Áhrifamikil heimildamynd um ættleiðingu
Vinnur að leikinni mynd um einelti
Heiður María Rúnarsdóttir gerði nýlega heimildamynd um ættleiðingarferli hjóna frá Keflavík, sem ættleiddu tvær stelpur frá Indlandi. Hjónin þau séra Sigfús Ingvason og Laufey Gísladóttir deila þar áhrifamikilli sögu með áhorfendum. Myndin hefur vakið nokkra athygli og er nú sýnileg á netinu.
Heiður er á þriðju önn á tæknideild í Kvikmyndaskóla Íslands. Á þeirri önn eiga nemendur að gera heimildamynd. Heiður sótti efni í heimildamyndina til fólks sem hún þekkir vel til. Hjónin Sigfús Ingvason og Laufey Gísladóttir hafa ættleidd tvær stelpur frá Indlandi sem nú eru 13 og 15 ára gamlar. Heiður fékk leyfi fjölskyldunnar til þess að segja sögu stelpnanna og fjalla um ættleiðingarferlið. Sjálf hefur Heiður mikinn áhuga á málefninu og hefur sjálf hugsað sér að ættleiða barn. „Það var ekki erfitt fyrir mig að velja viðfangsefni,“ segir Heiður en fjölskyldan tók strax vel í hugmyndina. Bæði þau Sigfús og Laufey og stelpurnar Birta Rut Tiasha og Hanna Björk Atreye, koma töluvert við sögu í myndinni sem er áhrifamikil. Sýndar eru myndbönd frá Indlandi þegar Sigfús og Laufey fóru að sækja stelpurnar. Þær myndir vekja auðveldlega upp tilfinningar hjá áhorfandanum. Myndin tók tæpa tvo mánuði í vinnslu en Heiður sá um nánast alla vinnuna sjálf. Hún naut þó aðstoðar bekkjarfélaga sinna. Heiður er samkynhneigð og hefur mikinn áhuga á ættleiðingum samkynhneigðra. „Ísland er ekki með samning við neitt land sem leyfir ættleiðingar samkynhneigðra. Á Íslandi megum við ættleiða en ekki utan landsins.“
Heiður er þessa stundina að vinna að leikinni mynd sem fjallar um einelti. Það viðfangsefni er henni einnig hugleikið enda varð hún sjálf fyrir einelti í æsku auk þess sem fjölskyldumeðlimur lenti líka í einelti. „Mér finnst bara vera svo mikið um einelti í dag. Mun meira en það var áður finnst mér. Þetta er þarft málefni sem þarf að fjalla um.“
Kvikmyndaáhuginn hefur lengi verið til staðar hjá Heiði og þá sérstaklega hvað varðar sjónvarpsþætti. Hana langar mikið til þess að vinna sem klippari í nánustu framtíð en þó virðist að hún hafi mikið fram að færa sem kvikmyndagerðamaður. „Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég fór í uppeldisfræði í HÍ og fann að það hentaði mér ekki. Ég hætti eftir eitt prófið. Það er besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir hún og hlær. Hún segist hafa margar hugmyndir í kollinum og því er aldrei að vita hvort við sjáum meira frá henni í framtíðinni.
Hér að neðan má horfa á myndina sem erum 20 mínútna löng.