Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ævintýri sem fæstir fá að upplifa
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
mánudaginn 22. febrúar 2021 kl. 10:26

Ævintýri sem fæstir fá að upplifa

Hann kynntist Svalbarða og ísbjörnum fyrst í gegnum bók sem faðir hans gaf honum í jólagjöf árið 1984 en þá var hann þriggja ára.
Svo gerðist það 32 árum síðar að hann heimsótti loks Svalbarða og sá hvítabirni með eigin augum í fyrsta sinn. Bókin hafði greinilega sáð fræi á sínu tíma í Grindvíkinginn Baldur Jóhann Þorvaldsson. Ef Covid hefði ekki stoppað hann af, þá væri hann núna staddur á Suðurskautinu að leiðsegja ferðamönnum.

Blaðakona Víkurfrétta mælti sér mót við Baldur einn sólríkan og ískaldan febrúarmorgun í Grindavík. Hún hafði frétt af þessum ævintýramanni, að hann væri loksins staddur á landinu.

Stúdent frá FS

„Ég er búinn að vera heima á Íslandi undanfarna átta mánuði vegna Covid og ákvað að skella mér í fjarnám frá háskólanum á Bifröst í ágúst í fyrra, nám sem nefnist Forysta og stjórnun. Námið er alveg frábært og ég er mjög ánægður með þessa ákvörðun mína. Þeir segja að enginn sé ráðinn sem leiðtogi en að þú verðir leiðtogi með hegðun þinni,“ segir Baldur þegar hann er spurður út í hvað hann sé að fást við þessa dagana. Baldur kláraði stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 2001. Þegar honum leið ekki vel í náminu á þeim tíma þá kíkti hann inn á skrifstofu Gísla Torfa heitins því þangað fannst honum alltaf gott að koma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Gísli var einn af þessum eðalkennurum í FS sem alltaf var gott að hitta. Dyrnar hjá honum stóðu ávallt opnar og ef ég var ekki nógu sáttur í skólanum þá var hann alltaf til í að hlusta á mig. Gísli var fæddur leiðtogi að mínu mati og ég þakka honum að ég komst í gegnum námið í FS án þess að gefast upp. Það var alltaf gott að tala við hann. Mér brá mikið þegar fréttist af andláti hans, mér leið eins og náinn ættingi minn hefði látist, svo mikil var sorgin. Í háskólanáminu sem ég stunda núna á Bifröst skilaði ég verkefni fyrir jól, þar sem ég notaði Gísla Torfason sem dæmi um mann með þá góðu eiginleika sem leiðtogar verða að hafa. Leiðtogi sem kallar fram það besta í öðrum,“ segir Baldur.

Ég kynntist Svalbarða og ísbjörnum fyrst í gegnum bók sem pabbi heitinn gaf mér í jólagjöf 1984 en þá var ég þriggja ára. 32 árum síðar heimsótti ég loks Svalbarða og sá hvítabirni með eigin augum og bað um að þessi mynd yrði tekin af mér með bókina góðu sem greinilega sáði fræi á sínum tíma.

(T.h.) Í dýragarði í Álaborg í Danmörku fimm ára að aldri. „Aldrei hefði ég á þessari stundu getað ímyndað mér hvað lífið myndi færa mér, þótt það yrði 30 árum síðar.“

Alltaf haft áhuga á dýrafræði

Alveg frá barnæsku hefur Baldur haft áhuga á dýrafræði og foreldrar hans sáu til þess að hann væri áskrifandi að dýrabókum frá bókaforlagi Arnar og Örlygs í uppvextinum. Mörgum árum seinna gafst honum kostur á að heimsækja staði sem fæstir hafa séð, staði þar sem dýralífið er mjög ólíkt því sem við þekkjum úr nærumhverfi okkar. Snemma beygist krókurinn.

„Áhugi minn á dýrum hefur fylgt mér alla ævi og foreldrar mínir skynjuðu vel þennan áhuga minn þegar ég var lítill. Þau sáu til þess að ég fengi nóg af dýrabókum. Pabbi sigldi á millilandaskipum og keypti bækur erlendis handa mér. Svo var ég í dýralífsbókaklúbb hjá Erni og Örlygi. Ég átti ógrynni af alls konar dýralífsbókum.“

Kominn heim vegna Covid

Baldur er uppalinn í Grindavík og vann í fiski þegar hann var yngri eins og gerist í sjávarplássi. Foreldrar Baldurs eru Helga Eysteinsdóttir og Þorvaldur Kristján Sveinsson, sem er látinn. Baldur er eldri sonur þeirra af tveimur sonum. Bróðir hans er Sverrir Kristján. 

„Ég ólst upp í Grindavík og þessi bær hefur alltaf verið fasti punkturinn í tilverunni þegar ég hef dvalið heima á Íslandi en undanfarin ár hef ég verið að vinna mikið erlendis. Fjölskyldulíf hefur ekki alveg passað inn í líf mitt hingað til en það er nú kannski að fara að breytast því ég finn, eftir þessa átta mánuði hér heima, að mig langar að fara festa rætur. Fram að þessu hef ég verið að ferðast mjög mikið. Ætli ég sé ekki með þetta ferðagen í mér frá ömmu, mömmu hans pabba, en hún var ansi dugleg að ferðast um heiminn. Pabbi var það einnig vegna starfa sinna um borð í millilandaskipum. Þau voru hvorugt góð í ensku en fannst gaman að ferðast um heiminn. Eiginlega ótrúlegt hvað amma þorði að ferðast ein og kunni nánast hvorki að segja já eða nei á ensku. Hún hafði mikið sjálfstraust sú gamla og fór meira að segja til Suður-Afríku. Ég hef verið leiðsögumaður í útlöndum en það er varla að ég þekki landið mitt Ísland eins vel og önnur lönd. Leifsstöð gæti ég labbað í gegnum blindandi, svo oft hef ég farið þar í gegn.“

Frönskunám í Frakklandi og hótelstjórnunarnám í Sviss

Baldur kláraði stúdentinn af náttúrufræðibraut því hann langaði að verða líffræðingur í fyrstu en svo tók hann sér langa pásu frá námi og vann í fiski í Grindavík. Þar til hann ákvað að fara í frönskunám til Frakklands.

 „Ég fékk eiginlega upp í kok af sjálfum mér 24 ára gamall og öllu í kringum mig. Ég þurfti að brjóta mig út úr daglegri rútínu og gera eitthvað allt annað. Þá ákvað ég að fara í frönskunám til Suður-Frakklands og dvaldi þar í fimm mánuði. Það var mjög gaman og þarna kynntist ég fullt af góðu fólki. Þaðan fór ég í hótelstjórnunarnám til Sviss og kom heim eftir þrjú ár og fór að vinna á Hótel Sögu. Þar vann ég í nokkur ár og lærði mikið í því starfi. Stundum komu upp alls konar mál varðandi hótelgesti sem voru eins misjafnir og þeir voru margir. Ég lít svo á að allt sem við störfum við undirbýr okkur á einhvern hátt fyrir það sem gerist næst í lífi okkar,“ segir Baldur og heldur áfram að segja frá því hvernig líf hans breyttist smátt og smátt. 

Við leiði breska landkönnuðarins Ernest Shackleton í Grytviken á Suður-Georgíu. Flestir aðrir sem þar hvíla höfðu komið þangað á hvalveiðivertíðir. Einn legsteinn þar ber íslenskt nafn. Hét hann Olgeir Guðjónsson, lést 1946, og var verkstjóri í hvalstöðinni. Samkvæmt Íslendingabók eru Baldur og hann víst skyldir í níunda og fimmta lið.

Lærði umhverfisferðamálafræði í Skotlandi

„Hrunið var á þessum árum og gífurlega neikvæð umræða fór fram í landinu sem ætlaði alveg að kaffæra mig. Árið 2011 fékk ég nóg af neikvæðri stemmningu á Íslandi og ákvað að fara í nýtt háskólanám sem tengdist ferðamennsku. Frábært nám í Skotlandi varð fyrir valinu í umhverfisferðamálafræði. Þar lærði ég um samspil náttúrunnar og ferðamennsku, hvernig við getum varðveitt heimamenningu og virt náttúruna, raskað henni sem minnst. Þetta nám tók hálft annað ár. Ég vann verkefni í náminu sem tengdist hvalaskoðun og í framhaldi af því fékk ég starf hjá Eldingu hvalaskoðun, við leiðsögn úti á sjó en siglt var bæði frá Reykjavík og Suðurnesjum, einkum Keflavík.“ 

Sjálfboðaliði í Afríku

Veraldarvefurinn kom oft við sögu hjá Baldri þegar hann var að leita að ævintýrum erlendis. Hann segist finna þar fullt af tækifærum fyrir þá sem eru tilbúnir að vinna í sjálfboðaliðastarfi en því fylgir yfirleitt frítt fæði og húsnæði.

„Ég var heima á Íslandi þetta sumar og vann við leiðsögn hjá Eldingu en ákvað svo að freista gæfunnar aftur í útlöndum og fann sjálfboðaliðastarf í Afríku. Ég fór einn þangað, var orðinn mjög kjarkaður að ferðast en þar í landi varð ég samt að fara mjög varlega. Ég dvaldi í Namibíu, Tansaníu og Kenýa ásamt Suður-Afríku. Ég var fyrst sjálfboðaliði í einn mánuð, um borð í báti hjá vísindamönnum sem voru að rannsaka hákarla undan ströndum Afríku. Þá fór ég til Namibíu í þrjá mánuði og kenndi innfæddum grunnatriði í leiðsögn fyrir ferðamenn. Þetta var fínt, alla vega góð reynsla. Ég bjó frítt og borðaði frítt en á borðum var nánast alltaf sami maturinn í þessa þrjá mánuði. Antilópukjöt var oftast í matinn en stundum fengum við sebrahest að borða. Grænmeti var meðlætið. Svo flakkaði ég um Austur-Afríku í lokin. Ég lærði margt og mikið í Afríku en aðallega af mistökum mínum því þessi samfélög eru mjög ólík okkar og því margt sem maður þarf að átta sig á,“ segir Baldur sem var ekki búinn að fá nóg af ferðalögum um heiminn og fór næst til Noregs.

„Að sigla léttbátum með farþegum til lands og aftur til skips er einn stærsti hluti starfsins, enda eru langflest leiðangursskip of stór til að leggjast nokkurs staðar að, ef það er á annað borð bryggja til staðar. Þessi mynd er tekin í hafísnum norður af Svalbarða og hér erum við að skoða hrefnu ef ég man rétt.“

Hvalaskoðun hér og erlendis

 „Eftir sex mánuði réði ég mig til Noregs, fann fyrirtæki við leit á netinu. Mig langaði að starfa við hvalaskoðun í Noregi því ég er leiðsögumaður og hef einnig alþjóðleg áhafnarréttindi. Þar starfaði ég í sjö mánuði við hvalaskoðun. Við sigldum út frá litlu þorpi í Norður-Noregi. Það blundaði í mér að komast til Svalbarða og hafði bókin sem foreldrar mínir gáfu mér í jólagjöf nokkur áhrif á þessa löngun mína. Ég byrjaði að leita fyrir mér að fyrirtækjum sem bjóða upp á leiðangurssiglingar á Svalbarða. Það hljóp á snærið hjá mér og ég fékk tilboð frá hollensku fyrirtæki sem heitir Oceanwide Expeditions sem ætluðu að vera með stutta leiðangurssiglingu á Íslandi næsta vor og í kaupbæti voru tvær ferðir til Grænlands en þangað hafði ég aldrei komið. Eftir þetta fór ég til Húsavíkur að vinna við leiðsögn í hvalaskoðun. Þar hitti ég Þjóðverja sem var framkvæmdastjóri hjá fyrirtæki sem rak slíkt leiðangursskip sem kom við á Húsavík á hringferð um landið. Við höfðum verið í sambandi í tölvupósti áður og mælt okkur mót. Þetta fyrirtæki er með ferðir bæði á norðurslóðum, til dæmis til Svalbarða og Grænlands, og á suðurslóðum, Suðurskautinu, Falklandseyjum og -Suður-Georgíu, en þegar það er vetur hér er sumar þar. Við sömdum um að ég myndi vinna fyrir þá sumarið eftir en í staðinn komst ég óvænt með þeim til Suðurskautsins nokkrum mánuðum seinna þegar ég skrifaði honum fyrir tilviljun á sama tíma og ákveðið hafði verið að bæta við teymið. Stundum er einn tölvupóstur á réttum tíma það eina sem þarf. Þetta fyrsta Suðurskautstímabil mitt varði í þrjá mánuði og lærði ég mikið á þeim tíma.“  

Dýralífið á Suðurskauti

Næstu árin starfar Baldur með hléum hjá þessu fyrirtæki sem sérhæfði sig í siglingum og náttúrulífsskoðun.

„Þetta urðu fimm ár með hléum. Starf mitt var árstíðabundið og byggt á tímabundnum samningum sem voru frá einni viku upp í þrjá mánuði hver. Ég eyddi samtals um tveimur og hálfu ári af síðustu fimm árum um borð í leiðangursskipum. Ef ekki væri fyrir Covid þá væri ég núna um borð í bátnum að leiðsegja ferðamönnum á Suðurskauti sem vilja skoða sumarið þar þegar vetur er á norðurhveli jarðar. Á veturna þarna er ekki hægt að skoða Suðurskautið því veðrið er vægast sagt brjálað. Kuldametið á þessum slóðum er mínus 89,6°C frá júlí 1989 en júlí er náttúrulega jafnan heitasti mánuðurinn hér á Íslandi. Það var ævintýralegt að starfa við þetta. Ég sem hélt ég myndi aldrei sjá óvenjuleg dýr nema í dýragarði komst nú í tæri við dýrategundir sem ekki sjást annars staðar. Í fyrsta skipti sem ég fór til Suður-Georgíu, sem er tveggja daga sigling austur af Falklandseyjum, var ég beðinn um að bíða í fjörunni og passa dótið okkar á meðan þeir ferjuðu farþega yfir í skipið og sóttu nýja farþega. Þarna stóð ég einn í fjörunni og leið eins og ég væri í miðri David Attenborough-mynd. Umkringdur kóngamörgæsum, sæfílum og loðselum. Dýrin þarna eru ekki hrædd við fólk enda friðuð fyrir löngu og hafa ekkert að óttast manninn. Þau horfðu á mig og komu nær mér svo ég spjallaði við þau. Það var mögnuð reynsla og skemmtileg upplifun að sjá dýralífið á þessum stöðum.“

Konungleg heimsókn á Suður-Georgíu. Nokkrar konungsmörgæsir velta vöngum yfir þessum hávöxnu gestum.

Ferðamáti efnaðs fólks

„Þessi tegund farþegaskipa rúma aðeins 250 til 300 farþega og eru svokölluð leiðangursskip. Það er yfirleitt fólk í auðugri kantinum sem ferðast á þennan máta. Ég fór í fimmtíu svona siglingar á fimm árum, allt frá fimm daga ferðum upp í þriggja vikna ferðir með farþega. Leiðangursskip sigla jafnan um suðurhvel jarðar þegar það er sumar þar (október til apríl) en halda svo norður á bóginn og sigla um norðurhvel þegar það er sumar þar (apríl til október). Þar hef ég siglt kringum Írland og Skotland og þaðan til Færeyja, farið margar hringferðir um Ísland og þaðan til Grænlands, Svalbarða, og Norður-Noregs með viðkomu á Jan Mayen og Bjarnarey. Skipin fara líka til Kanada, Alaska og Rússlands en þangað hef ég ekki enn náð að komast,“ segir Baldur og bætir við að það hafi verið gaman að sjá á Svalbarða, sögusvið bókarinnar sem hann eignaðist þriggja ára.

Ísbirnir og byssur á Svalbarða

„Svalbarði er merkilegur staður en þar býr fólk allan ársins hring. Þar eru skattar lægri en almennt gerist í Noregi en það er gert til þess að koma til móts við íbúa á harðbýlu svæði. Þarna ganga allir um með byssu vegna hættu á að rekast á hvítabjörn á förnum vegi. Þegar þú sérð móður labba um í þorpinu með barnavagn þá sérðu hana einnig bera riffil á bakinu í öryggisskyni. Þegar menn fara í kirkju á Svalbarða þá skilja menn byssurnar eftir í sérstökum byssuskáp í anddyri kirkjunnar. Það er ekki óhætt að vera á ferli á Svalbarða nema að vera vopnaður og viðbúinn ísbirni. Það er magnað að koma þarna vitandi af hættunni sem vofir yfir,“ segir Baldur. 

Baldur er kominn heim

Í dag er Baldur kominn heim og er ánægður á Íslandi. Hann gæti hugsað sér að fá starf innan ferðaþjónustunnar þegar tækifærin gefast aftur en er líka opinn fyrir öðrum tækifærum með gráðuna frá Bifröst að vopni, svo og alla alþjóðareynsluna. Það má með sanni segja að framtíðin lofi góðu hjá Baldri.

Baldur er búinn að leggja pössunum, kominn heim og er ánægður á Íslandi. 
Hann gæti hugsað sér að fá starf innan ferðaþjónustunnar þegar tækifærin gefast aftur.