Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Afbrýðisöm út í nýfæddan bróður
Laugardagur 16. desember 2023 kl. 06:01

Afbrýðisöm út í nýfæddan bróður

Árið hefur verið fjörlegt og skemmtilegt hjá jólastelpunni Freyju Sigurðardóttur sem hvílir lúin bein á jóladag og nýársdag

Freyja Sigurðardóttir ætlar að njóta jólanna með fjölskyldunni en ein stærsta minningin er þegar hún, þá sex ára, eignaðist bróður á aðfangadag sem hún var ekki mjög ánægð með þá. Freyja er á fleygiferð alla daga að stýra og þjálfa í Þitt Form í Sporthúsinu í Reykjanesbæ og segir að það sé fátt betra í jólastressinu en að fara á æfingu. Jóladagur og nýársdagur eru einu rólegu dagarnir hjá Sandgerðingnum og hún segist njóta þess að hafa það kósý þessa daga.

Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið 2023 er búið að vera mjög stórt hjá okkur fjölskyldunni. Það byrjaði á fyrstu dögum janúar þegar ég færði Þitt Form-ið mitt í stærri og flottari sal í Sporthúsinu og breytti úr námskeiðum í áskrift allt árið. Þá gerði ég samning við Nike eftir að hafa verið hjá Addidas í tólf ár. Í fjölskyldunni voru tímamót hjá krökkunum okkar í skólunum og þá tók Halli minn við þjálfun Keflavíkurliðisins og ég tók svo að mér verkefnið að vera styrktarþjálfari liðsins. Svo upplifði maður margar góðar stundir í ferðalögum, við hjónin fórum í skíðaferð og til Tenerife, ég fór á tónleika með vinkonunum í Barcelona og við fylgdumst með Aroni Frey okkar á Gothiacup í Svíþjóð. Þannig að árið er búið að vera magnað og mikið að gera hjá fjölskyldunni.

Ert þú mikið jólabarn?

Ég er mjög mikið jólabarn og elska þennan tíma, ljósin, lögin og svo bara eftirvænting og gleðin hjá öllum.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Við setjum tréð upp fyrstu helgina í desember.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Já ég man heldur betur eftir einum jólum þegar ég var sex ára. Ég var yngst okkar systkinanna þá og átti tvær eldri systur og svo eignaðist ég lítinn bróður á aðfangadag. Ég var svo afbrýðisöm og brjáluð yfir því að mamma mín þurfti að vera á spítalanum hjá þessum krakka á jólunum en ég var fljót að jafna mig. Við erum fimm systkinin í dag og ég er miðjubarn.

En skemmtilegar jólahefðir?

Við erum ekki með neinar þannig séð hefðir, bara þetta helsta á aðfangadag að borða kl. 18:00, opna svo gjafir og hafa það kósy og gera svo ekki neitt á jóladag. Bara algjör slökun þennan eina dag á ári (ha..ha).

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Ég er þessi óskipulagða í þessu gjafastússi. Ég ætla mér alltaf á hverju ári að vera jafn skipulögð og Ármey systir mín. Hún er alltaf búin að kaupa allt og pakka öllu inn 1. desember. Ég er að klára á Þorláksmessu og aðfangadag með allt á spani.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Ómissandi?…þessi er erfið. Ætli það sé ekki að fá alla fjölskylduna saman á aðfangadag, borða saman og njóta þess að vera til.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Ætli það sé ekki þessi blessaði bróðir sem ég fékk þegar ég var sex ára (ha..ha..)

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Nei, reyndar ekki en kannski væri gott fyrir alla í kringum mig að ég fengi ADHD greiningu og róandi töflur..(ha..ha..) Ég er mjög ofvirk og alltof hvatvís stundum en Halli minn kann vel á sína konu þannig að þetta gengur allt saman vel.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Við erum alltaf með humarsúpu í forrétt, hamborgarhrygg og meðlæti í aðalrétt og svo auðvitað jólaís með sósu í eftirrétt.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Þar sem Þitt Form námskeiðið mitt er núna allt árið þá er ég að þjálfa alla daga nema 25. des og 1. jan. Annars eru tímar alla daga. Þannig að við ræktum okkur í kringum jólahátíðina, það má ekki gleyma að rækta okkur sjálf í öllu jólastressinu. Alltof margir sem klikka á þessu. Að taka góða æfingu er besta slökunarmeðalið sem til er. Dagurinn er svo miklu betri eftir góða æfingu. Við förum svo á jólaball hjá fjölskyldunni og jólahittinga. Ég klára jólagjafirnar og stefni svo að því bara að njóta þess inn á milli að vera með fjölskyldunni, hitta vini og hafa gaman.

Fjör hjá Freyju með fjölskyldunni og vinkonum.