Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Afþreying: Adele á heiðurssess á Spotify
Hólmfríður tekur á næstunni við starfi skólastjóra í Sandgerði. Með henni á myndinni eru tvö barna hennar, þeir Hjörvar Hugi og Jóakim Jarl.
Mánudagur 27. júní 2016 kl. 06:00

Afþreying: Adele á heiðurssess á Spotify

- Afþreying verðandi Suðurnesjamanns

Hólmfríður Árnadóttir tekur við starfi skólastjóra í Sandgerði á næstunni. Hún er frá Grenivík við Eyjafjörð en hefur búið á Akureyri í mörg ár og segir það dásamlegan stað. Maðurinn hennar er Hannes Jónsson úr Sandgerði. Hluti af tengdafjölskyldu Hólmfríðar býr í Sandgerði og hlakka þau fjölskyldan því mikið til að búa nálægt þeim. Hólmfríður er með meistarapróf í menntunarfræðum og sameinar þar vinnu og áhugamál sem er nám barna og það lærdómssamfélag sem þau alast upp í. Hún segir það leggjast afar vel í sig að flytja til Suðurnesja enda skólastjórastarfið heillandi. „Ég kem inn í faglegan og samheldinn starfsmannahóp og frábært námsumhverfi, það er virkilega vel búið að börnunum í Sandgerði svo ég get varla beðið til haustsins,“ segir hún.

Hannes,  maður Hólmfríðar er mikill fótboltaáhugamaður. Hann er þjálfari og knattspyrnudómari og synir þeirra eru allir í boltanum, sá elsti spilar með Reyni og þeir yngri hafa mætt á nokkrar æfingar með yngri flokkum Reynis-Víðis. Þau hlakka til að kynnast boltalífinu á Suðurnesjum, komandi frá góðu starfi KA og Þórs á Akureyri. Að auki eiga þau tvær stelpur sem þau „skildu eftir“ á Akureyri. Hólmfríður segir þær duglegar að ferðast svo þær hljóti að kíkja við, í það minnsta þegar þær fara á Keflavíkurflugvöll. Við fengum Hólmfríði til að segja okkur hvað hún gerir sér til afþreyingar þegar hún á tíma aflögu og kennir þar ýmissa grasa. Hólmfríður er vægast sagt mikill lestrarhestur og les að meðaltali fjörutíu bækur á ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Bókin
Ég er algjör lestrarhestur, les að meðaltali fjörutíu bækur á ári, fyrir utan þær bækur sem ég les fyrir strákana mína, segja mér skráningar fyrri ára. Já, ég skrái allt sem ég les og hvernig mér líkar það og hef verið í lestrarklúbbum síðustu ár, fyrst í Lespíum og svo í Yndislestrarhestum með frábærum stelpum. Ég skil ekki af hverju strákar vilja ekki vera með okkur! Það er svo gaman að ræða góðar bækur, já og slæmar! Ég les mest glæpasögur en er alltaf að heillast meira af ljóðum og ljóðrænum texta. Ég var einstaklega hrifin af bókinni um Thor Vilhjálmsson „Og svo tjöllum við okkur í rallið.” Mér fannst hún svo falleg og lýsa skemmtilega sambandi þeirra feðga Guðmundar Andra og Thors. Svo las ég loks „Náðarstund” eftir Hannah Kent. Ég hafði dregið það lengi vegna einhverra kjánalegra fordóma, bókin er hreint út sagt dásamleg. Tilfinningarússíbani af bestu gerð, þvílíkt vel gert hjá Hannah. Ég les líka barnabækur, helst bækur um fótbolta auðvitað en las „Mamma klikk” eftir Gunnar Helgason um jólin og hló mikið. Svo er Ingunn Snædal ljóðskáld í miklu uppáhaldi hjá mér, hún skrifar svo skemmtilega.

Tónlistin
Ég er ekki nógu dugleg að hlusta á tónlist, leyfi strákunum að stjórna græjunum og hlusta því mest á rapp og popp…misskemmtilegt efni, viðurkenni ég.  Adele er þó mín uppáhalds söngkona og á heiðurssess á Spotify hjá mér. Annars ræður Spotify, stilli á Indie tónlist og shuffle og hlusta á það sem þaðan kemur.

 

Sjónvarpsþátturinn
Ég er ein af Game of Thrones fíklunum, get ekki beðið eftir næsta þætti. Svona ævintýraheimar heilla mig. Ég lá með dætrunum yfir Harry Potter og Eragon eftir að hafa lesið bækurnar, auðvitað. Svo er ég líka afar mikið fyrir breska sakamálaþætti, Midsomer Murders, Lewis, Vera og Shetland, já og myndir eftir sögum Agatha Christie. Það er eitthvað við það að leysa gátu sem heillar mig, hver sá seki er en ég tek það fram að ég er afar léleg að finna út hver er morðinginn og get því horft á sömu þættina nokkrum sinnum, segir kannski meira um minnið hjá mér en nokkuð annað.