Mannlíf

Ævintýrið byrjaði með fyrstu digital-vélinni
Fimmtudagur 21. apríl 2016 kl. 06:00

Ævintýrið byrjaði með fyrstu digital-vélinni

- Anna Ósk gefur út ljósmyndabók

Ljósmyndarinn Anna Ósk Erlingsdóttir úr Sandgerði hefur átt sér þann draum lengi að gefa út ljósmyndabók með myndum af sterkum konum. Vinnsla við bókina er nú á lokastigi og safnar Anna Ósk fyrir kostnaði við prentun á vefnum Kickstarter.com. „Ég vil ekki að konur séu ljósmyndaðar á niðrandi hátt. Myndirnar í bókinni eru í raun mín túlkun á hinni margþættu konu. Ég stílisera allar tökurnar mínar og skapa því konurnar á myndunum. Þær túlka tilfinningar sem við könnumst flest við. Myndirnar eiga það allar sameiginlegt að vera sterkar og dramatískar,“ segir hún.

Bókin hefur fengið titilinn Enigma. Anna Ósk hefur undanfarin ár verið búsett í Gautaborg í Svíþjóð og eru myndirnar teknar þar og á Íslandi, Ítalíu, Möltu, í Danmörku, Serbíu og Ástralíu. Anna Ósk kveðst vera hreinræktaður Sandgerðingur, enda fæddist hún þar árið 1971 í heimahúsi, við Norðurgötu 11. Hún hefur alla tíð haft brennandi áhuga á ljósmyndun. Það var þó ekki fyrr en árið 2002, þegar hún flutti til Svíþjóðar að hún byrjaði fyrir alvöru að ljósmynda. „Ég keypti mína fyrstu digital vél árið 2004 og þá byrjaði ævintýrið. Svo hélt ég mína fyrstu sýningu árið 2005. Þar seldi ég næstum því allar myndirnar mínar og ákvað þá að gera þetta bara að atvinnu og fór að svipast um eftir góðum skóla.“ Leitin að góðum skóla leiddi Önnu Ósk til Ástralíu þar sem hún stundaði nám í tvö ár. Hún segir það hafa verið góðan tíma. „Ég blómstraði í ljósmynduninni. Svo var Ástralía líka töfrum líkust og að vera þar í námi var eitt skemmtilegasta tímabilið í lífi mínu.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Myndar tísku með listrænum hætti
Við hverja mynd í bókinni er ljóð eftir Oscar Sjölander, unnusta Önnu. „Ég var ekki búin að kynnast honum þegar hugmyndin að bókinni kviknaði. Þegar ég svo deildi þessari hugmynd með honum tókst hugmyndin á flug. Mér finnst myndirnar mínar og ljóðin hans tóna vel saman. Ég er einstaklega lánsöm að hafa í kringum mig hvetjandi fólk sem hefur hjálpað mér að láta drauminn um ljósmyndabókina rætast.“

Anna Ósk starfar sjálfstætt og segir nauðsynlegt að hafa marga bolta á lofti til að láta hlutina ganga upp. „Það er sérstaklega erfitt núna í dag þar sem allir með góðar myndavélar geta sagst vera ljósmyndarar. Ég tel þó að ef maður hefur sinn eigin stíl, er einbeittur og veit hvert maður ætlar, þá nær maður á áfangastað.“ Hún vinnur ýmis verkefni, bæði tengd tísku og auglýsingum, auk þess að selja myndirnar sínar í listagalleríi í Gautaborg. „Mest spennandi finnst mér verkefni tengd tísku eða list. Í verkum mínum ljósmynda ég tísku með listrænum hætti. Það er kallað „editorial fashion“ úti í hinum stóra heimi.“

Safnar fyrir prentun
Síðan Kickstarter er söfnunarsíða líkt og Karolina fund þar sem fólk safnar fyrir ýmsum verkefnum. Fólk sem styrkir bók Önnu Óskar getur valið um að kaupa hjá henni póstkort, mynd eða bókina. Ef Anna Ósk nær takmarki sínu í söfnuninni, 70.000 sænskum krónum, greiðir fólk styrkinn þegar herferðinni lýkur. Bókin kostar 400 sænskar krónur eða um 6.000 íslenskar krónur og svo bætist sendingarkostnaður við. Áhugasamir geta nálgast upplýsingar um söfnunina á vefnum Kickstarter.com. Herferðinni lýkur 10. maí svo það er um að gera að tryggja sér eintak af einstakri og listrænni ljósmyndabók.