Af sjónum í verkstjórn hjá Nesfiski
„Það er mjög gott að vinna hjá Nesfiski, þetta er frábært fyrirtæki,“ segir Grindvíkingurinn Leifur Guðjónsson en eftir að hafa verið sjómaður nánast allan sinn starfsaldur bauðst honum verkstjórastaða hjá Nesfiski haustið 2020. Leifur hafði klárað gæðastjórnunarnám í Fisktækniskólanum og ákvað að stökkva á tækifærið og sér ekki eftir því. Hann, eins og aðrir Grindvíkingar, hefur þurft að aðlaga sig breyttum veruleika og vill ekki hugsa þá hugsun til enda að þurfa að flytja frá Grindavík.
Leifur hafði sótt nám í Fisktækniskólanum í Grindavík og það vó þungt í því að honum bauðst starfið hjá Nesfiski. „Ég hóf störf haustið 2020 en þá var ég háseti á frystitogaranum Vigra. Þetta kom flatt upp á mig, ég hitti Almar Þór Sveinsson sem er fjármálastjóri Nesfisks, í Nettó-búðinni heima í Grindavík en Almar er sveitungi minn. Almar vissi að ég hafði farið í gæðastjórnunarnámið í Fisktækniskólanum og vissi líka að ég hafði verið verkstjóri hjá Ocean troller á einu af skipum fyrirtækisins í Afríku, þetta fyrirtæki er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims. Almar viðraði þessa hugmynd við mig, hvort ég vildi gerast verkstjóri hjá Nesfiski og svo hitti ég hann og aðra hjá fyrirtækinu og var boðið starfið. Ég er mjög ánægður í þessari vinnu, þetta er frábært fyrirtæki að vinna hjá. Ég er verkstjóri, er að stjórna á bilinu 80 til 90 manns. Ætli 95% þeirra séu ekki útlendingar, mest Pólverjar en líka fólk frá Asíu, allt saman frábært fólk. Við erum að verka þorsk, ufsa, ýsu, keilu og löngu en langmest erum við í þorski sem við léttsöltum og lausfrystum. Afurðirnar fara svo í gáma og sjóleiðina til kaupendanna. Það eru önnur fyrirtæki Nesfisks sem keyra afurðunum upp á flugvöll, allt okkar fer í gáma.“
Góður andi
Leifur segir móralinn í fyrirtækinu mjög góðan sem skipti miklu máli og enski boltinn er þar í stóru hlutverki. „Við erum t.d. sjö í tippkeppni í enska boltanum, bæði við á gólfinu og fólk á skrifstofunni. Við erum með keppni fyrir og eftir áramót, leyfum fjórar tvítryggingar og höldum svo utan um heildarskorið. Ég hef ekki náð mér nógu vel á strik að undanförnu en ég mun koma til baka, það er ég sannfærður um. Áskorandinn í tippleik Víkurfrétta um daginn er einmitt samstarfsmaður minn, Ævar Jónasson. Hann er á toppnum í okkar leik, ég hélt að hann myndi ná langt í tippleiknum hjá Víkur-fréttum, hann hefði betur hlustað meira á mínar ráðleggingar en minn tími mun koma í tippleik okkar í Nesfiski. Mig dreymir svo um að fá að spreyta mig í tippleik Víkurfrétta.“
Nýjar aðstæður
Leifur og hans fjölskylda, hafa eins og aðrir Grindvíkingar þurft að aðlaga sig nýjum veruleika en hvernig sér hann framtíð Grindavíkur fyrir sér?
„Við rýminguna í nóvember fengum við strax bústað við golfvöllinn í Sandgerði sem samstarfsmaður minn hjá Nesfiski á. Það fór mjög vel um okkur en við vorum að færa okkur í íbúð í Hafnarfirði og verðum þar í hálft ár. Konan mín vinnur í Reykjavík og dóttir okkar er í safnskóla þar svo við ætlum að prófa það en hugurinn leitar á Suðurnesin, við erum að skoða hús eða íbúð til kaups en hvenær við flytjum svo aftur í Grindavík verður bara að koma í ljós. Við viljum ekkert eins mikið og geta flutt aftur heim en svona er þetta bara, við verðum bara að taka þessu og gera það besta úr stöðunni,“ sagði Leifur að lokum.