Afslöppun og útivera er góð páskablanda
Besta uppskrift að góðri páskahelgi er blanda af afslöppun og útiveru. Það segir Þórunn Katla Tómasdóttir, kennari við Gerðaskóla í Garðinum. „Þegar strákarnir mínir voru yngri fórum við mikið í sumarbústað yfir páskana. En síðastliðin ár höfum við verið heima hjá okkur. Við erum frekar virk fjölskylda, okkur þykir gaman að hreyfa okkur og gera eitthvað skemmtilegt saman. Þannig að notalegheit heima, göngutúrar, spil og matarboð með fjölskyldunni er alveg eðaluppskrift að góðum páskum.”
Þórunn lýsir fjölskyldunni sem miklu súkkulaðifólki og að sjálfsögðu fái þau sér páskaegg með málshætti í. „Strákarnir mínir hafa alltaf jafn gaman af páskaratleiknum sem ég bý til, oftast á síðustu stundu. Það hef ég gert frá því að þeir voru litlir. Ratleikurinn slær alltaf í gegn. Það eru ýmsar þrautir sem þeir verða að leysa með viðeigandi keppnisskapi og stuði. Ómissandi hlutur af páskunum okkar.“