Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Akkúrat það sem mig hafði dreymt um
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 17. ágúst 2020 kl. 12:54

Akkúrat það sem mig hafði dreymt um

Sandra Rún Jónsdóttir úr Sandgerð hefur tekið við skólastjórn Tónlistarskóla Rangæinga

Sandgerðingurinn Sandra Rún Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Tónlistarskóla Rangæinga. Sandra Rún er 26 ára og er með bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands í skapandi tónlistarmiðlun auk meistaragráðu frá Barklee Collage of Music (Global Entertainment and Music Business). Hún starfar nú sem skóla- og hljómsveitarstjóri hjá Skólahljómsveit Austurbæjar en hefur einnig sinnt tónlistarkennslu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónlistarskólann í Garði auk þess að starfa sem deildarfulltrúi við Tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún stundaði tónlistarnám frá barnsaldri og leikur á blásturshljóðfæri. Hún hefur tekið þátt í lúðrasveitarstarfi, spilað með léttsveit og starfað með Bjöllukór Tónlistarskólans í Reykjanesbæ. Þá hefur Sandra Rún tekið virkan þátt í margvíslegu  kóra- og leikhússtarfi.

– Hvernig kom það til að þú ákvaðst að sækjast eftir skólastjórastöðunni í Tónlistarskóla Rangæinga?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir að ég útskrifaðist úr háskólanámi var ég svo heppin að fá tímabundna afleysingu á skrifstofu við Tónlistardeild Listaháskólans. Þegar það var farið á líða á árið mitt þar og ég farin að leita mér að öðru vantaði afleysingu sem stjórnandi hjá Skólahljómsveit Austurbæjar og var mér boðin sú staða. Ég fann mig mjög vel í því starfi og eftir því sem leið á veturinn fann ég mig alltaf betur og betur og var nokkuð viss um að þetta starf væri eitthvað sem hentaði mér og ég gæti hugsað mér að vinna við.

Ég er algjört sveitarbarn, kem úr sveit að norðan og elst síðan að mestu upp í Sandgerði og eftir að búa nokkur ár í Reykjavík var mig farið að langa út á land. Þannig að þegar ég sá auglýsinguna um skólastjórastöðuna hjá Tónlistarskóla Rangæinga varð ég mjög spennt því þetta var akkúrat það sem mig hafði dreymt um, að komast út á land og vinnan sem mig langaði í svo það get ekki verið betra.

– Ráðningarferlið var sérstakt og í gegnum Zoom-fjarfundarforritið. Hvernig var að fara í gegnum ráðningarferli í fjarfundarbúnaði?

Það var frekar skrýtið og stressandi, því það er ekki hægt að miðla öllu í gegnum fjarfundabúnað. Það er erfiðara að skila persónuleika sínum, nærveru o.þ.h. í gegnum tölvuskjá en ég hlýt að hafa skilað einhverju því ég fékk boð í næsta viðtal sem var á staðnum en ekki í gegnum Zoom. Þau buðu s.s. þremur einstaklingum af átta sem fóru í Zoom-viðtal að koma í annað viðtal sem haldið var hérna á Hvolsvelli og ég fór inn á starfsmannafund, kynnti sjálfa mig og svaraði spurningum starfsmanna skólans. Það var mjög taugatrekkjandi að standa þarna fyrir framan alla og tala um sjálfan sig en um leið og ég gekk inn leið mér mjög vel og var þetta bara ekkert mál. Þegar ég fékk svo símtalið að þau vildu bjóða mér starfið þá var ég ekki alveg að trúa því en svo tók gleðin og spenningurinn yfir þegar ég áttaði mig á því hvað þetta allt saman þýddi.

– Og núna þegar skólastarfið er að byrja, þá eru einnig áskoranir vegna Covid-19. Hvernig finnst þér að fara inn í haustið í þessu ástandi?

Það er frekar skrýtið og óþægilegt. Ég er ekki viss hvort ég geti boðað starfsmannafund hér í skólanum því ég hef ekki beint rými til að halda tveggja metra reglunni með alla starfsmennina í einu. Annars gekk allt mjög vel hér á vormánuðum og reynslan sem myndaðist þá mun sannarlega nýtast nú ef svo ber undir. Það er ekkert skemmtilegt að byrja skólaárið í þessum takmörkunum en ég tek þessum áskorunum og reyni mitt besta við að leysa það sem leysa þarf og svo verður bara spennandi að sjá hvað tíminn leiðir í ljós í þessu COVID-19-ástandi. Við allavega byggjum bara ofan á þá reynslu sem kom í vor og bíðum svo bara og sjáum hvort við komum kennslunni ekki bara sem fyrst í nokkuð eðlilegt horf.

– Hvernig leggst nýja starfið í þig?

Það leggst mjög vel í mig. Ég hef heyrt að það sé spenningur að fá mig hér í samfélaginu sem gerir mig smá stressaða en líka bara spennta að byrja og kynnast öllum og öllu hér. Það er pínu skrýtið að vera orðin skólastjóri svona ung en það er bara skemmtileg áskorun að vera yngst í starfsmannahópnum. Við erum með þrjá kennslustaði; á Hvolsvelli, Hellu og Laugalandi í Holtum. Það eru um sautján kennarar og 310 nemendur sem eru dreifðir um alla sýsluna. Aðbúnaðurinn er mjög góður, þ.e. nóg rými og vel útbúnar kennslustofur.

– Segðu okkur aðeins um þig. Hvernig fékkst þú tónlistaráhugann?

Ætli tónlistaráhuginn hafi ekki bara komið í gegnum tónlistarnámið. Það var mikil tónlist á heimilinu þar sem við fjögur systkinin vorum öll í tónlist og mamma líka og pabbi söng í kór.

Þeir sem hafa haft mestu áhrifin á minn tónlistarferil eru nokkrir. Ætli það sé ekki aðallega hún móðir mín því það er hún sem setti okkur öll systkinin í tónlistarnám. Hún hélt manni í tónlistarnáminu í gegnum erfiða tímabilið þegar maður nennir þessu ekki og vill hætta. Hún hélt systur minni í námi út 10. bekk og þá þakkaði hún mömmu fyrir að hafa haldið sér í námi svo hún gerði það einnig við okkur hin. Systir mín spilar einnig stóran sess í mínu tónlistaruppeldi því hún var fyrsti þverflautukennari minn og kom mér í lúðrasveit. Hún var einnig í léttsveitinni í Reykjanesbæ og var ég alveg dolfallinn aðdándi þeirra – en hún Karen Sturlaugsson hefur skipt ótrúlega miklu máli í því hvert ég er komin í dag. Uppeldið í gegnum lúðrasveitina, léttsveitina og bjöllukórinn hjá Karen hefur algjörlega mótað mig í þá átt sem ég kaus að fara með minn tónlistarferil. Þessar þrjár hafa allar verið mínar helstu klappstýrur þegar ég hef þurft á að halda og talað mig til þegar trúin á sjálfa mig var ekki alveg til staðar. Án þeirra þriggja væri ég ekki á þeim stað sem ég er í dag.

– Hvernig var þín tónlistarskólaganga?

Hún er mjög flókin og fjölbreytt. Ég byrjaði í Tónlistarskólanum í Sandgerði þegar ég var í fyrsta bekk og stundaði nám á þverflautu, trompet og píanó í yfir þretán ár. Ég byrjaði minn hljómsveitarferil þar í Lúðrasveit Tónlistarskóla Sandgerðis. Einnig tók ég grunnpróf og miðpróf á þverflautu og grunnpróf á trompet. 

Ég stundaði líka að hluta nám á trompet og þverflautu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar ásamt að því að vera í tónfræði þar. Ég var í hljómsveitum í Reykjanesbæ; lúðrasveit, léttsveit og bjöllukór. Með lúðrasveitinni og bjöllukórnum fór ég í nokkrar utanlandsferðir og ætli bjöllukórsferðirnar standi ekki upp úr vegna tækifæranna sem við fengum sem voru m.a. að spila á tónleikum í Carnigie Hall í New York og að opna tónleika Sigur Rósar í Toronto. Við í bjöllukórnum spiluðum í nokkur ár á Jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og á Norður og Niður hátíðinni sem haldin var í Hörpu af Sigur Rós ásamt því að taka upp disk með efni Sigur Rósar.

Ég fékk tækifæri á meðan ég var í framhaldsskóla að leysa af í nokkrar vikur, bæði tónfræði og hljóðfærakennslu, sem var mjög lærdómsríkt því ég hafði stefnt á að sækja um nám á hljóðfærakennarabraut í Listaháskólanum en eftir þessar vikur í afleysingum fannst mér mun skemmtilegra að kenna tónfræði en einkatíma á hljóðfæri svo þarna vissi ég ekki alveg hvað ég átti að gera. Ég vissi að mig langaði að vinna við tónlist. Karen sá að eitthvað var að, ég var ekki alveg viss um hvað ég vildi gera og tók mig inn á skrifstofuna sína og við settumst niður og skoðuðum hvað var í boði. Ég endaði á að sækja um nám í skapandi tónlistarmiðlun, komst ég inn í námið við LHÍ og gæti ekki verið sáttari með þá ákvörðun.

Í náminu í LHÍ fékk ég tíma á bæði þverflautuna og trompetinn. Í gegnum námið í miðlun unnum við mikið með alls konar hópa og viðburði. Einhvern veginn fann ég mig í stjórnendahlutverki í mörgum þeirra og því lengra sem leið á námið endaði ég alltaf meira og meira í hlutverkum á bak við tjöldin og fannst það henta mér mjög vel. Ég fór í nemendapólitík þar sem ég endaði sem formaður nemendafélags tónlistardeildar og sat því í nemendaráði LHÍ og endaði einnig sem formaður þar og sat sem formaður beggja félaga í tvö ár. Þrátt fyrir að finna mig mjög í þessu námi var ég ekki viss hvað myndi taka við. Fannst ég ekki tilbúin að fara út á vinnumarkaðinn og langaði í framhaldsnám. Eftir langa rannsóknarvinnu og hjálp marga leiðbeinanda fann í nám við Berklee College of Music. Berklee er bandarískur háskóli en þau eru með útibú í Valencia á Spáni. Ég fór því til Spánar í mastersnám í Global Entertainment and Music Business og útskrifaðist með masterspróf sumarið 2018.

– Þú ert sest að á Hvolsvelli, hvernig er að flytja í nýtt samfélag? Þekktir þú eitthvað til þarna?

Ég flutti til Hvolsvallar um mánaðarmótin júní/júlí því ég vildi koma mér fyrir og aðeins að kynnast bæjarfélaginu áður en allt fór á fullt í vinnu. Ég þekki ekkert til hérna, er að norðan úr Kelduhverfinu og af Suðurnesjunum svo allar mínar tengingar eru á þeim slóðum en mér fannst mjög spennandi að fara í nýtt samfélag þótt það sé frekar erfitt. Þegar samfélagið er svona lítið eins og hér getur verið erfitt að kynnast fólki en það kemur held ég þegar skólinn fer af stað og maður fer í félagstarf hérna í bænum. Ég er allavega mjög spennt fyrir framhaldinu hérna.