Aftan festival í Sandgerði
Fimmtudaginn 14. október verða tónleikarnir „Aftan festival“ haldnir á Mamma Mía í Sandgerði og mun húsið opna kl. 20:00 en spilverkin hefjast 21:00.
„Aftan festival er vettvangur fyrir þá sem hafa verið að dútla í tónlistinni til að koma sér á framfæri. Það þurfti vitaskuld að finna nafn á þetta fyrirbæri og varð „Aftan festival“ fyrir valinu þar sem aftansöngur tíðkaðist hér á árum áður,“ sagði Ólafur Þór Ólafsson einn aðstandenda tónleikanna.
Fyrsta Aftan festivalið var haldið á Mamma Mía í febrúar 2004 og er festivalið 14. október það fimmta í röðinni. Í haust var gefinn út geisladiskurinn „Aftan festival 1“ með listamönnum sem áður hafa komið fram á þessum tónleikum. Diskurinn var gefinn út í takmörkuðu upplagi og er nú uppseldur.
Eftirtaldir listamenn munu koma fram á fimmtudaginn næstkomandi: Sigurbjörg Hjálmars og Halli Valli, Guðmundur Hallvarðsson, Vilhjálmur Skúla og Ingi Þór.
VF-mynd/ af framhlið geisladisksins Aftan festival 1