Ævintýramanneskja sem þarf reglulega tilbreytingu í lífið
Elín Rós segir jóga eiga vel við í stjórnmálum
Elín Rós Bjarnadóttir skaust fram á sjónarsviðið í vor, þegar hún vann sæti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Hún var í öðru sæti í nýju framboði Frjálsu afli sem náði tveimur mönnum inn. Hún segir upphafið á stjórnmálaferlinum hafa gengið vel og hlakkar hana til þess að takast á við spennandi verkefni.
Elín, sem er uppalin í Keflavík, álpaðist inn í pólitíkina eftir að hún fékk símtal frá forystumönnum Frjáls afls sem buðu henni sæti á lista flokksins. Hún hafði aldrei áður komið nálægt stjórnmálum og tók sér því smá umhugsunarfrest. Hún var stödd á ákveðnum tímamótum og var tilbúin að takast á við ný verkefni. Hún ákvað því að láta slag standa og ögra sjálfri sér. „Mig langaði einfaldlega að prófa eitthvað nýtt. Það er nú bara þannig að þegar þú lokar einum dyrum þá opnast aðrar. Ég hef alltaf verið ævintýramanneskja sem þarf reglulega tilbreytingu í lífið. Ég er ekkert hrædd við það að prófa eitthvað nýtt, maður lifir bara einu sinni,“ segir Elín.
Elín er menntaður grunnskólakennari en hún starfaði í Akurskóla frá árinu 2006 þar sem hún kenndi m.a. stærðfræði og jóga. Hún hætti störfum við skólann í vor og starfaði sem flugfreyja í sumar. Hún er um þessar mundir að kenna jóga í Sporthúsinu en hún segir jóga eiga afar vel við stjórnmálin. „Þetta fer rosalega vel saman. Maður lærir að anda inn og anda út. Maður lærir að hafa stjórn á sinni líðan og ekki að taka hluti of mikið inn á sig.“ Aðspurð að því hvort hún sé stærðfræðinörd þá skellir hún upp úr. „Nei ég myndi nú ekki segja það. Mér finnst þó gaman að sitja bara og reikna. Ég get alveg gleymt mér við það tímunum saman,“ segir Elín. Þrátt fyrir að vera ævintýramanneskja þá er Elín lítið fyrir það að stunda jaðaríþróttir eins og fallhlífarstökk og þess háttar, hún vill síður stofna lífi sínu í hættu. Hún á mörg áhugamál en ferðalög og útivera eru þar efst á lista, en hún segir útiveru róa hugann. Eins hefur hún gaman af samverustundum með fjölskyldunni og jóga. Elín og Hreiðar maðurinn hennar reka líflegt heimili í Innri-Njarðvík en þau eiga fjögur börn, og segir Elín heimilið oft og tíðum minna á lestarstöð, sérstaklega þegar skóladegi barnanna líkur.
Ætlar að gefa stjórnmálunum tækifæri
Elínu finnst bæjarmálin skemmtileg enn sem komið er. Henni hefur verið vel tekið og er hún sífellt að læra meira í stjórnmálunum. „Mér finnst þetta hafa farið mjög vel af stað og allir hafa tekið vel á móti manni. Auðvitað kemur upp ágreiningur um sum mál og það er bara í góðu lagi. Við erum fólk með ólíkar skoðanir og eigum að láta þær í ljós. Við ræðum málin og svo er það meirihlutinn sem ræður, þannig er nú lýðræðið,“ segir Elín létt í bragði. Hún segir ekki margt hafa komið sér á óvart en hún sé sífellt að læra meira með hverjum deginum. „Þetta er samt mun stærra batterí en ég gerði mér grein fyrir, það er svo margt sem heyrir undir bæinn.“ En sér hún fyrir sér að endast lengi í stjórnmálum? „Ég ætla að gefa þessu tækifæri. Ég er svo nýbyrjuð og kannski erfitt að leggja mat á það núna. Ég ætla að leyfa þessu að þróast og sjá svo hvert lífið leiðir mig.“