Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Afþreying: Smashing Pumpkins í miklu uppáhaldi
Miðvikudagur 13. júlí 2016 kl. 06:00

Afþreying: Smashing Pumpkins í miklu uppáhaldi

- Eva Björk Valdimarsdóttir prestur hlustar mikið á London Grammar

Eva Björk Valdimarsdóttir tók við embætti prests hjá Keflavíkurkirkju á síðasta ári. Hún ólst upp á Akureyri en hafði búið undanfarin 17 ár í Reykjavík. Hún segir það leggjast vel í þau fjölskylduna að búa á Suðurnesjum, enda gott að vera með börn hér. „Það er tekið svo vel á móti okkur og ég hef kynnst mikið af frábæru fólki,“ segir hún. Eva sagði okkur frá afþreyingunni sinni en þar kennir ýmissa grasa. Þessa dagana bíða Eva og fjölskylda spennt eftir því að nýjir þættir af Black-ish og Modern Family komi inn á Sjónvarp Símans.

Bókin
Núna er ég að lesa bókina When Breath Becomes Air eftir Paul Kalanithi. Bókin er eins konar sjálfsævisaga Pauls, læknis sem var að ljúka þjálfun sem taugaskurðlæknir þegar hann greinist með krabbamein. Hún er afskaplega fallega skrifuð, einlæg og hefur að geyma svo mikla visku um lífið. Mér finnst hann lýsa svo vel hvernig það er að standa andspænis eigin dauðleika. Ég er reyndar ekki að lesa hana heldur hlusta á hana í gegnum Audible appið sem ég kynntist þegar ég var að keyra á milli, áður en ég flutti til Keflavíkur. Ég mæli með þessu appi fyrir alla, það eru bara ótrúleg lífsgæði að hafa það því það er svo gott að hlusta á bók í bílnum eða úti í göngutúr. Ég verð líka að fá að mæla með The Gifts of Imperfection eftir Brené Brown sem er eiginlega sjálfshjálparbók en byggð á rannsóknum og ótrúlega mikið vit í og Bonhoeffer, pastor, martyr, prophet, spy eftir Eric Metaxas, ævisaga mikils guðfræðings og prests sem var tekin af lífi af nasistum en hún er ein af bestu bókum sem ég hef lesið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tónlistin
Ég festist oft í einni hljómsveit og hlusta á hana endalaust. Þessa dagana er það helst London Grammar og sérstaklega lagið Hey Now, get hlustað á það endalaust. Svo þegar ég drattast út að hlaupa þá eru það helst þær Robyn, Sia og Beyoncé sem hljóma í eyrunum.
Annars hlusta ég á alls konar tónlist. Ég hlusta á nýja tónlist og eldri í bland, popp, rokk, hipp hop. Mér finnst gaman að gera svona nostalgíu playlista með ’90 tónlist í Spotify, elska Smashing Pumpkins og er líka með Sálma diskinn hennar Ellenar í símanum.

Ertu með eitthvað lag á heilanum?
Jæja, eiga prestar ekki alltaf að segja satt og rétt frá? Ég ætla að gera það og játa að lagið sem ég er með á heilanum þessa daga er Láttu þér líða vel með Stjórninni. Það kom bara einn daginn þegar ég var að taka upp úr kössum og á vel við þegar kona er að koma sér fyrir á nýju heimili.

Sjónvarpsþátturinn
Núna erum við fjölskyldan búin að vera að horfa á Black-ish og Modern Family og erum að bíða eftir því að það komi meira af þeim inn á Sjónvarp Símans. Ætli uppáhalds þættirnir mínir þegar krakkarnir eru ekki með séu ekki Elementary, The Good Wife, 30 Rock og Mad Men. Ég hef gaman af svona stjórnmála og lögfræðidrama á meðan það er vel gert og auðvitað góðum gamanþáttum. Svo hef ég gaman af flest öllu sem er látið gerast í fortíðinni og fléttast við söguna eins og Mad Men og Downton Abbey.