Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Af hverju vissi ég það ekki?
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 14. mars 2021 kl. 07:00

Af hverju vissi ég það ekki?

Kjarnakonur af Suðurnesjum, Bryndís Jónsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir, halda úti nýju hlaðvarpi.

Hlaðvörp njóta vaxandi vinsælda en þau eru ný tegund miðlunar sem opnar leið fyrir þá sem langar til að koma skilaboðum á framfæri til almennings. Hlaðvarp er útvarps- eða sjónvarpsþáttaröð sem gefin er út á netinu og hefur oft svipaða uppbyggingu og útvarpsþættir en er yfirleitt ekki sent út beint. Allt efnið er því til niðurhals svo hægt er að njóta þess á þeirri stund og stað sem hentar.

Ógrynni íslenskra hlaðvarpa finnast á vefnum í dag, misjöfn að málfari og gæðum. Þessi tegund miðlunar gefur öllum tækifæri til að koma sér á framfæri en svo er það hversu áhugavert málefnið er, sem verið er að senda út. Hægt er að finna hlaðvörp um allskonar málefni á vefnum, eitt það vinsælasta er Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur á RÚV.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjarnakonur ættaðar af Suðurnesjum, þær Bryndís Jónsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir, eru á meðal þeirra sem bjóða upp á hlaðvarp sem hægt er að hlusta á beint af sameiginlegri Facebook-síðu þeirra og af Spotify. Hlaðvarpið nefna þær Af hverju vissi ég það ekki?

Blaðakona Víkurfrétta fékk boð á Facebook um að líka við sameiginlega síðu Bryndísar og Svanhildar. Hún hlustaði á einn þátt sem vakti áhuga hennar á að hitta þær stöllur og forvitnast meira um hlaðvarpið þeirra.

Nú hafa Bryndís og Svanhildur útbúið fjóra hlaðvarpsþætti sem fjalla um mismunandi efni en allt út frá sama meiði, að fræða fólk um almenna hluti sem eru ekki endilega á allra vitorði.

Hugmynd sem fæddist í fyrrasumar

Í fyrsta hlaðvarpsþætti þeirra vinkvenna eru þær að fjalla um hlutverk umönnunarkynslóðarinnar, það er um okkur, sem erum á miðjum aldri og viljum aðstoða aldraða foreldra okkar. Hvernig virkar til dæmis kerfið þegar aldnir foreldrar verða veikir og þurfa meira á faglegri aðstoð heilbrigðisstarfsfólks að halda?

„Síðastliðið sumar hittumst við hjá sameiginlegri vinkonu og fórum að tala saman um hluti sem okkur fannst við ættum að vita, komnar á miðjan aldur, en vissum ekki. Ég var oft búin að hugsa það, að búa til hlaðvarp um allt þetta sem við eigum að vita en vitum ekki, bara svona um almenn atriði sem allir eiga að vita. Mér fannst augu mín opnast þegar ég fór í nám í lögreglu- og löggæslufræðum árið 2017 hvað það er margt sem okkur stendur til boða í samfélaginu án þess að við vitum af því. Það er gengið út frá því að þegar þú ert komin á miðjan aldur, þá áttu að vita ákveðna hluti í samfélaginu – en ef við höfum ekki rekið okkur á það, þá er ekki sjens að við vitum það. Eins og þegar mamma mín varð veik og greindist með heilabilun. Þessi þrjú ár sem ég og systkini mín önnuðumst hana, voru rússibani og ferðalög á milli lækna. Það var bara heppni hvern við hittum, hvaða fræðslu við fengum varðandi veikindaferli mömmu – og ég var alltaf að hugsa; af hverju vissi ég þetta ekki? og gekk með þá hugmynd að búa til hlaðvarp um allt þetta sem ég vissi ekki en lærði til dæmis í gegnum veikindi mömmu. Þó ég væri orðin svona fullorðin. Þarna, þetta fallega sumarkvöld, sátum við Svanhildur saman og ræddum um nýtt hlaðvarp,“ segir Bryndís.

Fræða fólk um almenna hluti

„Mér leist strax vel á þessa hugmynd hjá Bryndísi, að búa til hlaðvarp til þess að fræða fólk um almenna hluti sem allir ættu að vita en vita ekki. Fyrir mörgum árum þegar Útvarp Bros var og hét á Suðurnesjum starfaði ég þar við dagskrárgerð og átti því ákveðna reynslu í farteskinu. Ég hafði samband við Bryndísi stuttu seinna eftir þetta spjall okkar og sagðist vera til í að búa til hlaðvarp með henni,“ segir Svanhildur.

„Þegar Svanhildur hafði samband og sagðist vera til í samstarf, þá vissi ég að hún væri manneskjan sem ég vildi vinna með. Hún hringir í mig og við byrjum nánast strax að skipuleggja hvað við viljum gera. Við erum báðar svona skeleggar og ákveðnar konur, þorum að segja hvað okkur finnst en erum einnig hjartahlýjar. Við erum samt hvorugar svona já-manneskjur, við myndum aldrei segja já þegar við viljum segja nei. Við getum örugglega alveg verið óþægilegar fyrir suma því við segjum það sem okkur finnst,“ segir Bryndís.

„Þegar ég vissi að Bryndísi væri alvara með þetta hlaðvarp, þá talaði ég við tengdason minn sem er búinn að læra tónlist. Hann samdi fyrir okkur stefið. Ein vinkona mín er að læra grafíska miðlun og hún hannaði vörumerkið fyrir okkur. Þetta tók allt tíma. Svo er auglýst námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands sem við skráðum okkur á og þar lærum við að klippa þættina og setja þá saman. Allt um tæknilegu hliðina til að búa til hlaðvarp. Við lærðum margt á þessu námskeiði hjá EHÍ. Fyrsti þátturinn sem fór í loftið frá okkur fjallar um umönnun eldri foreldra og þar byggjum við aðallega á reynslu Bryndísar sem rak sig á ýmsa veggi varðandi umönnun veikrar móður sinnar sem lést í október í fyrra – en þættirnir verða mjög fjölbreyttir. Næsti þáttur fjallar til dæmis um andlega byrði eða hina huglægu byrði, mental load, sem fólk upplifir í kulnun. Við fáum til okkar áhugavert fólk í einlæg viðtöl sem er tilbúið að deila með hlustendum af reynslu sinni. Við viljum bjóða upp á vandaða þætti með efni sem er ekki endilega á allra vitorði. Þetta verða mjög áhugaverðir þættir sem þú vilt hlusta á. Það er markmið okkar. Þættirnir okkar verða sendir út á öllum hlaðvarpsveitum en eru núna komnir inn á Facebook-síðuna okkar Af hverju vissi ég það ekki? og á Spotify undir sama nafni.“

Lífsreynsla annarra getur hjálpað

„Að eiga fullorðna foreldra er verkefni sem fólk, við sem erum á miðjum aldri, erum mörg að ganga í gegnum. Þegar ég var að koma hingað suður til Keflavíkur að hugsa um mömmu mína þá uppgötvaði ég margt sem ég vissi ekkert um. Þetta voru þrjú ár þar sem ég kom eins oft og ég gat til að hlúa að henni og var oft heilu helgarnar hér fyrir sunnan. Ég fór að reka mig á að alltaf þegar ég var að tala við fólk sem áttu fullorðna foreldra þá var eitthvað nefnt sem ég vissi ekki af. Ertu búin að láta búa til heilsufarsmat? Mig vantaði fleiri leiðbeiningar. Margir þekkja þetta hlutverk sem við tökum á okkur með foreldra okkar, að hugsa vel um þau en erum á sama tíma, því miður, að eyðileggja fyrir því að þau komist í faglega umönnun á stofnun þegar þess þarf. Ég kom til mömmu til að þrífa fyrir hana eða elda mat fyrir hana. Ég var að gera mitt besta til að hjálpa henni heima, vildi auðvitað gera henni gott. En með þessari aðstoð, þá var hún ekki að tikka inn í öll boxin sem yfirvöld vilja til þess að opna leið fyrir hana inn á hjúkrunarheimili sem hún þurfti svo sannarlega með tímanum en fékk ekki. Við erum svo dugleg að hjálpa foreldrum okkar, gera og græja. Ég var að þvo fötin af henni og baða hana en hún fékk böðun einu sinni í viku sem mér fannst allt of lítið. Ég og við systkinin, vildum hjálpa henni eins vel og við gátum. Ég var einnig að sjá um eigið heimili með fjölskyldu minni í Reykjavík. Þetta varð of mikið og ég kiknaði undir lokin. Það var þá, þegar ég grét, að hlustað var á mig og mamma fór inn í hvíldarinnlögn á D álmu,“ segir Bryndís.

Hlustunarefni fyrir alla

„Við ætlum eiginlega svolítið að vera í því að fræða okkur og aðra. Eins og þessi kona sem kom til okkar í einlægt viðtal og fjallaði um hugræna byrði í kringum heimilið. Þetta er nefnilega eitthvað sem gleymist svo oft. Það er alltaf verið að tala um kulnun í starfi en þú getur lent í kulnun vegna álags heima fyrir. Hjá okkur verður almenn fræðsla og yfirleitt á léttum nótum. Við erum samt ekki að rýna í einhverjar fræðigreinar. Við miðum hlaðvarpið okkar við hlustun í fjörutíu mínútur, fyrir þá sem eru heima að hlusta eða til dæmis þá sem aka Reykjanesbrautina,“ segir Svanhildur.

„Já, þetta er svona ein ferð á brautinni. Okkur gæti dottið í hug að ræða kynslóðabilið varðandi málnotkun og orðfæri. Bara málfar hefur breyst svo mikið og hvernig fólk talar. Við sem eldri erum notum allt önnur orð, orð sem ungu fólki í dag þykir óviðeigandi. Nú tilgreinir þú ekki mann eða konu, heldur segirðu manneskjan. Hlaðvarpið verður samt upphaflega til út frá náminu mínu, í lögreglu- og löggæslufræðum. Þar lærði ég að við getum haft áhrif á lýðræðið en mér finnst almenningur ekkert vita af þeim rétti sínum. Til dæmis að við getum sent inn athugasemdir við þingsályktunartillögur, það bara vissi ég ekki. Af hverju vissi ég það ekki? Við getum alveg haft áhrif á virkt lýðræði, ekki bara í kosningum á fjögurra ára fresti. Nei, almenningur má senda inn athugasemdir á þingið og getur fylgst með ferlinu. Að þetta hlaðvarp varð að veruleika er allt Svanhildi að þakka, hún tók mig á orðinu og setti allt í gang,“ segir Bryndís og brosir hlýtt til Svanhildar.

Hlaðvarp þeirra Bryndísar og Svanhildar lofar góðu um framhaldið. Hlustendur heyra að þær eru afslappaðar og einlægar í spjalli sínu á hlaðvarpinu og öll umgjörð er fagmannlega unnin.