Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aflafréttir: Bátar loks komnir á sjó eftir óveður
Erling KE er ekkert búinn að leggja netin í haust en ansi mikið er óveitt á bátinn því 1500 tonna kvóti er óveiddur á bátnum og því má búast við því að áhöfnin á Erlingi KE muni taka vel á því á vertíðinni 2020.
Laugardagur 21. desember 2019 kl. 07:38

Aflafréttir: Bátar loks komnir á sjó eftir óveður

Það blés ansi hressilega í síðustu viku og eftir því var tekið. Við Suðurnesjabúar fundum kannski ekki svo mikið fyrir því, nema að það var mjög sterk norðanátt með tilheyrandi saltaustri yfir hús og bíla.

Við sluppum þó við allan snjóinn sem íbúar á Norðurlandinu fengu, eða þá rafmagnsleysið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þetta óveður gerði það líka að verkum að bátar sem voru komnir heim náðu ekki mikið að róa. Bátar náðu loksins að komast á sjóinn um helgina og þá hefur bátum loks fjölgað í Grindavík því Sævík GK og Dúddi Gísla GK eru komnir þangað. Dúddi Gísla GK hefur landað fjórtán tonnum í þremur róðrum í Grindavík og Sævík GK 25 tonn í fimm róðrum.

Í Sandgerði hafa bátarnir fiskað ágætlega, Óli á Stað GK er með 38 tonn í sjö róðrum. Margrét GK tólf tonn í tveimur en fyrri túrinn af þessum var landað í Hafnarfirði. Alli GK 10,5 tonn í fjórum.

Katrín GK 7.8 tonn í þremur. Beta GK 10,1 tonn í tveimur. Óli G GK, sem er nýjasti báturinn í Sandgerði, fór í fyrsta róður sinn 10. desember og kom með 2,7 tonn í land í einni löndun.

Addi Afi GK 3,3 tonn í einni og Guðrún Petrína GK 3,5 tonn í einni.

Netabátarnir hans Hólmgríms eru komnir til Sandgerðis og hafa verið að leggja netin beint út af Sandgerði sem og meðfram ströndinni að Stafnesi. Sunna Líf GK var í Sandgerði áður en þeir komu og hefur farið tvisvar út og landað fjórum tonnum. Halldór Afi GK 1,8 tonn í fjórum, helmingnum landað í Keflavík. Maron GK tvö tonn tveimur, fyrri túrinn landaði í Njarðvík sá síðari í Sandgerði. Grímsnes GK 8,3 tonn í fimm, ein af þessum löndunum er í Sandgerði.

Erling KE er ekkert búinn að leggja netin í haust en ansi mikið er óveitt á bátinn því 1500 tonna kvóti er óveiddur á bátnum og því má búast við því að áhöfnin á Erlingi KE muni taka vel á því á vertíðinni 2020.

Siggi Bjarna GK er ennþá í slipp í Njarðvík. Benni Sæm GK er ennþá að veiða inn í Faxaflóan en veiði hefur verið dræm. Báturinn kominn með ellefu tonn í fimm róðrum, mest af kola.

Aðalbjörg RE er einnig að veiða í Faxaflóanum en landar í Reykjavík, er með 8,8 tonn í þremur. Nokkrir Suðurnesjamenn eru á bátnum og þar á meðal nokkrir sem voru á Njáli RE.

Sigurfari GK er með 10,4 tonn í þremur. Gamli Gulltoppur GK, sem Stakkavík átti og gerði út á línuveiðar með bölum, er kominn til Sandgerði að hluta til því að báturinn heitir í dag Ísey EA 40. Báturinn er í eigu Hrísey Seafood sem fyrirtækið Iraco á, Iraco keypti fiskvinnslu K og G í Sandgerði sem var með vinnslu í Hrísey. Iraco er með fiskvinnslu í Hafnarfirði og í Hrísey, er með þrjá báta á sínum snærum.

Ísey EA, Straumey EA, sem hefur ekki ennþá landað á Suðurnesjum, og Pálínu Ágústdóttir EA sem er trollbátur og hét lengst af Sóley SH. Pálína hefur komið með afla til löndunar bæði til Sandgerðis og Grindavíkur.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is