Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Afþreying: Bíður spennt eftir næstu bók Þorgríms Þráinssonar
Díana Hilmarsdóttir
Mánudagur 26. september 2016 kl. 06:00

Afþreying: Bíður spennt eftir næstu bók Þorgríms Þráinssonar

- Díana Hilmarsdóttir

Díana Hilmarsdóttir tók á dögunum við forstöðu Bjargarinnar, Geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja. Áður hafði hún starfað þar í tvö ár. Díana segir starfið mjög gefandi en jafnframt krefjandi. Hún er með BA-gráðu í félagsráðgjöf og er langt komin með nám í meðferðarmenntun sem nefnist PMTO (Parent Management Training) og er aðferð fyrir uppalendur sem miðar að því að draga úr hegðunarörðugleikum barna og unglinga.

Díana ólst upp í Ólafsvík til 9 ára aldurs, en flutti þá í Garðabæinn. Síðan árið 2000 hefur hún búið í Keflavík. Eiginmaður hennar er Önundur Jónasson úr Keflavík. Saman eiga þau þrjú börn, Kormák Andra 19 ára, Emelíu Nótt 13 ára og Kristófer Mána 10 ára. Fjölskyldan nýtir sumrin til ferðalaga og fer árlega í réttir vestur í Dali á heimaslóðir tengdamóður Díönu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Díana heldur mikið upp á bækur frænda síns, Þorgríms Þráinssonar og las nýlega bók eftir annan frænda sinn, Heiðar Jónsson snyrti.


Bókin
Mér finnst mjög gaman að lesa en les mis mikið eftir árstíma, les meira á haustin og veturna. Ég les alls konar bækur og er hrifnust af glæpasögum og ástarsögum. Bækur eftir Arnald Indriðason finnst mér góðar, las síðast Mýrina. Ég hef svo auðvitað lesið allar bækurnar eftir frænda minn Þorgrím Þráinsson, finnst þær allar svo skemmtilegar og bíð spennt eftir næstu bók. Það sem ég las eða gluggaði í síðast var Hámarksárangur eftir Brian Tracy, Litgreining og stíll eftir annan frænda minn hann Heiðar Jónsson snyrti og Lág Kolvetna Lífstíllinn eftir Gunnar Má. Ég er nýskriðin úr veikindum, fór á bókasafnið og tók mér slatta af auðlesnum bókum úr Rauðu seríunni og get alveg gleymt mér við að lesa þær.

Tónlistin
Ég elska að hlusta á tónlist enda kemur hún mér alltaf í gott skap. Ég hlusta alltaf á tónlist í bílnum þegar ég er að keyra, er alltaf með á K100,5 og hækka vel og syng með þrátt fyrir að vera gjörsamlega laglaus. Manni finnst maður syngja svo vel þegar maður syngur með lögunum. Þegar ég er að þrífa heima þá finnst mér ekkert skemmtilegra en að þrífa með góða tónlist í græjunum. Ég er alæta á tónlist nema ég er ekki hrifin af death metal og of miklu country. Ég er með nokkra playlista á Spotify og hlusta á allt frá Flo Rida og Rihönnu til Coldplay og Adele, Ed Sheeran er líka í uppáhaldi hjá mér, það fer allt eftir því hvað ég er að gera; þrífa, í ræktinni, vinna, skemmta mér eða slaka á.


Sjónvarpsþátturinn
Ég hef alltaf haft lúmskt gaman af breskum þáttum og þá helst sakamálaþáttum. Danska sakamálaþáttaröðin Dichte fannst mér mjög skemmtileg sem og The Brigde danska útgáfan ekki sú ameríska. Þættirnir Innsæi, Glæpahneigð, Chasing Life, Rosewood, Queen of the South, American Gothic, Black ish, Criminal Minds, Madam Secretary eru þættir sem mér finnst góðir sem og margir fleiri.
Ég fór seint að horfa á Game of Thrones, ég og maðurinn minn horfðum á þrjár eða fjórar þáttaraðir í einu, tókum 1 til 2 og stundum 3 þætti á kvöldi. Við kolféllum fyrir þessum þáttum og bíðum spennt eftir meiru.