Áhugaverð kaffihúsakvöld í Eldey
Frumkvöðlar og hönnuðir í Eldey á Ásbrú buðu til Kaffihúsakvölds í gærkvöldi en hefð er komin á slík kvöld einu sinni í mánuði.
Sérstakur gestur á kaffihúsakvöldinu í gær var Ásdís Ragna Einarsdóttir og sagði hún frá því sem grasalæknir fæst við. Ásdís er með BSc í grasalækningum frá University of East London og hefur haldið fyrirlestra og námskeið um allt land auk þess sem hún rekur viðtalsstofu.
Markmið hennar er að aðstoða fólk í að efla heilsu sína með breyttu mataræði, heilbrigðum lífsstíl og notkun lækningajurta og vinna sameiginlega í átt að góðri heilsu til frambúðar.
Þá voru vinnustofur opnar og frumkvöðlar og hönnuðir sýndu verk sín.
Meðfylgjandi svipmyndir hér að neðan tók Hilmar Bragi á kaffihúsakvöldinu í gærkvöldi.