Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Áhugaverðir viðburðir í Bókasafni Reykjanesbæjar
Guðmundur og Anna María með hluta af verkum sýningarinnar Heima er þar sem hjartað slær – ferðalag milli byggðarlaga. VF/Ylfa Vár
Mánudagur 24. apríl 2023 kl. 10:33

Áhugaverðir viðburðir í Bókasafni Reykjanesbæjar

Þrír áhugaverðir viðburðir verða í dag, mánudaginn 24. apríl, í Bókasafni Reykjanesbæjar.

Dagskráin byrjar á bókakynningu rithöfundarins Kristínar Guðmundsdóttur, hún mun kynna nýju léttlestrarbókina sína Birtir af degi sem ætluð er fólki af erlendum uppruna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í beinu framhaldi af  bókakynningunni er opnun sýningarinnar Heima er það sem hjartað slær – ferðalag milli byggðarlaga en sumarið 2022 fékk Bókasafn Reykjanesbæjar styrk frá Bókasafnasjóði og ferðuðust Anna María Cornette og Gillian Pokalo um landið til fjögurra bæjarfélaga þar sem þær héldu vinnustofur í samvinnu við bókasöfn á hverjum áfangastað, hverri vinnustofa lauk með sýningu.

„Þetta er lokaliðurinn í þessum hluta verkefnisins, svo þetta er hálfgerð lokasýning,“ segir Anna María en sýningin er sú síðasta í röð fimm sýninga úr samvinnuverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og fjögurra annarra bókasafna [Ísafjörður, Egilsstaðir, Dalvík og Árborg]. „Þetta er í fyrsta sinn sem öll verkin sem voru sköpuð á síðasta ári eru sýnd saman en þau hafa áður verið sýnd í lok hverrar vinnustofu með verkum úr öðrum vinnustofum Heima er þar sem hjartað slær.“

Heima er þar sem hjartað slær er verkefni sem hóf göngu sína í Bókasafni Reykjanesbæjar árið 2019. Árið 2020 var það haldið í Bandaríkjunum og ári síðar (2021) í samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar. 

Að lokum er síðasti viðburður dagsins frásagnir flóttafólks frá fjórum mismunandi löndum en þau Khalifa Mushib (Írak), Natalia Zhyrnova (Úkraína), Anibal Guzman (Venesúela) og Hadia Rahmani (Afganistan) ætla að deila upplifun sinni af að flýja erfiðar aðstæður í heimalandi sínu.

Ylfa Vár Jóhannsdóttir, nemandi í 10. bekk Heiðarskóla, var í starfskynningu hjá Víkurfréttum og hún fór og tók viðtal við Guðmund Ingvar Jónsson og Önnu Maríu Cornette, verkefnastjóra hjá bókasafninu, um þá viðburði sem eru framundan í safninu.

„Bókasafnið stendur fyrir reglulegum viðburðum allt árið,“ segir Guðmundur.„Hlutverk bókasafna hefur verið að breytast síðustu áratugi og orðið meira menningarmiðað en áður,“ segir Guðmundur. „Þá þurfum við að stuðla að því að raddir minnihlutahópa fái að heyrast, þau fái að segja sína sögu og við erum auðvitað með mjög hátt hlutfall af erlendum ríkisborgurum hér í Reykjanesbæ. Með því hæsta á landinu. Okkur fannst því tilvalið að starfa með flóttafólkinu og fengum fjóra einstaklinga frá fjórum ólíkum löndum til að segja sína sögu.“

„Það verður fjölmenningardagur á mánudaginn undir yfirskriftinni Mín saga: Raddir fjölmenningar,“ segir Anna María. „Fyrst kemur rithöfundur og kynnir bók sína sem er ætluð fyrir fólk sem er að læra íslensku, svo verður opnun sýningarinnar Heima er þar sem hjartað slær – ferðalag milli byggðarlaga. Þetta er samvinnuverkefni fimm safna á Íslandi sem hefur verið haldið víðsvegar um landið og þetta er lokasýningin sem verður haldin hérna. Svo verður lokaatriðið frásagnir flóttafólks af upplifun sinni af að flýja heimaland sitt vegna erfiðra aðstæðna.“

Viðburðirnir eru opnir öllum og aðgangseyrir er enginn.


Bókakynning – Birtir af degi

Kristín Guðmundsdóttir rithöfundur kynnir nýjustu bók sína, Birtir af degi, sem er léttlestrarbók ætluð fólki af erlendum uppruna en hún hefur áður gefið út bókina Nýjar sögur sem hafði að geyma tólf stuttar léttlestrarsögur fyrir fólk af erlendum uppruna.

Mánudaginn 24. apríl kl. 17.00


Opnun sýningarinnar Heima er þar sem hjartað slær

Heima þar sem hjartað slær er myndlistarsýning sem sýnir afrakstur kvenna frá öllum heimshlutum sem komu saman og bjuggu til listaverk sem endurspegluðu hvaða merkingu „heima“ hafði fyrir þær. Sýningin er afrakstur vinnustofa sem íslenski listamaðurinn Anna Maria Cornette og bandaríski listkennarinn Gillian Pokalo héldu víðsvegar um Ísland undanfarin misseri en listaverkin voru búin til með silkiprentuðu myndefni en síðan var fullunnum verkunum breytt í klukkur sem minna á okkar eigin hjartslátt.

Mánudaginn 24. apríl klukkan 17:30

Mín saga: Frásagnir flóttafólks

Fjórir einstaklingar frá fjórum mismunandi löndum segja frá lífi sínu og upplifun sinni á Íslandi. Khalifa Mushib kemur frá Írak, Natalia Zhyrnova kemur frá Úkraínu, Anibal Guzman kemur frá Venesúela og Hadia Rahmani kemur frá Afganistan en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa flúið erfiðar aðstæður í heimalandi sínu.

Mánudaginn 24. apríl klukkan 18:00