Afgreiddi Tildu Swinton og fékk boð á ATP
Hollywood-leikkonan Tilda Swinton bauð Stefaníu Ósk Margeirsdóttir á ATP tónlistarhátíðina
Stefanía Ósk Margeirsdóttir frá Grindavík fór nokkuð óvænt á All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðina sem fram fór á Ásbrú í lok síðasta mánaðar. Hún var föst fyrir í vinnu sinni hjá Bláa Lóninu og var því ekki á leiðinni á hátíðina. Stefanía Ósk fékk hins vegar mjög óvænt boð á hátíðina eftir að hafa afgreitt Hollywood-leikkonuna Tildu Swinton í verslun Bláa Lónsins, deginum áður en Nick Cave átti að koma fram á hátíðinni.
„Ég vissi nú hver þetta var þegar hún kom upp að mér og bað um aðstoð í versluninni,“ segir Stefanía. „Við fórum svo að spjalla saman og ég sá að hún var með passa á ATP-hátíðina. Ég sagði við hana að mig langaði mjög mikið til að sjá Nick Cave en kæmist ekki þar sem ég væri að vinna alla helgina. Tilda sagði við mig upp úr þurru að hún ætlaði að reyna að setja mig á gestalistann ef mér tækist að leysa mig fyrr úr vinnunni. Við vorum svo í sms sambandi í kjölfarið þar til að ég fékk staðfest að ég væri komin á gestalistann hans Nick.“
Stefanía segir að Swinton hafi verið afar almennileg og ber henni góða sögu. „Hún er mjög jarðbundin og ég skil eiginlega ekkert í því hvers vegna hún var að leggja allt þetta á sig til að koma mér á tónleikana. Mér fannst það bara skondið, þetta var mjög rausnarlegt og ég er henni mjög þakklát. Hún var fyrsta manneskjan sem ég sá þegar að ég mætti á svæðið og faðmaði mig. Þetta voru með betri tónleikum sem ég hef farið á og það er nokkuð svalt að hafa verið á gestalistanum hans Nick Cave,“ segir Stefanía og hlær.
Stefanía kom einnig færandi hendi og gaf Tildu bókina Popular Hits II eftir Hugleik Dagsson. Þær hafa verið í lauslegu sambandi í kjölfarið en Stefanía reiknar ekki með því að þær verði í miklu sambandi í framtíðinn. „Ég geri ekki ráð fyrir því en ég ætla allavega að heilsa henni ef ég sé hana aftur.“