Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Afburðanemi úr FS á Ólympíukeppni í efnafræði
Fimmtudagur 30. júlí 2009 kl. 14:54

Afburðanemi úr FS á Ólympíukeppni í efnafræði


Ungur og bráðefnilegur nemi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Sigtryggur Kjartansson, var meðal keppenda á hinni alþjóðlegu Ólympíukeppni í efnafræði sem fór fram í Cambridge í Englandi á dögunum. Þar komu saman rúmlega 250 unglingar frá 66 löndum, en mótið var nú haldið í 41. skipti.
Var Sigtryggur í liði Íslands ásamt þremur öðrum framhaldsskólanemum, en hann vann sér inn sæti í keppnisliðinu með því að sigra á landskeppninni í efnafræði síðasta vor.


Sigtryggur, sem er fyrsti nemandi FS sem fer utan á þetta stórmót í þau átta ár sem Íslendingar hafa sent lið, sagði í samtali við Víkurfréttir að þetta hafi verið skemmtileg og lærdómsrík upplifun.
„Þetta voru níu dagar alls. Keppnin sjálf var í tveimur hlutum, einn daginn var verklegi hlutinn sem tók fimm tíma og daginn eftir var fræðilegi hlutinn sem einnig tók fimm tíma. Svo var þetta bara skemmtun fyrir utan það.“
Íslenska liðið undirbjó sig vel fyrir keppnina þar sem þeir unnu með leiðbeinendum í tvær vikur hér heima fyrir keppnina og náðu ágætum árangri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ekki þarf að koma á óvart að Sigtryggur er afburðanemandi og útskrifast hann með stúdentspróf eftir haustönn, hálfu ári á undan flestum sem hófu nám með honum. Það sem gerir árangur hans enn eftirtektarverðari er sú staðreynd að hann er í raun búinn með alla áfanga sem hann þarf til að útskrifast. Hann tekur einungis nokkra áfanga á næstu önn til að undirbúa sig betur fyrir framtíðina þar sem hann stefnir á háskólanám í stærðfræði eða eðlisfræði.
Hann hefur þó mögulega ekki sagt sitt síðasta orð í Ólympíukeppninni, því að hann stefnir ótrauður á að tryggja sér sæti í liðinu á næsta ári.