Ákvað að gera áhugamálið að frama
- Sigríður Valdimarsdóttir skrifar hinsegin ástarsögur
„Það var alltaf fjarlægur draumur að geta unnið fyrir mér sem skáld eða rithöfundur, en í þá daga varð maður að velja eitthvað praktískara. Unglingar í dag hafa úr svo miklu meira að velja þegar þau velja sér framabraut og menntun,“ segir viðskiptafræðingurinn Sigríður J. Valdimarsdóttir, sem skrifað hefur hinsegin bókmenntir á ensku. Bækurnar hafa notið mikilla vinsælda og oftar en einu sinni komist ofarlega á sölulista Amazon, einum stærsta bóksöluvef heims. Í heildina hefur Sigríður selt sex þúsund eintök af bókum sínum, ýmist rafrænar útgáfur eða prentaðar.
Sigríður er 38 ára og ólst upp í Grindavík. Átján ára gömul flutti hún þaðan og bjó um tíma í Reykjavík, Danmörku og í Kópavogi. Árið 2007 eignaðist hún tvíburastráka með manninum sínum. Þau skildu árið 2011 og þá flutti Sigríður aftur með synina til Grindavíkur þar sem foreldrar hennar búa. Núna í sumar ætlar fjölskyldan að flytja aftur í Kópavoginn.
Hefur samið frá unglingsárum
Sigríður hefur samið sögur og ort ljóð síðan á unglingsárum en tók sér langa pásu þar til um þrítugt. „Þegar ég byrjaði að skrifa aftur ákvað ég að gera áhugamálið að frama,“ segir Sigríður. Þá byrjaði hún að fikta við skrifin aftur og var komin með langa unglingabók þegar hún las af forvitni ástasögu um samkynhneigða menn. „Þetta heillaði mig og ég ákvað að fara þessa leið frekar en að halda áfram með hið svokallaða „mainstream young adult“ bækur.“ Fyrir fimm árum síðan var hún svo tilbúin með tvö handrit af bókum í fullri lengd og þrjár smásögur og hafði samband við Man Love Romance Press, sem var þá einn af stærstu útgefendunum í þessum geira og komst inn hjá þeim. Núna eru útgefnar bækur eftir Sigríði orðnar þrjár og smásögurnar tíu. Þessa stundina er hún að klára aðra bók og vinna að nokkrum smásögum. Það er safn af stuttsögum sem gerast á Íslandi. Það verður í fyrsta sinn sem hún skrifar um íslenskar persónur. Bókaforlagið Juno í Frakklandi ætlar svo að gefa eina bókanna út þar í landi í nóvember.
Aðspurð um viðtökurnar, segir Sigríður þær hafa verið mjög góðar. „Ég gaf út mjög oft á fyrsta árinu, þannig að nafnið mitt var alltaf að poppa upp á erlendum samfélagsmiðlum. Mér tókst að búa til vörumerki með því að vera mikið til staðar og auglýsa sjálfa mig. Þannig er það í útgáfuheiminum í dag, að minnsta kosti í Bandaríkjunum, að rithöfundarnir þurfa að markaðssetja sig og sínar bækur sjálfir. Útgefendur eru ekki mikið að því, nema þeir allra stærstu. Það hjálpaði mér að ég er viðskiptafræðingur, með áherslu á markaðsfræði og stjórnun, þannig að mér fannst þetta skemmtilegt.“
Speglaði sjálfa sig í afneituninni
Fyrsta bókin sem Sigríður sendi frá sér heitir A Life without You og fjallar um tvo háskólastráka sem eru herbergisfélagar. Annar þeirra er hommi, en hinn er búinn að koma sér kyrfilega fyrir inni í skápnum. Bókin fjallar um afneitun, og hvort það sé þess virði að leyfa sér að vera eins og maður er. „Þetta speglaði sjálfa mig mjög mikið þar sem ég var í afneitun um mína kynhneigð. Mikið af mínum bókum fjalla um skápinn eða hræðslu mína við að koma út úr honum.“ Nú er Sigríður komin út sem bæði pankynhneigð og blætishneigð og er farin að leggja aðrar áherslur í skrifum sínum. Pankynhneigðir laðast að persónuleika annarra í stað kyns eða kynímynda. Blæti er þýðing á enska orðinu „fetish“ og er samheiti yfir hluti, fyrirbæri, eða líkamshluta sem vekja kynferðislegan losta. BDSM fellur undir þetta samheiti.
Sigríður kveðst alltaf hafa verið dagdreymin og að innblásturinn að bókunum komi úr hennar eigin kolli. „Dagdraumarnir eru eins og kvikmyndir í höfðinu og ég ákvað að skrifa þetta niður. En stundum koma allt í einu upp „hvað ef” spurningar. Hvað ef strákar á stúdentagörðum heyra í hvorum öðrum sitt hvoru megin við vegginn? Hvað ef þeir hafa aldrei hittst í persónu? Hvað ef þeir verða hrifnir af hvorum öðrum? Og hvað ef það kemur upp stór misskilningur um það hver manneskjan hinum megin við vegginn er? Það er hægt að búa til skemmtilegar sögur út frá svona pælingum,“ segir Sigríður, en þetta voru pælingar sem urðu að stuttsögunni The Walls Have Ears.
Karlar tækla hlutina öðruvísi en konur
Bækur Sigríðar fjalla allar um menn sem eru að finna hina sönnu ást í fyrsta sinn. Hún segir það eflaust hljóma væmið en að það skemmtilega við þessar bækur, og aðrar sem eru skrifaðar af öðrum, er að þar er verið að skrifa um tvo karla. „Þá eru bækurnar oftast minna væmnar en hefðbundnu maður/kona ástarsögurnar. Karlar eiga það til að tækla hlutina öðruvísi en konur, þó að þeir séu eins misjafnir og þeir eru margir, og það er skemmtilegt að skrifa það. Einnig hafa allar bækurnar hingað til haft að minnsta kosti eitt þema í kringum það að vera samkynhneigður, til dæmis að vera í skápnum, að vera útskúfaður, að vera með innri hómófóbíu, einelti vegna kynhneigðar, og svo framvegis. En þó að þetta séu alvarleg málefni, þá eru bækurnar yfirleitt auðlesnar því ég passa upp á að hafa húmor með,“ segir Sigríður. Hún bætir við að bækurnar séu fyrst og fremst ástarsögur en innihaldi flestar erótískar senur. „Ef ég væri að skrifa ástarsögur um karla og konur þá væru þar líka erótískar senur enda finnst mér miklu skemmtilegra að lesa þannig ástarsögur.“
Sigríður skrifar undir höfundarnafninu Erica Pike og segir hún gilda ástæðu fyrir því. „Mamma og pabbi voru svo góð að gefa mér sterkt, rammíslenskt nafn sem ég gat engan veginn notað á alþjóðamarkaði. Ég varð að finna eitthvað annað.“ Stuttu áður en Sigríður byrjaði að skrifa var hún að spila tölvuleikinn World of Warcraft Online þar sem hún var í hlutverkaleik og lék persónu sem hét Eva Pike. Aðalpersónan í unglingabókinni sem hún var að skrifa áður en hún fór að skrifa ástarsögur um samkynhneigða menn heitir Eva, þannig að hún ákvað að nota Erica sem höfundanafn.
Skrifar mest á sumrin
Vinnudagarnir við ritstörfin eru ekki hefðbundnir, heldur tekur Sigríður tarnir og skrifar og skrifar og svo koma hlé á milli. Hún hefur glímt við kvíða og þunglyndi í tólf ár og verið óvinnufær vegna þess. „Ég get mjög lítið gert á veturna og er lengi að koma mér af stað á vorin. Á sumrin næ ég að skrifa ágætlega, á meðan synir mínir eru hjá pabba sínum, en svo dofnar orkan með haustinu. Það er mjög erfitt að vera svona, en ég er að læra að lifa með því með því að nýta orkuna þegar færi gefst. Þegar ég er byrjuð á bók, þá er ég inni í þeim heimi á meðan ég skrifa, og verð að hafa skrifblokk við rúmið því hugurinn fer á flug.“
Í sumar ætlar Sigríður að leggja lokahönd á unglingabók sem fjallar um tvo stráka sem festast með öðru fólki í verslunarmiðstöð á meðan veikt fólk breytist í uppvakninga og heimurinn eins og við þekkjum hann endar. „Þeir verða að treysta á hvorn annan til að finna mat og fleira til að halda hópnum á lífi. Að lokum þurfa þeir svo að finna leið út. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á heimsendabókum og öðrum sjálfsbjargar myndum og þess háttar.“ Það er nóg að gera hjá Sigríði því hún er líka að skrifa bækur með tveimur öðrum rithöfundum. Ein af þeim gerist í Kanada og fjallar um „shiftera” það er menn sem geta breytt sér í dýr, en hin gerist á Íslandi og er nútímasaga.