Áhugaverð myndlista- og textílsýning í Flösinni
Hjónin Ragnar L Benediktsson og Guðrún Birna Árnadóttir eru með listsýningu í Flösinni í Garði.
Ragnar er fæddur á Siglufirði í janúar 1939, fluttist ungur til Seyðisfjarðar og þaðan til Reykjavíkur 1943.
Hann var starfsmaður Landssíma Íslands, Pósts og síma og Símans þar til hann lét af störfum árið 2005. Ragnar er ómenntaður í myndlist, en hefur fiktað sig áfram til þessa.
Hann hóf myndgerð árið 2002, og notar masonít og spónaplötur. Litir eru, akrýl og vatnsleysanleg plastmálning.
Ljós og annar búnaður er samsettur úr íhlutum sem Ragnar hefur valið úr ýmsum áttum og sett saman.
Guðrún er fædd í Reykjavík árið 1942. Hún er Gagnfræðingur frá Núpi í Dýrafirði 1957.
Guðrún vann í KRON 1980 til 1989 fyrst við afgreiðslu og síðar sem verslunarstjóri.
Guðrún er sjálfmenntuð í þæfingu á ull við silki og er þetta fyrsta opinbera sýning Guðrúnar Birnu.