Af hverju ekki að taka upp plötu?
Keflvíkingurinn Oddur Ingi Þórsson sendi á dögunum frá sér sína fyrstu sólóplötu. Platan ber nafnið HÆ en hún hefur verið í vinnslu síðustu tvö ár eða svo. Oddur hefur komið víða við í tónlistinni allt frá unglingsárum.
Hvað kom til að þú fórst út í það að gera sólóplötu?
„Lögin koma til mín reglulega, og hafa alltaf gert. Oftast einhverjar melodíur hér og þar og einhverjir hljómagangar og svo púslast þetta saman. Ég hef alltaf verið í hljómsveitum og hef getað fengið vettvang fyrir mínar pælingar á þeim slóðum. Svo þegar Lokbrá, gamla hljómsveitin mín, hætti var ekki lengur vettvangur fyrir hugmyndirnar mínar svo það lá beint við að ég tæki það á mig að klára þetta bara sjálfur. Af hverju svo ekki að velja nokkur góð lög og taka upp plötu?“
Oddur vann plötuna ásamt Valgeir Gestssyni frænda sínum en sá er gítarleikari og söngvari í Jan Mayen. „Hann hefur verið mér innan handar alveg frá því að ég var fyrst að prófa að spila lögin fyrir framan fólk. Á bassa og trommur spiluðu Guðmundur Óskar Guðmundsson og Axel Haraldsson, báðir úr Hjaltalín, miklir snillingar og saman eru þeir m.a.s. alveg svona hálfur Njarðvíkingur. Sjálfur fékk ég að syngja og spila með á kassagítar. Það var reyndar hugmynd upptökustjórans, Keflvíkingsins Sveins Helga Halldórssonar, að fá Hjaltalíndrengina í þetta verkefni. Hann hafði verið taka upp með þeim og var viss um að þeir myndu smellpassa, sem varð raunin. Þetta er því algjör súpergrúppa, með meðlimum úr Lokbrá, Jan Mayen og Hjaltalín. Svo má alveg nefna það að Sveinn var að vinna íslensku tónlistarverðlaunin 2014 sem upptökustjóri ársins, fyrir plötuna Enter 4.“
Ertu að tækla eitthvað sérstakt á plötunni, um hvað fjalla lögin?
„Ég myndi segja að þrá um eitthvað betra væri kannski meginstefið. Það er af því að flest lögin eru örugglega samin á pínu „downer.“ Þá getur maður ekki beðið eftir að líða aðeins betur. Maður veit líka að manni á alltaf eftir að líða betur, ef manni líður illa. Þess vegna byggi ég heimspeki mína á því að lífið líði í öldum. Upp og niður, en alltaf reglulegt. Það er auðvitað líka sálarhreinsandi að túlka tilfinningar sínar með tónlist.“
Er þessi plata ekki búin að vera lengi í fæðingu?
Það er pínulítið flókið að svara þessu. Hver er meðalmeðgöngutími plötu? Ef ég miða við hvenær elsta lagið á plötunni er samið, þá er það líklega síðan 2006. Mér finnst það samt ósanngjörn nálgun. Ég fór í stúdíóið að taka upp grunnana fyrir rúmum tveimur árum, svo tók ég upp sönginn í fyrrasumar en Einar Vilberg og Stefan Vilberg stjórnuðu söng og gítar upptökum, ásamt því að sjá um útsetningar og jafnframt var platan hljóðblöndun og masteruð af þeim bræðrum í stúdíói þeirra HLJÓÐVERK. Þetta hljómar bara nokkuð flott þegar ég segi þetta svona. Rétt rúm tvö ár og platan tilbúin. Sjálfur hélt ég að þetta myndi aldrei klárast og var ítrekað að fara yfirum af stressi og pressu. Það er auðvitað öðruvísi þegar maður er einn að snúast í þessu, það er aðalmunurinn við að gera þetta einn eða með hljómsveit, 300% meira vinnuálag (gróflega reiknað). Skipulag og sjálfsagi eru kannski eiginleikar sem ég er ekki þekktastur fyrir, en þetta gat ég og ég er bara gríðarlega stoltur af því.
Næst tekur við að reyna að kynna HÆ og spila eitthvað í sumar. En næst á eftir næst veit ég ekki. Ég nota þessa næstu daga í að dreifa plötunni í plötubúðirnar og svo þarf ég bara að koma mér á framfæri og spila eins mikið og ég get. Það er ekkert útgáfufyrirtæki á bak við mig svo ég hef ekkert budget nema orðið á götunni og það þarf að fara sem víðast. Og helst vera jákvætt. Svo það er allt á blússandi uppleið hjá mér og ég hlakka til að koma til Keflavíkur og spila plötuna mína fyrir bæjarbúa.“