Aftan Festival eins árs
Aftan Festival VIII fór fram á Mamma Mía í Sandgerði í gær og þvílík skemmtun. Það var efnilegur hópur listamanna sem tróð upp á tónleikunum við húsfylli og góðar undirtektir en Aftan Festival fagnar einmitt eins árs afmæli sínu um þessar mundir.
Fyrstir á svið voru þeir Sverrir og Raggi Helga, þeir félagar voru ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur en sá metnaður virtist vera gegnum gangandi allt kvöldið hjá flytjendum. Sverrir og Raggi tóku m.a. lögin „Hjálpaðu mér upp“ með Nýdönsk og „Nothing else matters“ með Metallicu og tókst það bara nokkuð vel hjá þeim piltum. Þeir fluttu einnig frumsamið lag sem ber heitið „Sun,“ sem var bara býsna gott.
Næstir á eftir Sverri og Ragga voru þeir Magni og Smári en þeir piltar voru hreint út sagt frábærir. Eddie Wedder, söngvari Pearl Jam, má fara að vara sig því Magni er á leiðinni, strákurinn er með leðurlungu. Tóku Magni og Smári nokkur lög eftir Pearl Jam og mátti vart heyra muninn á því hvort Eddie eða Magni væru að verki. Flytjendurnir voru sem sagt mjög stórhuga í aðgerðum sínum en leystu það vel og það var virkilega gaman að heyra hvernig verið var að stílfæra þekkt lög upp á sinn eigin máta.
Síðastur en ekki sístur var Hlynur Þór, vopnaður gítar og góðum húmor. Hlynur fullyrti að hann kæmist ekki í stuð nema að hefja sitt spilerí á Neil Young og það stóð heima. Kauði átti sviðið. Hlynur var þó frekar rólegur í tíðinni og hann lauk sinni framkomu með því að tileinka lagið „Angel,“ eftir Sarah Mclachlan, frænku sinni henni Birgittu Hrönn sem fæddist andvana þann 21. janúar síðastliðinn. Haffi (trommur) og Halli Valli (bassi) aðstoðuðu Hlyn í nokkrum lögum og það verður seint sagt að þeir kunni ekki sitt fag.
Aftan Festival er komið til að vera og það á bara eftir að verða stærra og umfangsmeira eftir því sem fram líða stundir. Hress og skemmtilegur hópur fólks hefur verið duglegur við að koma Aftan Festival á framfæri og það verður gaman að fylgjast með tónleikunum vinda upp á sig í framtíðinni.
VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson