Aflafréttir: Fiskast vel í dragnótina
Og áfram höldum við. Þeir fáu dragnótabátar sem eru að róa frá Suðurnesjum hafa verið að fiska mjög vel núna í september. Siggi Bjarna GK er kominn með 163 tonn í 12 róðrum og þegar þetta er skrifað aflahæstur dragnótabáta á Íslandi í september, en það er ekki nema 300 kíló niður í Esjar SH sem er númer tvö. Benni Sæm GK er með 133 tonn í tólf róðrum. Nýi Sigurfari GK með 55 tonn í níu róðrum. Og að lokum Njáll ÓF 43 tonn í átta, en hann rær ekki lengur frá Sandgerði heldur frá Hofsósi. Hann á mikla tengingu við Sandgerði og því rétt að nefna hann hérna, því margir lesendur þessa pistils vita hvað bátur þetta er.
Maggý VE með 66 tonn í tíu róðrum en það má geta þess að um borð í Maggý VE er Karl Ólafsson skipstjóri en hann var lengst af skipstjóri á Erni KE sem síðar varð Örn GK. Sá bátur er núna á Bolungarvík og heitir Ásdís ÍS. Maggý VE á sér reyndar smá sögu við Suðurnesin því að þessi bátur var síðasti báturinn sem var tengur Tomma á Hafnarbergi RE, því að báturinn hét Hafnarberg RE árin 2001 til 2005 og fékk þar á eftir nafnið Ósk KE frá 2005 til 2011, þegar báturinn var seldur til Vestmannaeyja og hefur heitið þar Maggý VE. Og meiri tengingu er líka hægt að finna, því að brúin sem núna er á Maggý VE var smíðuð í Njarðvíkurslipp og sett á bátinn þar og báturinn tekinn í yfirhalningu fyrir nokkrum árum. Það væri hægt að skrifa ansi mikið um Tómas Tómasson eða Tomma á Hafnarbergi RE eins og hann var alltaf kallaður og það má geta þess að gamla Hafnarberg RE liggur núna í Grindavík og heitir þar Dúa RE og hefur reyndar legið þar hátt í 10 ár. Fallegur bátur og synd að sjá gamla Hafnarberg RE grotna þar. Kannski maður hripi niður nokkur orð í seinni pistlum varðandi þennan fallega bát og Tomma.
Netabátarnir hafa fiskað ágætlega þegar þeir hafa komist á sjó. Þó hefur ufsaveiðin hjá Grímsnesi GK ekkert verið neitt sérstök en hefur landað 49 tonnum í fjórum rórðum. Maron GK er með 44 tonn af þorski í sextán róðrum. Halldór Afi GK 28 tonn í átján. Hraunsvík GK 25 tonn í sextán. Sunna Líf GK, sem var fjallað um í síðasta pistli, með 7 tonn í fimm. Bergvík GK 19,3 tonn í sex.
Togarnir eru hættir á rækju og Berglín GK hefur landað 272 tonnum í þremur og hefur landað á Siglufirði og Ísafirði. Það er ansi mikill akstur með fisk af togaranum því að mest öllum fisknum hefur verið ekið suður. Sama hefur verið hjá Sóley Sigurjóns GK sem hefur landað 243 tonnum í þremur og landað öllu á Siglufirði.
Ef aðeins er farið í frystitogarana þá hefur Baldvin Njálsson GK landað 494 tonn í einni löndun og Hrafn Sveinbjarnarsson GK var að koma inn til löndunar þegar þessi pistill var skrifaður. Varðandi Baldvin Njálsson GK þá má nefna að Nesfiskur, sem gerir út Baldvin Njálsson GK, hefur undirritað smíðasamning um smíði á nýjum frystitogara sem kemur í staðinn fyrir núverandi Baldvin Njálsson GK. Núverandi Baldvin Njálsson GK er 51,4 metra langur og 11,9 metra breiður. Nýi verður 66,3 metra langur og 15 metra breiður. Og það má geta þess að nýi togarinn verður smíðaður í sömu skipasmíðastöð og núverandi Baldvin Njálsson GK var smíðaður hjá, í Vigo á Spáni. Áætlað er að nýi Baldvin Njálsson GK komi um haustið 2021 og getið hafið veiðar í síðasta lagi snemma á árinu 2022.
Gísli Reynisson
aflafrettir.is