Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ákveðið kikk í því að eiga eftir eina eða tvær á Þorláksmessu
Mánudagur 24. desember 2018 kl. 07:00

Ákveðið kikk í því að eiga eftir eina eða tvær á Þorláksmessu

Hjördís Árnadóttir er mikið jólabarn en bakar ekki smákökur. Það er engin regla á jólagjafainnkaupum hjá henni en hún á mjög sterka minningu um eftirminnilegustu jólagjöfina sem hún fékk frá fósturföður sínum.

Ertu mikið jólabarn?
Já veistu það ég er jólabarn og það skemmtilega er að barnið í mér stækkar með hverjum jólum. Ég tel fátt mikilvægara en að varðveita og hlúa vel að barninu í sjálfu sér.  

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
Þau eru svo mörg t.d. Bjart er yfir Betlehem, Skreyttum hús með greinum grænum og Litli trommuleikarinn.

Hvernig eru jólainnkaupin hjá þér?
Það eru ekki svo margir pakkar, ég held mig innan kjarnafjölskyldunnar minnar, sem samanstendur af sjö fullorðnum, einum ungling og tveim tveggja ára hnátum.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Það er engin regla á því.  Oftast er það þannig að eitthvað kemur til mín, án þess að ég sé sérstaklega að leita.  En ég verð þó að viðurkenna að það er ákveðið kikk í því að eiga eftir eina eða tvær á Þorláksmessu.

Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?
Þessa spurningu ættu allir að fá, hún kveikir í gömlum glæðum og maður bókstaflega finnur bragðið af minningunum. Ein hefð er ofarlega í upprifjuninni.  Móðir mín var frá Seyðisfirði. Hún og systir hennar voru tvær af tólf systkinahópi sem settust að á Suðurnesjum. Það var afar kært með þessum fjölskyldum og jólin voru þar ekki undanskilin. Á jóladag vorum við öll saman og þá var farið í ýmsa leiki sem bara voru brúkaðir á jólunum. Allir voru þátttakendur, hlátur, gleði og samkennd einkenndu þessar stundir í bland við stríðni og spott.

Hvað er ómissandi á jólum?
Kærleikurinn, börnin, hlýjar hugleiðingar og kveðjur til vina og vandamanna.  Nú og svo auðvitað blessað hangikjetið.

Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
Að hitta lungann úr stórfjölskyldunni, afkomendum mömmu og pabba. Foreldrar mínir ákváðu fyrir ein jólin að nú væri komið nóg af jólagjafa stússi nema fyrir yngstu börnin. Þau ákváðu að bjóða okkur öllum heim á jóladag í hangikjet og laufabrauð.  Hópurinn stækkar ört og þessi hefð festist í sessi. Nú komum við systkinin með eitthvað á jólaborðið, pakka fyrir litla fólkið og svo er sungið, dansað og spjallað. Við heiðrum þá sem eru fallnir frá.

Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Nei, ég baka yfirleitt ekki. Finnst það bara svo leiðinlegt en í uppvextinum var föst hefð hjá þeim Seyðisfjarðar systrum að smala öllum í laufabrauðsgerð. Þar vildu allir vera með, þó sumir yrðu fljótt leiðir á að skera út. Þetta voru góðar stundir sem við slepptum ekki alveg fyrr en önnur systirin var látin.

Hvenær setjið þið upp jólatré?
Það er engin hefð fyrir því, ég er t.a.m ekki með hefðbundið jólatré. Börnin mín skapa sínar eigin hefðir, engar eins en í æsku var jólatréð alltaf skreytt á Þorláksmessu.

Ertu með einhverjar fastar hefðir um jólin?
Að hafa allt tilbúið fyrir klukkan sex á aðfangadag og allir sestir við hátíðarborðið þegar klukkurnar klingja inn jólin. Að opna jólapakka hefjist þegar gengið hefur verið frá öllu tengdu borðhaldinu. Þarna hjálpast gjarnan margir að, ekki síst þær minnstu og spenntustu.

Hvenær eru jólin komin hjá þér?
Undir lestri jólaguðspjallsins um klukkan sex á aðfangadag.

Hvar ætlar þú að verja aðfangadegi?
Heima á nýja heimilinu mínu. Eftir matinn rölti ég svo milli hæða og kíki á fjölskyldurnar sem þar búa og eru mér afar kærar, börnin mín og barnabörn. Ég reyni svo að ná sambandi við litlu fjölskylduna mína á Dalvík en þar býr annar sonurinn ásamt fjölskyldu sinni.

Hvað verður í matinn á aðfangadag?
Ég er ekki búin að ákveða það. Það verður eitthvað mjög óformlegt t.d fiskur eða fugl.  Meðan börnin voru heima, þá voru ekki jól nema hamborgarhryggur væri á borðum. Ég held reyndar að ekkert þeirra haldi þeirri hefð.

Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Þegar ég var sex ára og orðin meðvituð um að ég ætti annan pabba en stjúpa minn, varð mér allri lokið þegar ég opnaði jólapakkann frá honum. Í honum leyndist þessi líka fína gráa regnkápa og sjóhattur, nema hvað flíkurnar voru mörgum númerum of stórar á píslina sem ég var. Ég man það ljóslifandi þegar ég horfði á herlegheitin og hugsaði; Hvernig getur einhver verið pabbi manns sem veit ekki hvað maður er stór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024