Akurskóli á grænni grein
Akurskóli er að taka þátt í verkefninu „skóli á grænni grein“ sem er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu skóla. Skólinn er að ljúka við skrefin sjö og þegar því marki er náð sækjum við um að fá að flagga Grænfánanum. Skrefin sjö eru verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál.
Innan Akurskóla höfum við að leiðarljósi að fara vel með umhverfið og náttúruna. Skólinn hefur frá upphafi verið fernulaus og bæði skólinn og Akurskjól (frístundarskólinn) nota margnota mataráhöld. Daglega er unnið markvist að því að fara vel með pappír og endurnýta hann. Í skólanum er sérstakt endurnýtingarherbergi þar sem við söfnum ýmsu sem við sjáum notagildi í bæði í endurnýtingu og endurvinnslu.
Gaman var að sjá hvernig nemendur og kennarar fléttuðu endurvinnslu og endurnýtingu inn í þemaviku í vetur. Afraksturinn var t.d. fallegar pappírsskálar, krúsir og laufblöð á vinartré. Það kemur sér vel að vera í þessu verkefni núna þar sem niðurskurður í skólum er mikill.
Vorið 2010 fengu 1. til 5. bekkur fötur til að setja í afganga af ávöxtum og grænmeti frá nestistímum. Föturnar tæma nemendur síðan reglulega í moltukassa sem staðsettir eru bak við skólann. Í haust var fylgst vel með fötum bekkjanna og nemendur hafa staðið sig mjög vel í umgengni og notkun þeirra. Nokkrum bekkjum voru veittar viðurkenningar í formi ávaxtabakka þann 2. febrúar. Áfram verður fylgst með fötum bekkjanna og vonumst við til að geta veitt fleiri viðurkenningar í vor. Framtíðar markmiðið er að afrakstur moltugerðar verði hægt að nýta í matjurtargarð Akurskóla. Síðastliðið vor settu nemendur niður kartöflur, sem þau tóku upp í haust og var afraksturinn rúm 11 kíló eða 495 kartöflur.
Með þessu verkefni er markmiðið að auka þekkingu og styrkja grunn í umhverfismálum og að tekin sé ábyrg afstaða gagnvart umhverfi og umhverfismálum. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.
Frekar upplýsingar um Grænfánaverkefnið má finna á heimasíðu Landverndar á http://www.landvernd.is/graenfaninn/ og heimasíðu
Akurskóla
Umhverfisnefnd Akurskóla.