna þess að menn stöðvuðu í raun allar framkvæmdir. Þá vorum við að nýta þær framkvæmdir sem nú þegar var búið að fara í. Á því kjörtímabili tókum við við gríðarlega mörgum nýjum íbúum, sem hægt var að gera vegna þess að hér voru til innviðir og skólar sem gátu tekið við fólki, án þess að halda þurfti áfram að fjárfesta.“


Böðvar við skóflustungu að Hljómahöllinni

Áframhaldandi stuðningurinn við Njarðvík í Keflavík
Böðvar er lærður viðskiptafræðingur, en hann útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri árið 2005. Á þeim tíma starfaði hann sem sölumaður á fasteignasölunni Eignamiðlun Suðurnesja. „Það var nóg að gera þau ár. Ég var mjög lengi á fasteignasölunni en varð svo aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Þaðan fór ég svo í núverandi starf sem er framkvæmdastjóri Byggingarfélags námsmanna,” segir Böðvar, en félagið á og rekur tæplega fimm hundruð íbúðir sem ætlaðar eru námsmönnum.
Fyrir utan pólitíkina hefur Böðvar gaman af því að fara á skíði og fylgjast með körfubolta. Þó hann búi í Keflavík segist hann hins vegar vera Njarðvíkingur í húð og hár þegar kemur að íþróttaáhuganum enda fyrrverandi formaður Ungmennafélags Njarðvíkur. „Eftir að ég hætti í pólitíkinni hef ég  reynt að fylgja liðinu mínu eins og hægt er. Ég er þó mikill körfuboltaáhugamaður þannig eftir að ég flutti til Keflavíkur hef ég reynt að fara á nánast alla leiki í Keflavík líka, það er bæði vegna þess að ég hef núna meiri tíma og bý nánast við hliðina á íþróttahúsinu. Það verður til þess að maður er duglegur að labba niður í hús.“

Aldrei í fríi
Segja má að stjórnmálamenn séu nánast alltaf í vinnunni. Þegar þeir eru ekki í miðjum verkefnum eru þeir að undirbúa komandi verkefni eða að svara kalli ýmissa bæjarbúa. „Ég fór fyrst að finna fyrir því eftir að ég hætti. Þá kom maður heim eftir vinnudaginn, settist niður og þurfti ekki að hugsa um það hvað væri að fara að gerast á næsta fundi. Þeir sem eru í þessu eru einhvern veginn í þessu öllum stundum. Á löngum tíma hættir maður að finna fyrir því og verður samdauna því. Svo þegar maður hættir þá áttar maður sig á því hvað þetta er í raun og veru mikið áreiti, en það er auðvitað bara það sem fylgir því að taka þátt í þessu. Þetta er líka gaman,” segir Böðvar.
Þetta sé hins vegar allt saman þess virði takist það að vinna úr vandamálum. „Það er nú oftast það sem gefur þessu einhvern tilgang, þegar maður sér að það sem maður er að gera hefur skilað einhverju og komið fólki vel.“

Nauðsynlegt að geta hætt
Böðvar er ekki beint vanur þessum auka tíma aflögu, enda hefur hann í raun, alveg frá því hann kláraði fjölbrautaskólann, alltaf verið í meira en einu starfi og stundum tveimur. „Þetta er í fyrsta skipti síðan ég byrjaði minn starfsferil sem ég er bara í einu starfi og ég nýt mín bara ansi vel í því. Ég get sinnt fjölskyldunni betur og ætla mér ekkert að fara að binda mig í einhverju öðru, allavega í bili,” segir Böðvar.
Þegar hann hætti í bæjarstjórninni tók hann meðvitaða ákvörðun um það að hvíla sig alfarið á bæjarmálunum. „Ég hef lítið fylgst með eftir að ég hætti. Þegar maður er búinn að vera lengi í einhverju og vera í aðalhlutverki getum við sagt, í mjög mörg ár, þá er nauðsynlegt að geta hætt. Það er ómögulegt fyrir þá sem eru í bæjarstjórn að hafa einhverja aðila á hliðarlínunni sem eru að skipta sér af og ég var algjörlega ákveðinn í því að setja þetta alveg til hliðar. Það kemur bara nýtt og gott fólk sem tekur við. Ég er alveg ennþá til staðar ef menn hafa áhuga á að leita til mín og það hefur svo sem alveg verið gert. En mér fannst algjörlega kominn tími á það að nýtt fólk tæki við.“

Með bæjarstjórnarbandinu sem kom oft fram á Ljósanótt

Eftir stendur vinskapurinn við samstarfsfólk sitt og allur lærdómurinn eftir aldarfjórðungs starfs. „Það er mikils virði. Vinskapurinn við marga góða samstarfsmenn er ekki bara meðal samflokksmanna, heldur úr öðrum flokkum líka, enda þarf maður að eiga trúnaðarvini í bæjarstjórn í öllum flokkum og geta leitað til þeirra, til dæmis innan bæjarráðs.“
    Böðvar lærði mjög margt á þessum tíma og margt skemmtilegt komst til leiða. „Eftir því sem maður var búinn að vera lengur þá þekkti maður meira og komst í stærri verkefni. Ég fékk til dæmis verkefni fyrir hönd sveitarfélaga á Íslandi að ganga til samninga við ríkið um uppbyggingu hjúkrunarheimila ásamt tveimur öðrum. Út úr því kom m.a. hjúkrunarheimili Nesvalla. Svo var ég einnig í samninganefnd sveitarfélaganna á Íslandi um frágang lífeyrissjóðsskuldbindinga við ríkið og svo framvegis. Maður lærði alveg gríðarlega margt á þessu og fékk verkefni bæði til þess að læra meira og til að nýta þekkingu sína til að koma góðum málum til leiðar.“
Aðspurður segist hann ekki nokkurn tímann hafa fengið leið á þessu. „Þá hefði maður bara hætt. En það var alveg kominn tími til að hætta núna. Maður getur ekkert haldið endalaust áfram.“


En hvaða ráð hefur Böðvar til ungs stjórnmálafólks?
„Ég hef nú oft sagt við ungt fólk, sem hefur áhuga á að taka þátt í pólitík, að þetta sé svolítið langhlaup. Það tekur oft tíma að komast í aðalhlutverkin og maður þarf að hafa þolinmæði til að vinna sig þangað. Svo tekur það auðvitað svolítinn tíma að komast almennilega inn í hlutina. Að ætla til dæmis að stökkva inn í pólitíkina í fjögur eða átta ára er alveg í það stysta. Ef fólk ætlar að komast í áhrifastöður verður að gera ráð fyrir því  að það geti tekið svolítið langan tíma að geta beitt þekkingu sinni til að koma hlutunum áfram.“

Úr þorpsbrag í öflugt bæjarfélag
Þegar Böðvar lítur til baka er hann gríðarlega stoltur af því hvernig Reykjanesbær hefur þróast. Með tímanum hafi það farið úr því að vera með ákveðinn þorpsbrag yfir sér í það að verða stórt og öflugt bæjarfélag, sem á næsta ári verður væntanlega það stærsta utan höfuðborgarsvæðisins.

„Mér finnst það sjást vel í því hvernig fólk, sem langar að flytja hingað, talar um sveitarfélagið. Það leggur það gjarnan til jafns við Hafnarfjörð eða Kópavog. Fyrir tuttugu og fimm árum síðan þá var það bara tabú fyrir höfuðborgarbúa að flytja til Keflavíkur. Þannig þessu samfélagi hefur svolítið verið umbylt og það þurfti auðvitað að gera ýmislegt til þess. Ekki bara það að byggja fleiri og fallegri byggingar, stækka skóla og leikskóla eða breyta umhverfislega þættinum, heldur þurfti líka að gera ýmislegt í innra starfinu og eru skólamálin sem mér finnst sitja eftir. Árangur skólanna á svæðinu hefur farið úr því að vera með því lakasta á samræmdum mælingum ár eftir ár í það að vera yfir meðallagi og jafnvel með þeim allra hæstu. Þar er fyrst og fremst að þakka styrkri stjórn Árna Sigfússonar, en það var hans ástríða, og honum tókst það auðvitað með hjálp mjög margra. Miklar breytingar voru gerðar hjá skólastjórnendum og starfsfólki skólanna og öllu þessu fólki tókst að breyta þessu. Þetta verður auðvitað til þess að fólk, annars staðar á landinu, lítur í dag á þetta svæði og leggur það til jafns við önnur sveitarfélög í kringum okkur.“

Í tilefni af 900. fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar (árið 2012) gróðursettu fulltrúar ráðsins 10 reynitré við minnisvarðann um brunann í Skildi til minningar um þá einstaklinga sem létust í eldsvoðanum. Á myndinni eru Kristinn Jakobsson fulltrúi Framsóknar, Friðjón Einarsson fulltrúi Samfylkingar, Gunnar Þórarinsson frá Frjálsu afli sem var formaður bæjarráðs, Böðvar Jónsson og Magnea heitin Guðmundsdóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Böðvar Jónsson sat sem varamaður á Alþingi haustið 2004.


Böðvar var um tíma forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Guðbrandur Einarssonar, forseti bæjarstjórnar færði Böðvari bókagjöf frá Reykjanesbæ eftir 400. fundinn hjá honum.

Með sjálfstæðismönnum þegar Ellert Eiríksson, bæjarstjóri Keflavíkur og Reykjanesbæjar árin 1990 til 2002, var gerður að heiðursborgara.

Með eiginkonunni, Jónu Hrefnu Bergsteinsdóttur.