Afla fjár til styrktar starfseminni í Sjólyst
Fjáröflunarskemmtun hollvina Unu í Sjólyst verður haldin sunnudaginn 13. desember kl. 20:00 í Útskálakirkju. Skemmtunin er haldin til að afla fjár til styrktar starfseminni í Sjólyst, húsi Unu Guðmundsdóttur.
Tónlistarfólk mun koma fram á skemmtuninni auk þess sem þar verður upplestur og djákni flytur hugleiðingu á aðventu
Þeir tónlistarmenn sem fram koma eru Ragnheiður Gröndal, Gunnar Kvaran sellóleikari ásamt undirleikara, Sísí Ástþórsdóttir þátttakandi úr Voice ísland og þá munu Júlíus og Tryggvi spila nokkur lög.
Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona, les minningar Unu um leiklist í Garðinum frá fyrstu tíð til ársins 1977.
Tilkynnt verður um vinningsljóðin í Dagstjörnunni, ljóðasamkeppni í nafni Unu í Sjólyst. Vinningshafar lesa upp ljóðin og taka við viðurkenningum. Þá mun Anna Hulda Júlíusdóttir djákni flytja hugleiðingu á aðventu.
Miðaverð er 2500 krónur en miðasala er við innganginn. Miðasala rennur óskipt til starfsemi í Sjólyst.