Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Áherslubreytingar á Traffic
Mánudagur 24. október 2005 kl. 10:38

Áherslubreytingar á Traffic

Allnokkrar áherslubreytingar eru á döfinni á veitingastaðnum Traffic í Reykjanesbæ. Kristján H. Baldursson, sem tók nýlega við skemmtanastjórn staðarins ásamt Gísla Þór Þórarinssyni, segir að auk lítilsháttar breytinga innanhúss séu aðstandendur Traffic að reyna að bæta orðspor staðarins sem þeir segja að hafi verið dregið niður í svaðið af ákveðnum fjölmiðli.

„Við ætlum að leggja áherslu á skemmtilega dagskrá með nýjum áherslum í bland við hefðbundna stemmningu hér á Traffic. Við ætlum til dæmis að fjölga þemakvöldum hjá okkur og vera líka til dæmis með bjórkvöld á fimmtudögum þar sem verður rólegri stemmning en er yfirleitt um helgar. Svo verðum við auðvitað með alla helstu íþróttaviðburði á tjaldinu hjá okkur. Auk þess munu hópar geta fengið afnot af staðnum til að koma saman og fá þá sérstök tilboð.”

Það er ekki ofsögum sagt að umræðan um Traffic hefur ekki gefið góða mynd af honum og segir Jósep Þorbjörnsson, eigandi staðarins, að gæsla verði efld til muna til að koma í veg fyrir leiðindamál eins og hafa stöku sinnum komið upp á síðustu misserum. „Það eru skemmtilegir tímar framundan á Traffic og við höfum margt í pokahorninu. Við leitumst við að gera vel fyrir kúnnana okkar, bæði gamla og nýja, og vonumst til að allir geti skemmt sér vel hjá okkur.”
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024