Afþreying: Sudoku fyrir svefninn
Guðbjörg Guðmundsdóttir er söngnemi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og vinnur með náminu á Keflavíkurflugvelli. Hún býr í Keflavík með kærastanum sínum og tveimur kisum. Guðbjörg er í Kvennakór Suðurnesja og söng í síðustu viku einsöng með kórnum á tvennum vortónleikum í Hljómahöll. Hún leysir sudokuþrautir fyrir svefninn, hlustar á geisladiska í bílnum og er mikill aðdáandi Simpsons þáttanna.
Bókin
Ég les ekki mikið en bókin sem er á náttborðinu núna er Sudoku bók. Mér finnst æðislegt að fara aðeins fyrr upp í rúm og leysa nokkrar sudoku þrautir fyrir svefninn, það er frábær leið til að ná sér niður eftir daginn. Ég hekla mikið og stundum er ég með eitt lítið heklverkefni í náttborðskúffunni sem ég gríp í þá morgna sem ég get sofið út. Annars hekla ég oftast yfir sjónvarpinu, þar sem ég get ekki setið kyrr nema hafa eitthvað í höndunum. Ég er mikill föndrari og fyrir utan það að hekla geri ég líka kort, skartgripi og ýmislegt annað sem mér dettur í hug.
Tónlistin
Ég hlusta ekki mikið á útvarpið heldur er ég yfirleitt með geisladiska í bílnum. Núna er ég með safndisk með frægum píanóverkum eftir tónskáldið Erik Satie. Aðrir geisladiskar sem ég set á er diskurinn frá Kaleo, „best of“ eða nýjasti diskurinn frá Muse og safndiskur frönsku söngkonunnar Edith Piaf.
Þátturinn
Ég er mikill aðdáandi the Simpsons og set það oft á ef ég er heima, þótt ég sé ekkert að horfa mikið á það, læt það bara spilast í bakgrunninum. Þegar ég ætla svo að setjast niður og horfa á sjónvarpið set ég á Netflix. Núna er ég að horfa á Gossip Girl og við kærastinn horfum saman á Sherlock Holmes. Svo finnst mér mjög gaman af þáttum eins og The Big Bang Theory og Modern Family. Öðru hverju setjumst við niður og horfum á nokkra nýjustu þættina.