Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Afi kemur með sína eigin möndlu
Fimmtudagur 30. desember 2010 kl. 14:09

Afi kemur með sína eigin möndlu

Guðrún Gunnarsdóttir er 22. ára Grindvíkingur með tímabundið aðsetur í Innri-Njarðvík. Hún er á þriðja ári í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands en er í árs skiptinámi í Arkansas í Bandaríkjunum þessa dagana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrstu jólaminningarnar?
Ég hef verið svona 4-5 ára, jólasveininum hefur fundist ég hafa verið óþæg og gaf mér kartöflu í skóinn. Ég hef sjaldan orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum um ævina og hef hagað mér vel alla daga síðan.

Jólahefðir hjá þér?
Það er alltaf möndlugrautur í forrétt á aðfangadagskvöld en á hverju ári kemur afi með sína eigin möndlu og gerir síðan kröfu til möndlugjafarinnar.

Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðarnar?
Nei, ég læt eldri og reyndari menn algjörlega um alla eldamennsku. Bakaði reyndar eina sort af smákökum um daginn og fór það bara nokkuð vel. Aldrei að vita nema ég komi sterk inn í eldamennskuna næstu jól.

Jólamyndin?
Jólaósk Önnu Bellu er alveg æðislega sæt og kemur mér alltaf í jólaskap.

Jólatónlistin?
Snillingarnir í Baggalút eru í mínum spilara í desember.

Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Ég gerði það nú bara í Bandaríkjunum þetta árið.

Gefurðu mikið að jólagjöfum?
Nei, ég er ekkert að fara neinum hamförum í þeirri deild. Það eru bara mínir allra nánustu sem eru svo heppnir að fá gjöf frá mér.

Ertu vanaföst um jólin?
Ekkert sérstaklega, þetta er nú oftast með svipuðu sniði. Amma og afi koma í mat á aðfangadagskvöld, svo er jólaboð hjá mömmu fjölskyldu á jóladag og pabba fjölskyldu á annan í jólum.

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Þegar ég fékk Baby Born dúkku frá foreldrum mínum, hún sló rækilega í gegn.

Hvað langar þig í jólagjöf?
Frið á jörð. Í sannleika sagt hef ég ekki sett saman neinn óskalista ennþá, gjafirnar koma mér því algjörlega á óvart.

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Möndlugrautur í forrétt, hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi í aðalrétt og jólaís í eftirrétt.