Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Áhyggjuefni að sjá unglinga draga upp hnífa
Skúli þarf oft að fara í viðtal hjá fjölmiðlum. Mynd/Kristján Söebeck
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 25. nóvember 2023 kl. 06:07

Áhyggjuefni að sjá unglinga draga upp hnífa

Lögreglumaðurinn Skúli Jónsson varði markið á yngri árum en er kominn með golfbakteríuna

„Starfið gengur út á að hjálpa fólki en vissulega kemur fyrir að við þurfum að beita því valdi sem við höfum en það er í raun undantekningin,“ segir Skúli Jónsson, lögreglumaður en blaðamaður Víkurfrétta hitti Skúla föstudaginn 10. nóvember, sama dag og hamfarirnar áttu sér stað í Grindavík. Þar sem Skúli á mikla tengingu við Grindavík var hann í vafa hvort viðtal við sig væri við hæfi en eftir fortölur var hægt að sannfæra hann um að viðtal, alls ótengt ástandinu í Grindavík, ætti vel við á þessum tímapunkti. Skúli varði mark Grindvíkinga um tíma í fótbolta, gerðist snemma lögreglumaður og hefur fært sig um set innan lögreglunnar, er á lögreglustöð 2 á höfuðborgarsvæðinu. Skúli byrjaði í golfi fljótlega eftir að knattspyrnuferlinum lauk og dreymir um að geta iðkað það áhugamál með Brynju konu sinni, um ókomna tíð.

Skúli er fæddur í Keflavík í febrúar árið 1964 og því er stutt í stórt sextugsafmæli en litlu munaði að komandi afmæli væri einungis einn fjórði í árum talið. „Það munaði einum degi að ég hefði fæðst á hlaupaári, ég fæddist að kvöldi 28. febrúar og það ár voru dagarnir 29 í þeim mánuði svo ég væri þá bara að fagna 15 ára afmæli en auðvitað er þetta bara leikur að tölum. Ég er yngstur þriggja bræðra, pabbi er úr Eyjafirðinum og mamma úr Reykjavík. Pabbi fór í Stýrimannaskólann og kynntist mömmu á balli í höfuðborginni og þau fluttu svo til Keflavíkur. Nokkuð stór hluti fjölskyldunnar flutti þangað frá Árskógssandi svo það lá kannski beinast við hjá foreldrum mínum á þeim tíma. Ég ólst upp á Smáratúninu, þar var mikið strákager og mikið leikið, þar eignaðist ég minn besta vin, Rúnar Karlsson, en hann lést því miður fyrir nokkrum árum. Fótboltinn var fyrirferðamikill leikur hjá okkur strákunum, við stofnuðum okkar eigið lið sem við nefndum Fallbyssuna í höfuðið á Arsenal sem var og er okkar lið í enska boltanum. Það var bara einn grunnskóli í Keflavík á þessum tíma, skóli sem í dag er Myllubakkaskóli en svo fór maður upp í Gaggó sem var Holtaskóli. Ég fór svo í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og útskrifaðist af viðskiptafræðibraut. Ég ætlaði mér fyrst að feta þá braut, skráði mig í Háskóla Íslands í viðskiptafræði en fann svo fljótt að það ætti ekki við mig, hætti því námi og átti eftir að fara allt aðra leið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lögreglumaðurinn

Þegar Skúli hætti náminu í viðskiptafræðinni, bauðst honum afleysing í lögreglunni í Keflavík. Hann ákvað að slá til og ekki leið á löngu þar til hann var búinn að skrá sig í lögregluskólann og útskrifaðist þaðan árið 1988.

Hvað er það við lögreglustarfið sem heillar Skúla?

„Þetta er fyrst og síðast þjónustustarf, við erum til þjónustu reiðubúnir fyrir samborgarana og þetta hefur allan tímann hentað mér mjög vel og átt vel við mig. Sem pjakkur vann ég hina ýmsu verkamannavinnu, pabbi var með fiskvinnslu og ég vann í henni og prófaði ýmislegt en fann svo strax að lögreglustarfið myndi henta mér best. Starfið gengur út á að hjálpa fólki en vissulega kemur fyrir að við þurfum að beita því valdi sem við höfum en það er í raun undantekningin. Ég byrjaði sem almennur lögreglumaður á lögreglustöðinni í Keflavík og leysti svo af sem rannsóknarlögreglumaður um tíma. Ég hefði alveg verið til í að halda því áfram en sá sem ég leysti af sneri til baka og því hélt ég áfram sem almennur lögreglumaður. Ég færðist svo upp í aðstoðarvarðstjóra, varð varðstjóri, síðar aðalvarðstjóri og síðan urðu breytingar hjá embættinu. Við sameinuðust Grindvíkingunum og seinna meir lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, í dag er þetta eitt lögregluembætti fyrir öll Suðurnesin. Árið 2007 var ég settur sem aðstoðaryfirlögregluþjónn og stýrði almennu deildinni hjá okkur til ársins 2018 en þá ákváðum við Brynja eiginkona mín, að skipta um umhverfi og flytja á höfuðborgarsvæðið. Strákarnir okkar voru fluttir þangað og eitt barnabarn komið,“ segir Skúli.

Skúli hafði samband við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um flutning á milli embætta, en hún hafði verið yfir embættinu á Suðurnesjunum og þekkti því til hans starfa. Það varð úr þessum flutningi í byrjun árs 2018 og var hann settur yfir lögreglustöð 2 sem er í Hafnarfirði. Lögreglustöð 2 er ein fjögurra stöðva á höfuðborgarsvæðinu og heyrir Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes undir þá stöð, alls um 48 þúsund íbúar. Hann er mest á skrifstofunni að sinna hinum ýmsu málum en svo kemur fyrir að hann þurfi að fara í útköll.

Skúli ásamt afadrengnum Fannari Þór.

Þróun í lögreglustarfinu

Starf lögreglumannsins hefur breyst talsvert á undanförnum árum, það er meira um vopnaburð í dag en fyrir utan hin almennu lögreglustörf, sinnir Skúli verkefni sem rataði í fréttatíma sjónvarpsstöðvanna í sumar sem snýr að innbrotum og þjófnuðum á Íslandi.

„Ég sinni verkefni  sem tengist Europol sem er löggæslustofnun Evrópu. Þar er ég tengiliður við greiningarteymi sem aflar upplýsinga um skipulagða eignaþjófnaði og farandbrotahópa á þeim vettvangi, hópa sem fara á milli landa og stunda sína iðju. Ég þarf að fylgjast með öllum innbrotum sem eiga sér stað á landinu og athuga hvort ég sjái eitthvað sem bendi til þess að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Það komu upp nokkur innbrotsmál í sumar, fjölmiðlar vildu vita meira og því var ég tekinn í viðtal. Þegar betur var að gáð reyndist þetta sem betur fer ekki vera skipulögð glæpastarfsemi að utan en svona þarf ég að vakta þessa hluti.

Það er orðið meira um vopnaburð í dag og auðvitað er það áhyggjuefni, sérstaklega að sjá unglinga draga upp hnífa. Maður var skotinn um daginn, þetta er þróun sem er vissulega ekki góð en svona er bara veruleikinn orðinn og við honum þarf lögreglufólk að geta brugðist. Ég hef mikla trú á rafbyssunum, þjálfun er í gangi þessa dagana og ég bind miklar vonir við þetta tól. Ég sé ekki hvað mælir á móti þessu, það er ekki hægt að beita rafbyssunni nema skýrt komi í ljós hvernig viðkomandi lögreglumaður beitti henni, því þarf lögreglufólk að vanda mjög til verka. Okkar lögreglufólk er það vel þjálfað, ég hef enga trú á að þessu vopni verði misbeitt en við verðum að geta varið okkur, við getum ekki ráðist til atlögu ef andstæðingurinn er vopnaður hnífi eða hvað þá skotvopni,“ segir Skúli.

Lögreglufólk getur starfað til 65 ára aldurs og því á Skúli rétt rúm fimm ár eftir. Hann sér ekki fram á að breyta um starfsvettvang úr því sem komið er og kann vel við sig á nýja staðnum. „Ég finn mig mjög vel í þessu starfi og finn að þetta var rétt ákvörðun hjá okkur að flytja á höfuðborgarsvæðið. Það er allt mun umfangsmeira þar en á Suðurnesjunum og öll stoðþjónusta hjá embættinu á höndum fleiri starfsmanna en ég var vanur heima í Keflavík. Ég kann vel við að vera hluti af stórri einingu en sjálft lögreglustarfið er svipað á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Búnaður lögreglufólks hefur snarbatnað á undanförnum árum, þetta er mjög gott vinnuumhverfi og ég sé ekki fram á annað en klára lögregluferilinn hér. Það var sérstök forvarnardeild á sínum tíma en hún var lögð niður og þá hallaði aðeins undan fæti, virðing barnanna fyrir lögreglunni hefur minnkað en við erum að spyrna við fótum. Nú eru komnar svokallaðar samfélagslöggur eins og Krissi er í Reykjanesbæ, ég er viss um að þetta muni gefa góða raun og við snúum blaðinu við.“

Lið Grindavíkur sem vann SV-riðil gömlu þriðju deildarinnar árið 1989.
Lið KFK, Skúli rauðhærði markmaðurinn í fremri röð.

Markmannshanskarnir

Skúli byrjaði ungur að leika knattspyrnu og frá fyrstu stundu áttu markmannshanskarnir hug hans allan. Það vantaði ekki fyrirmyndirnar í Keflavík á uppvaxtarárunum, Þorsteinn Ólafsson var í markinu, næstur var Þorsteinn Bjarnason og svo kom Bjarni Sigurðsson en Bjarni er fjórum árum eldri en Skúli. „Á þessum árum voru tvö félög í Keflavík, KFK [Knattspyrnufélag Keflavíkur] og UMFK [Ungmennafélag Keflavíkur], ég var í því fyrrnefnda en á sumrin kepptum við svo undir merkjum ÍBK [Íþróttabandalag Keflavíkur]. Ég spilaði körfubolta á veturna og handbolti var nokkuð stór á þessum tíma í Keflavík, ég lék vinstri skyttu og við vorum bara nokkuð góðir. Ég prófaði líka júdó og sund svo það sést að íþróttir skipuðu stóran sess í mínu lífi til að byrja með. Þegar ég eldist var ég með mikla samkeppni fyrir framan mig í markinu, nafnana Þorstein Ólafs og Þorsteinn Bjarna og Bjarni Sig var þarna líka svo það var ljóst að það yrði erfitt fyrir mig að fá tækifæri. Um sautján ára aldurinn til tvítugs var ég mikið á bekknum en var svo að spá í að hætta þessu en árið 1984 hafði Sandgerðingurinn Guðjón Ólafsson samband við mig, hann var að þjálfa heimaliðið Reyni í þriðju deildinni. Ég ákvað að taka slaginn og sá ekki eftir því. Þetta var frábær tími í Sandgerði og svo þegar Guðjón réði sig til Grindavíkur árið 1989, tók hann mig með sér þangað en í millitíðinni hafði ég komið við í Keflavík og tók nokkur tímabil með þeim sem varamarkvörður Þorsteins Bjarnasonar og náði að spila einn leik í efstu deild. Keflavík var með hörkugott lið á þessum tíma með leikmenn eins og Sigga Björgvins, Gunnar Odds og Ragnar heitinn Margeirsson. Ég ökklabrotnaði reyndar árið 1988 í lögregluskólanum og hélt þá að fótboltaferlinum væri lokið en Guðjón náði að plata mig til Grindavíkur fyrir ‘89 tímabilið en þá voru þeir í gömlu þriðju deildinni. Grindvíkingar voru lengi búnir að reyna koma sér upp en þá voru tveir riðlar í þriðju deildinni, SV og NA riðill. Ég varð strax mjög hrifinn af Grindvíkingum, bæði leikmönnum og fólkinu í kringum félagið. Við vorum góðir allt sumarið og tryggðum okkur sigur í riðlinum í lokaleiknum í suðvestan fimmtán vindstigum og úrhellisrigningu, ég mun aldrei gleyma fögnuðinum í leikslok og lokahófið um kvöldið í Festi var algerlega frábært, gleðin sveif yfir vötnum. Liðinu var boðið til Spánar í kjölfar sætisins í annarri deildinni en það átti eftir að spila tvo úrslitaleiki við KS [Knattspyrnufélag Siglufjarðar] um sigur í þriðju deildinni en sá leikur skipti Grindvíkinga engu máli, að komast upp úr þriðju deildinni var aðalmálið og við fórum í frábæra ferð til Spánar og KS fékk bikar fyrir sigurinn í þessari deild. Keflvíkingurinn Haukur Hafsteinsson tók svo við liðinu og eftir mikið basl í annarri deildinni tókst okkur með herkjum að halda okkur uppi, þurftum að vinna Fylki í lokaleiknum en þá voru þeir í öðru sæti í deildinni. Við unnum og Fylkismenn misstu Breiðablik upp fyrir sig svo þetta var frábær sigur hjá okkur sem bjargaði veru okkar í deildinni. Svo tók Bjarni Jóhannsson við liðinu og þá kom minn gamli félagi úr Keflavík, Þorsteinn Bjarnason og þá taldi ég góðan tímapunkt að leggja hönskunum, var að eignast mitt fyrsta barn. Bjarni hafði svo samband um vorið, vildi fá samkeppni fyrir Steina og ég ákvað að taka það tímabil sem gekk mjög vel og við vorum í baráttunni um að komast upp en gekk ekki. Ég tók svo ‘92 tímabilið í Keflavík, bakkaði Ólaf Pétursson upp og við fórum upp í efstu deild og þar með endaði minn markmannsferill með félagsliðum, þar sem hann byrjaði en ég var svo í löggulandsliðinu í nokkur ár og fór með þeim í fjölmargar eftirminnilegar keppnisferðir til útlanda,“ segir Skúli.

Golfbakterían hefur náð Skúla.

Fjölskyldan og golfið

Skúli fann ástina fljótt í heimabænum, eiginkona hans heitir Brynja Hafsteinsdóttir en þau kynntust í lögreglunni á sínum tíma. Brynja skipti svo um starfsvettvang, er sjúkraliði í dag á líknardeildinni í Kópavogi. Þau eiga þrjá stráka sem allir eru flognir úr hreiðrinu og það er komið eitt barnabarn og annað á leiðinni.  Skúli hafði aðeins prófað golf sem unglingur með bekkjarbróður sínum, Björgvini Færseth en það var ekki fyrr en eftir fertugsafmælið sem golfferillinn fór almennilega af stað. „Systkini Brynju gáfu mér golfsett í afmælisgjöf, skilaboðin greinilega skýr frá konunni sem gaf mér auk þess nokkra tíma í golfkennslu. Hún sjálf sýndi golfi engan áhuga á þeim tíma og ég byrjaði, féll eiginlega strax fyrir þessari íþrótt. Fyrsta sumarið var ég nú bara á æfingasvæðinu  og spilaði Jóel-inn [par þrjú holu völlur í Leirunni] grimmt og skráði mig svo í Golfklúbb Suðurnesja árið eftir. Ég byrjaði fljótlega að sjá framfarir, lækkaði nokkuð ört í forgjöf og gleymi ekki tilfinningunni þegar ég náði að komast niður fyrir 100 högg í móti í fyrsta skipti. Ég komst lægst niður í 16 í forgjöf en er með 18,1 í dag. Þetta er frábær íþrótt, hreyfing og útivera, félagsskapurinn er góður og mér finnst mjög gaman að skrá mig með einhverjum og kynnast þannig nýju fólki.  Við Brynja fórum í golfferð til Costa Ballena á Spáni fyrir stuttu, þar er frábær golfskóli og við mættum í hann alla morgna. Allir kylfingar hafa gott af því að fara í þennan golfskóla, það er alltaf hægt að bæta sig í þessari yndislegu íþrótt. Okkur fannst mjög gaman í þessari ferð og ég vona að hún komist upp á lagið og við getum átt þetta áhugamál saman í framtíðinni. Ég er í golfklúbbnum Oddi sem er með hinn frábæra Urriðavöll. Svo eru lögreglumenn duglegir að halda mót víðsvegar um landið, ég reyni að mæta í sem flest mót. Ég er ekki með nein markmið um að lækka eitthvað mikið í forgjöf, væri alveg til í að ná meiri stöðugleika, útrýma sprengjunum en aðallega bara að hafa gaman af þessari íþrótt og ég ætla mér að njóta heldri áranna,“ sagði Skúli að lokum.

Skúli horfir á Andra son sinn pútta á Kálfatjarnarvelli í Vogum, fyrsta eldgosið við Fagradalsfjall í baksýn.