Mannlíf

Aldarafmæli: Ingólfur Aðalsteinsson, hitaveitustjóri
Sunnudagur 15. október 2023 kl. 06:09

Aldarafmæli: Ingólfur Aðalsteinsson, hitaveitustjóri

Þann 10. október hefði Ingólfur Aðalsteinsson, veðurfræðingur og forstjóri Hitaveitu Suðurnesja á árunum 1975-1992, orðið 100 ára og minnast afkomendur hans og fyrrverandi samstarfsmenn þeirra tímamóta nú með ýmsum hætti. Ingólfur var fæddur að Hamraendum í Miðdölum í Dalasýslu þann 10. október 1923 og lést í Reykjavík 25. mars 2012. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og lauk síðan námi í veðurfræði frá Svíþjóð árið 1949. Vann hann á Veðurstofu Íslands í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli allt til 1975 er hann tók við starfi forstjóra Hitaveitu Suðurnesja. Ingólfur, Ingibjörg Ólafsdóttir kona hans og börn þeirra fluttust af flugvallarsvæðinu niður í Ytri-Njarðvík 1966 og settust að við Borgarveginn. Upp frá því lét Ingólfur sig ýmis bæjar- og þjóðþrifamál miklu varða, var t.d. bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn til margra ára og lagði sérstaka rækt við skólamál í byggðinni.

Segja má að þegar Ingólfur tók við stöðu forstjóra við Hitaveitu Suðurnesja hafi hann fengið varanlega útrás fyrir framfarahug sinn. Í eftirmælum er hann ítrekað sagður hafa leitt Hitaveituna farsællega á miklu framfaraskeiði hennar. En í því starfi rak einnig á fjörur Ingólfs, nánast fyrir tilviljun, það málefni sem átti eftir að verða honum brennandi hugsjón, nefnilega málefni Bláa lónsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ingólfur sagði ítrekað frá því í ræðu og riti hvenær hann heyrði fyrst minnst á lónið, þ.e.a.s kísilmettað affallsvatn hitaveitunnar, sem heilsueflandi fyrirbæri. Það var árið 1981, þegar ungur Keflvíkingur, Valur Margeirsson, fór fram á það að mega baða sig í þessu affallsvatni, þar sem hann hefði haft spurnir af því að þannig fengi hann haldið niðri illskeyttum húðsjúkdómi, psoriasis, sem hann var þjáður af. Valur fékk leyfið, með því skilyrði að hann tæki sjálfur ábyrgð á gerningnum.

Úr fjarlægð fylgdist Ingólfur með líðan Vals, sem fékk umtalsverðan bata af böðunum, losnaði t.d. við kláða og bletti á húð. Í kjölfarið hófu fleiri að sækja böðin, bæði til lækninga og skemmtunar. Eftir það hóf Ingólfur sjálfur að kynna sér erlend heilsuhæli grundvölluð á heitavatnsmeðferð, m.a. í Ungverjalandi. Það er árið 1983, í blaðagrein í tímaritinu Faxa, sem hann viðrar fyrst opinberlega þá sannfæringu sína að „Svartsengissvæðið sé vel fallið til staðsetningar heilsustöðvar, sem gæti nýst fjölmörgum sjúklingum til hressingar og afslöppunar. Má í því sambandi benda á að landslag þarna er fjölbreytilegt og gefur gott tækifæri til útiíþrótta.“ Seint á því sama ári, 1983, var haldin ráðstefna um framtíðarnýtingu svæðisins. Þar áréttaði Ingólfur frekar þessar hugmyndir sínar.

Á ráðstefnunni tóku margir undir hugmyndir hans, m.a. Arnbjörn Ólafsson læknir sem taldi einsýnt að „við Svartsengi ætti sem fyrst að rísa fullkomin endurhæfingarstöð, sem byggi þekkingu sína á þeirri bestu þekkingu, sem nú stendur til boða“. Var boltanum í framhaldinu varpað bæði til einkaaðila og hins opinbera. En þar sem Ingólfur taldi að Hitaveita Suðurnesja væri í rauninni ábyrg fyrir upphafi og tilvist Bláa lónsins, yrði hún í millitíðinni að taka afleiðingunni af þeirri staðreynd með því að setja upp aðstöðu til baða og fataskipta og girða af hættulegustu hluta lónsins. Voru þó sumir á þeirri skoðun að ekki væri á verksviði Hitaveitu Suðurnesja  að koma upp slíkri aðstöðu.

Leið nú tíminn og vinsældir Bláa lónsins jukust óðfluga og frásagnir af áhrifamætti þess og einstakri náttúrunni umhverfis Svartsengi rötuðu inn í sjónvarpsstöðvar um víða veröld, BBC, Þýska sjónvarpið, japanska ríkissjónvarpið og ástralskar stöðvar. Ingólfur hélt áfram að tala máli lónsins á vettvangi klúbba og félagasamtaka, skrifaði skýrslur og minnti á verkefnið á aðalfundum Hitaveitunnar, 1986 og 1989. Hins vegar tóku hvorki ríkið né einkaaðilar við því kefli sem þeim hafði verið rétt. Því var það á vetrarfundi Hitaveitunnar 1990, sjö árum eftir áðurnefnda ráðstefnu, sem Ingólfur notaði tækifærið til að brýna menn til dáða. Hann talaði um að „við Suðurnesjamenn hefðum hér í heimabyggð gullnámu sem við höfum ekki ennþá lært að nýta til fjárhagslegs ávinnings fyrir öll Suðurnes.“ Segir hann lónsverkefnið síst minna í sniðum en álverið, sem þá var mikið í umræðunni, og það væri auk þess mengunarlaust með öllu. Í framhaldinu kynnti hann næsta stórbrotnar hugmyndir sínar að heilsustöð eða hressingarheimili í Svartsengi.

Vísaði Ingólfur til þekkts ungversks heilsuhælis sem grundvallaðist að nokkru leyti á sömu forsendum og voru til staðar í Svartsengi. Sá hann fyrir sér heilsustöð sem sameinaði aðstöðu fyrir psoriasis-sjúklinga og annarra sjúklinga og almenning, stöð með 240 rúmum, baðaðstöðu fyrir 1000 manns, hótelaðstöðu fyrir 300 manns, heilsugarði fyrir líkamsþjálfun, sundlaugum, svo alls konar aðstöðu til afþreyingar, heilsustöð með hartnær 1500 starfsmenn. Lokaorð hans voru þau að „allur rekstur (stöðvarinnar) verður að byggjast á arðsemissjónarmiðum, en það er eins og við vitum, best tryggt undir stjórn sjálfstæðra rekstraraðila, en ekki opinberri forsjá.“ Ári seinna lét Ingólfur af störfum við Hitaveituna fyrir aldurs sakir en skömmu seinna var Bláa lónið h.f. stofnað og 1994 tók það yfir baðaðstöðuna og setti upp göngudeild fyrir psoriasis-sjúklinga og aðra húðsjúkdóma. Uppgang Bláa lónsins sem ferðamannastaðar og „gullnámu“ þekkir síðan öll þjóðin. Fylgdist Ingólfur náið með viðgangi þessa „gæluverkefnis“ síns meðan hann lifði.

Aðstandendum Ingólfs Aðalsteinssonar fannst tilhlýðilegt að minnast framgöngu hans í þágu Bláa lónsins á þessum tímamótum, nú þegar þrjátíu ára afmæli þess er á næsta leiti. Var HS, áður Hitaveitu Suðurnesja, þá afhent lágmynd af honum eftir Erling Jónsson.

Börn Ingólfs afhentu HS Orku lágmynd af föður sínum og líkan af Svartsengi. F.v. Aðalsteinn Ingólfsson, Birgir Ingólfsson, Ólafur Örn Ingólfsson, Ásrún Ingólfsdóttir og Atli Ingólfsson. Við gjöfinni tók Albert Albertsson frá HS Orku, oft nefndur guðfaðir Auðlindagarðsins á Reykjanesi.