Albert ákvað snemma að verða leikari
-Smitaðist af leiklistarbakteríunni ellefu ára gamall
Fyrir þá sem vilja verða leikarar þá er það langt og strangt ferli því fyrst þarf að þreyta inntökupróf hjá Listaháskóla Íslands eða öðrum skóla sem býður uppá leiklistarnám erlendis. Þeir sem komast inn í hið eftirsótta leikaranám fara í gegnum inntökuferli sem tekur nokkra daga. Sumir segja þessi inntökupróf vera skemmtilega áskorun. Aðeins tíu nemendur eru valdir inn tvisvar á þremur árum, það eru alltaf tveir bekkir í skólanum og þetta er þriggja ára nám. Miðað er við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.
Var ákveðinn í að verða leikari
Albert Halldórsson var einn af 170 umsækjendum það ár sem hann komst inn í leikaranámið en Albert var ákveðinn í að verða leikari eftir að hann tók þátt ellefu ára gamall í leiksýningu hjá Leikfélagi Keflavíkur. Eldri bróðir hans, Hafsteinn Gíslason, var virkur áhugaleikari hjá sama félagi og hafði það einnig áhrif á Albert.
Í dag starfar Albert sem leikari hjá sjálfstæðu leikhúsunum í höfuðborginni og er með ýmis áform um að vinna meira með börnum og trúðaleikhúsi ásamt því að halda áfram að leika í sýningum fyrir fullorðna eins og hann hefur gert. Sem stendur fara fram sýningar með honum einum á sviði Tjarnarbíós þar sem hann leikur 35 hlutverk!
LK og FS undirbjuggu Albert fyrir leikaranámið
„Ég var mikið að leika með Leikfélagi Keflavíkur og byrjaði þar ellefu ára. Fyrsta sýning sem ég tók þátt í var Litla stúlkan með eldspýturnar og síðan tók ég þátt í Oliver Twist. Þetta kveikti áhuga minn og fljótlega ákvað ég að verða leikari. Eftir grunnskólann fór ég á listnámsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tók alla leiklistaráfanga sem voru þar í boði. Á þessum tíma gat ég tekið þrjá áfanga í leiklist í FS en mjög öflugt leiklistarstarf fór þá fram innan Fjölbrautaskólans. Eftir stúdentinn fór ég í ritlist í Háskólanum því ég var að bíða eftir inntökuprófi í leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Ég hef mjög gaman af því að skrifa. Ég var mikið með Stúdentaleikhúsinu á þessum tíma, sýndi með þeim og endaði í stjórn. Svo reyndi ég við inntökuprófið í leiklistardeildina og komst ekki inn og varð frekar fúll yfir því. Þessi inntökupróf eru krefjandi og það verður að viðurkennast að ég var ekki nógu vel undirbúinn. Ég ákvað að læra af reynslunni og gera betur næst,“ segir Albert sposkur á svip.
Hann gafst ekki upp á draumnum
„Þá fór ég í Kvikmyndaskóla Íslands, lærði klippingu þar og leiklist, handritsgerð og fleira nytsamlegt. Þarna lærði ég margt nýtt í leiklist, allskonar leiklistaraðferðir en ekki var kafað djúpt eins og gert var í leiklistardeild Listaháskóla Íslands (LHÍ), þar sem kafað er mun dýpra í leiklist. Ég nýtti vel þessi tvö ár í Kvikmyndaskólanum en var alltaf með hugann við leikaranámið í LHÍ. Þar eru inntökupróf á tveggja ára fresti tvisvar sinnum á þremur árum. Ég sótti aftur um í leikaranámið og komst inn í annarri tilraun minni. Ég var þarna orðinn 25 ára og miklu sjálfsöruggari. Það var betra að vera orðinn eldri og ég mæli eiginlega með því að fara ekki of ungur í leikaranám. Maður verður að hafa ákveðinn þroska og festu í sjálfum sér því leikaranámið er mjög krefjandi en samt ótrúlega skemmtilegt. Svona eftir á er ég eiginlega glaður að ég hafi ekki komist inn í fyrstu tilraun.“
Þessa dagana er Albert að sýna einleikinn Istan og leikur hvorki meira né minna en 35 hlutverk. Sýningin fer fram í Tjarnarbíó í miðborg Reykjavíkur, þar sem Njarðvíkingurinn, Friðrik Friðriksson, leikari er framkvæmdastjóri.
„Leikaranámið tók þrjú ár en ég útskrifaðist árið 2015 og hef haft ýmis verkefni síðan þá. Í leikarahópnum sem útskrifaðist á sama tíma voru Katrín Halldóra, sem margir þekkja sem Ellý í samnefndri sýningu í Borgarleikhúsinu, og Baltasar Breki, sem lék meðal annars í Ófærð. Við erum öll að vinna í einhverju sem tengist leiklist í dag. Ég sótti um hjá stóru leikhúsunum strax eftir útskrift og væri alveg til í að vinna hjá þeim en þetta er hark og fáir sem komast að strax eftir útskrift. Þá er að nýta tímann vel. Ég hef síðustu þrjú ár unnið með sjálfstæðu leikhópunum og tekið þátt í fjórum sýningum í Tjarnarbíó í Reykjavík. Það er mikil gróska hjá okkur og tilraunastarf í gangi, flott vinnuumhverfi. Ég starfa með tveimur leikhópum í dag sem nefnast Ratatam og Smartilab. Leiksýningin sem ég tek þátt í núna heitir Istan og er eftir vin minn, Pálma Frey Hauksson. Sýningin fjallar um lítinn smábæ snemma á 19. öld í einangruðum bæ á Englandi. Þetta er morðgáta og hálfgert leikaramaraþon því ég leik 35 hlutverk. Mjög krefjandi en samt skemmtilegt og fólk hlær mikið. Ég hef fengið mjög góða dóma og sýningin fengið fjórar stjörnur. Þessa sýningu langar mig að koma með heim í Keflavík, gamla bæinn minn og reikna með að sýna Istan í Frumleikhúsinu fyrstu í maí. Þessa sýningu fer ég einnig með á Einleikshátíðina á Suðureyri í sumar.“
Með mörg járn í eldinum
„Ef þú hefur áhuga á að verða leikari og brennur fyrir því, þá endilega láttu á það reyna. Starfið er fjölbreytt. Ég hef verið að kenna krökkum leiklist í Leynileikhúsinu og finnst það mjög gaman. Ég og einn bekkjarbróðir minn erum að vinna að trúðasýningu fyrir börn og sóttum um styrk til þess að setja hana upp því við viljum bjóða börnum frítt að sjá þessa sýningu. Trúðarnir eru svo einlægir og fara oft út af sporinu í þessari sýningu okkar, þannig að börnin fá tækifæri til þess að hjálpa trúðunum að klára leikritið. Bara skemmtilegt. Leikarastarfið er þannig þegar maður er ekki með fastráðningu í stóru leikhúsunum að maður þarf að vinna á mörgum vígstöðvum. Þú veist aldrei hvaða tekjur þú færð um hver mánaðamót. Ég og fleiri lausráðnir leikarar störfum einnig sem leiðsögumenn uppi á Langjökli inn á milli. Það er fjölbreytt og skemmtilegt og ég nýti mér leikarann í því starfi þegar ég segi ferðamönnum sögur og fræði þá um landið okkar. Ég verð ekki leiður í starfi vegna alls fjölbreytileikans. Framundan eru þó breytingar hjá mér, því frá og með hausti verð ég ásamt fleirum í Ratatam leikhópnum að sýna í Borgarleikhúsinu. Charlotte Böving, eiginkona Benedikts Erlingssonar, leikstýrir okkur í Ratatam en leikhópurinn er afkvæmi hennar. Við í Ratatam settum upp sýningu í fyrra sem fékk góða aðsókn og nefndist Ahhh en þetta var leiksýning unnin upp úr ljóðum Elísabetar Jökuls. Við bjóðum upp á eitthvað nýtt og spennandi í haust í Borgarleikshúsinu.“