Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Afmælistónleikar Kórs Keflavíkurkirkju
Föstudagur 25. nóvember 2022 kl. 06:06

Afmælistónleikar Kórs Keflavíkurkirkju

Mikið var þetta góð stund sem ég átti við sækja afmælistónleika Kórs Keflavíkurkirkju. Það var fyrirfram nokkuð öruggt að þetta yrði góður tónlistarflutningur vegna þess stöðugt vaxandi orðspors sem kórinn hefur áunnið sér undanfarin ár og þarna var sko staðið undir merkjum. Ég þorði ekki öðru en að mæta nokkuð vel fyrir tímann og fékk þar af  leiðand ágætis sæti fyrir miðri kirkju þar sem ég taldi mig geta notið  söngsins sem best. Ekki var nein söngskrá sjáanleg á boðstólum svo maður beið bara rólegur eftir heyra góða og létta kynningu  um væntanlegt efni.  Kórinn gekk í inn og félagarnir stilltu sér upp að hefðbundnum hætti  og Arnór stjórnandi  fylgdi . Tónleikagestir hófu lófatak á meðan  eins og vera ber.  Svo steig einn kórfélagi  fram,  tók sér hljóðnema í hönd og hóf kynningu á því sem fram skyldi fara og var sú aðferð að kórfélagar sjálfir kynntu lögin og annað sem fram skyldi fara, notuð á þessum tónleikum. Undirritaður  sem býr við skerta heyrn missti því miður af allri kynningu sem þarna fór fram en naut söngsins afar vel. Það virðist ganga nokkuð hægt að gera þær endurbætur á hljóðkerfi kirkjunnar sem henti flestum.  En  snúum okkur að tónleikunum sjálfum.  Arnór kórstjóri og kórinn hafa valið þann kost að stjórnandi og undirleikari verði sami aðili sem er nokkuð algengt meðal kóra  og hefur jafnt kosti sem galla. Einnig sú aðferð sem þarna var notuð til kynningar í stað söngskrár en við hana kemur iðulega fram hversu misjafnlega fólki tekst að tala í hljóðnema.

Söngurinn hófst á nokkrum lögum í léttari kantinum, falleg lög í skemmtilegum útsetningum mörg  þeirra hljómuðu kunnuglega og hafa verið sungin af ýmsum kórum undanfarin ár.  En það skemmtilega við að heyra þau þarna var að nú var Arnór búinn að fara sínum höndum um útsetningar sumra þeirra svo að þau hljómuðu eins og ný í eyru manns.  Eftir að hafa hlýtt á þessi fallegu lög sem kórinn skilaði afar vel, var farið aðeins að fikra sig yfir í þyngri og þjóðlegri lög. Þá fór maður að finna fyrir gömlu góðu kórstemmingunni sem svo oft kom yfir mann fyrrum daga þegar nær öll lög sem sungin voru af allskonar kórum voru í þjóðlegum ættjarðar stíl.  Við lög eins og Smávinir fagrir var ekki  laust við að unaðslegur titringur læddist um mann og vakti upp  þá fögru minningu um hversu mörg falleg sönglög þessi  þjóð á í fórum sínum,  snilldarlega sungið af þessum stórkostlega kór.  Síðan flutti kórinn hvert lag öðru betra, góða blöndu af margskonar lögum og á meðal þeirra hóf einn félaginn einsöng sem hann skilaði með afbrigðum vel og smekklega. Þannig liðu þessir tónleikar fram þar sem hvert lagið á fætur öðru  hljómaði,  góð blanda af léttum, þjóðlegum og erfiðum kórlögum, vel valið Arnór. Ég ætla mér ekki að gerast neinn tónlistargagnrýnandi  sem tekur fyrir hvert lag og rýnir í þau, nei frekar vil ég koma á framfæri ánægju minni um hversu þessi góði kór er að skila miklum árangri og gæðum eftir alla þá erfiðleika sem sennileg flestir kórar og önnur félagsstarfssemi hafa gengið í gegnum undanfarin veiruár. Til hamingju með afmælið góði kór og kærar  þakkir til ykkar kórfélaga í kór Keflavíkurkirkju og þá ekki síst kærar þakkir Arnór Vilbergsson fyrir stórkostlega stjórn og þjálfun þessa skemmtilega og  góða kórs.   

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Garðar Sigurðsson,
eldri borgari í Reykjanesbæ.

P.S. Takk fyrir afmælisveisluna.