Afþreying: Góður lagalisti nauðsynlegur í hlaupin
Njarðvíkingurinn Sigurbjörg Gunnarsdóttir hefur mikinn áhuga á garðrækt og er nýji uppáhalds sjónvarpsþátturinn hennar Í garðinum með Gurrý á RÚV. Sigurbjörg er sálfræðimenntaður íþróttafræðingur og í meistaranámi í forystu- og stjórnun samhliða vinnu en er núna í fæðingarorlofi. Það fer því drjúgur tími í brjóstagjöf þessa dagana og þá sest Sigurbjörg stundum fyrir framan sjónvarpið. Hún hefur brennandi áhugaá endurgerð gamalla húsa og innanhússhönnun og heldur mikið upp á sjónvarpsstöðina Fine Living.
Bókin
Ég gef mér allt of lítinn tíma til að setjast niður með góða bók en nýti tækifærið þegar ég fer til útlanda. Á náttborðinu er Gildran eftir Lilju Sigurðardóttur, virkilega spennandi og erfitt að leggja hana frá sér. Ég fór til Tenerife í janúar og þá las ég Endurkomuna eftir Ólaf Jóhann og Myrká eftir Arnald Indriða. Báðar bækurnar héldu mér fastri en verkin voru gjörólík. Ólafur er svo mikill meistari og þetta verk eins og góður konfektmoli. Á döfinni er svo að finna skemmtilega handbók í tengslum við garðyrkju og flóru Íslands.
Tónlist
Spotify er vinsælasta forritið á heimilinu og oft kveikt á græjunum. Undanfarið hef ég verið að hlusta á Ásgeir Trausta, Ylju, Mugison, Valdimar og OMAM. Muse er líka töluvert í spilaranum og upphitunin löngu hafin fyrir tónleikana sem verða í ágúst í Reykjavík. Ég er nýlega farin að hlusta á jazz og er með nokkra góða lista vistaða á Spotify sem ég gríp reglulega í. Góður „playlisti“ er algjör nauðsyn þegar ég fer út að hlaupa og honum að þakka að ég er komin á skrið aftur eftir langt hlaupahlé. Hlaupalistinn heitir Runners world og er þar að finna blöndu af dans- og popptónlist.
Sjónvarp
Þessa dagana fer mikill tími í að gefa litlu dóttur minni brjóst og þá er gott að tylla sér fyrir framan sjónvarpið. Ég er algjört nörd þegar kemur að endurgerð gamalla húsa og innanhússhönnun og þar kemur sjónvarpsstöðin Fine living sterk inn. Þar horfi ég mikið á „Tiny house, big living“ og „Fixer upper“. Annars gríp ég alltaf reglulega í Friends á Netflix og var að klára Breaking Bad seríurnar fyrir stuttu. Nýi uppáhalds þátturinn er „Í garðinum með Gurrý“ virkilega vandaður og góður þáttur sem er sýndur á RÚV.