Mannlíf

Afþreying: Í ströngum Game of Thrones æfingabúðum
Sunnudagur 1. maí 2016 kl. 06:00

Afþreying: Í ströngum Game of Thrones æfingabúðum

Katrín Júlía Júlíusdóttir er grunnskólakennari, markþjálfi og umsjónarmaður barnastarfs Hvalsneskirkju. Markþjálfuninni sinnir hún á kvöldin í Sandgerði, þar sem hún er búsett, eða í gegnum Skype og síma. Hún er með nokkrar bækur á náttborðinu, þar á meðal Hundadaga eftir Einar Má Guðmundsson. Katrín er alæta á tónlist og syngur hástöfum með útvarpinu í bílnum en gengur ekki alltaf sem skyldi að læra textana.

Bókin

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég er að lesa bókina Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson, þar sem hann stiklar á stóru í gegnum ævi Jörundar hundadagakonungs og samtímamanna hans. Afar skemmtileg og þægileg lesning. Annars eru einnig á náttborðinu bækurnar Lífsreglurnar fjórar eftir  don Miguel Ruiz, bók um lífsspeki Tolteka sem á fullkomnlega við í dag þrátt fyrir að vera ævaforn speki og bókin The Complete Works, safn bóka eftir Florence Scovel Shinn, konuna á bak við konuna á bak við The Secret, sem tröllreið hér öllu um árið. Þetta safn geymir leyndardómana á bak við það að eignast allt það besta í heimi hér, sem er svo sem enginn leyndardómur og að sjálfsögðu er þar einnig bókin Markþjálfun – vilji, vit og vissa eftir Matildu Gregersdatter, Arnór Má Másson og Hauk Inga Jónasson.

 

Tónlistin
Hvað tónlistina varðar þá er ég alltaf að rembast við að muna texta og syngja með, en það gengur ekki alveg nógu vel. Ég hækka allt í botn í bílnum og syng hástöfum annað hvert orð og hendingu en ég er fullviss um að æfingin skapar meistarann, svo ég gefst ekki upp. Annars er ég óttaleg alæta á tónlist og hlusta bara á það sem er spilað hverju sinni en fönk, rokk og pönk hreyfa meira við mér en margt annað.

 

Sjónvarpsþátturinn
Þessa dagana og síðustu misserin hefur Júlíus Viggó sonur minn verið með mig í ströngum æfingabúðum í Game of Thrones, hann er mikill áhugamaður um þær bækur og þætti og lá lengi í mér að fá mig til að fallast á að horfa á þættina með honum. Hann fékk svo fyrstu fjórar seríurnar í jólagjöf og hamast við að halda mér við efnið áður en næsta sería kemur út. Við erum langt komin og ég bara nokkuð spennt verð ég að viðurkenna. Annars er Glæpahneigð (Criminal minds) alltaf í uppáhaldi og Friends og Big bang theory get ég horft á aftur á bak og áfram.