Ævintýraheimur Goðanna á Suðurnesjum
Ég varð fyrir hálfgerðri uppljómun í sumar, þegar ég ferðaðist um Snæfellsnes í tjaldvagni. Ég keypti mér Víkingakortin í Landnámssetrinu í Borgarnesi og naut þess að lesa allan fróðleikinn um horfna heima víkinganna í þeirri bók. Guðrún G. Bergmann gaf þau út árið 1993. Þetta segir Marta Eiríksdóttir í inngangi að viðtali sem birtist í Víkurfréttum í lok nóvember.
Íslendingar hafa kosið að kalla alla landnámsmenn Íslands, víkinga, þótt þeir hefðu ekki allir verið mikið fyrir hernað. Það er samt kannski réttnefni, því það þurfti mikinn dugnað og þor til að sigla í opnum skipum yfir ólgandi haf á leið til Íslands.
Ég heillaðist svo af hugmyndaheimi víkinga, að ég fór að hugsa hvers vegna við Íslendingar værum ekki að hampa meira þessari menningararfleifð okkar? Þarna eru rætur okkar og mikilfengleg saga um horfna menningarheima. Ótrúlega mörg tækifæri eru ennþá óplægð á akri ferðamennskunnar hvað varðar víkinga.
Það er þó að verða til vísir að spennandi tækifæri í ferðamennsku hér á Suðurnesjum en það hófst allt með umdeildum kaupum Reykjanesbæjar á víkingaskipi Gunnars og félaga, sem Víkingaheimar á Fitjum hýsa nú.
Landvættir Íslands
Þegar ég las Víkingakortin og lagði kortin auðvitað einnig, þá fræddist ég um landvættina. Ég lærði að vísu um þá í skóla í gamla daga og man að ég heillaðist af sögu þeirra. Krakkar hafa mjög gaman af svona sögum og einnig norrænni goðafræði. Þetta eru ævintýri sem heilla marga, unga og aldna.
Landvættatrú víkinganna var mjög sterk. Þeir trúðu því að fjöll og hólar landsins væru full af landvættum og að þessar landvættir treystu varnir landsins gagnvart óvinum.
Mér datt td. í hug hvers vegna Íslendingar væru ekki löngu búnir að planta niður risastórum landvættum? Það myndi aldeilis draga að ferðamenn, innlenda sem erlenda. Eftirfarandi fróðleikur fæst með því að lesa Víkingakort Guðrúnar; Sá landvættur sem verndaði Suðurland er Bergrisinn, hann birtist á Víkarsskeiði á Reykjanesi og hélt austur eftir Suðurlandi. Samkvæmt lýsingum var hann tröllvaxinn með járnstöng í hendi. Þrátt fyrir hæðina, var hann góðlátlegur og veitti þá öryggistilfinningu, sem börn fá hjá fullorðnum. Bergrisinn ver Suðurland, þar sem brimar mikið og enga höfn er að finna á strandlengjunni, nema austast og vestast.
Landvættur Vesturlands er Griðungur og birtist á Breiðafirði. Þetta var risastórt dýr sem gaf mikið af sér. Breiðafjörður var alltaf kölluð matarkista Íslands, því þar var mestan fugl og fisk að fá.
Landvættur Norðurlands birtist í Eyjafirði. Var það stór og mikill Örn, sem hafði þvílíkt vænghaf að náði fjalla á milli, beggja vegna fjarðarins. Úr norðri fékk örninn, sem löngum hefur verið tengdur guðlegri orku, yfirsýn yfir landið.
Víkingarnir komu flestir fyrst að austan- eða suðaustanverðu Íslandi á leið sinni frá Noregi, Skotlandi, Hjaltlandseyjum eða Írlandi og því er eðlilegt að Dreki sé útvörður Íslands, landvættur austurlands, því hann þótti mest ógnvekjandi. Drekinn birtist úr Vopnafirði.
Ég sá fyrir mér að við gætum reist risastór minnismerki um landvættina, búið þá til úr einhverjum sterkum efnivið, td. 5 metra háa og plantað þeim á landssvæðin, þar sem þeir komu fram sem verndarar. Þeir myndu draga að sér mikinn fjölda ferðamanna, það er ég viss um.
Endurreisum Alþingi
Ég fór á mikið hugmyndaflug eftir lestur Víkingakortanna í sumar og sá fyrir mér að við myndum reisa nýtt Alþingishús á hinum forna þingstað Íslendinga, á Þingvöllum. Nú er þar nóg pláss þar, sem áður stóð hótel Valhöll. Löggjafarþing Íslendinga var stofnað á Þingvöllum árið 930 og er talið elsta lýðræðislega þing á Vesturlöndum.
Ég sá fyrir mér að alþingismenn færu á Þingvelli tvær vikur í senn, einbeittu sér í fallegri náttúrunni að landsins gagni og nauðsynjum en fengju svo frí í eina viku til að hitta fjölskyldur sínar. Þeir myndu vinna miklu betur þarna og um leið tengjast betur landinu okkar á þessum forna og helga þingstað Íslendinga.
Spennandi tækifæri í ferðamennsku
Skrýtið hvernig lífið leiðir mann áfram, á milli atburða og staða sem tengjast. Ég var næstum búin að gleyma allri víkingamenningunni sem ég upplifði svo sterkt í sumar, þegar ég var beðin um að taka þetta viðtal, viðtal sem heillaði mig aftur upp úr víkingaskóm sumarsins!
Ég mælti mér mót við Guðbrand Gíslason, frumkvöðul með meiru, í gömlu Rammagerðinni í Njarðvík, sem hýsir m.a.markaðstorgið Skansinn.
Í þessu húsnæði er búið að stilla upp ævintýralegri sýningu sem nefnist Heimur Goðanna.
Að þessari sýningu kemur margt hæfileikafólk og má þar nefna Hilmar Örn Hilmarsson, sem samdi tónlist og sá um hljóðhönnun. Ingunn Ásdísardóttir, þjóðfræðingur og leikstjóri sá um listræna stjórnun, hugmyndir og texta. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, kennari við Listaháskóla Íslands, sá um alla myndræna útsetningu sýningarinnar. Leikarar lesa sögurnar.
Guðbrandur bauð mér að fara í ferðalag aftur í tímann með heyrnartól á höfði og ganga inn um völundarhús Goðheima. Fallegar litríkar teiknaðar fígúrur blasa við manni þegar inn er komið. Margar skemmtilegar og kunnuglegar vísanir eru á leiðinni um þennan ævintýraheim. Mér fannst ég finna fyrir anda liðinna tíma þegar ég horfði á sýninguna, sem var mjög forvitnileg og skemmtileg.
Hvers vegna þessi sýning?
„Ég hafði gengið með þennan draum í 15 ár, mig langaði að opna svona ævintýraheim, þar sem fólk gæti fengið tilfinningu fyrir heim goðanna“, segir Guðbrandur, sem er nú hátt á sjötugsaldri og hefur hugsað sér að láta þennan draum fara til áhugasams kaupanda. „Já, ég á mér einn annan draum í viðbót sem ég vil vinna að mín síðustu ár. Það er samt gott að sjá drauminn minn rætast í þessari sýningu um heim goðanna. Ég var svo heppinn að Reykjanesbær skaut undir sýninguna skjólshúsi, um leið og ég var svo óheppinn að tapa sýningunni næstum í hruninu. Svo hér er ég með hana í dag og er afskaplega ánægður með hversu gott tækifæri hún gæti orðið öðrum í ferðamennsku. Hún er fagmannlega unnin og gæti hentað samhentri fjölskyldu eða áhugasömum hópi fólks til kaups, með brennandi áhuga fyrir víkingatímabili okkar. Þetta er svona fræðslugarður um norræna goðafræði, við erum að nýta okkar fornu menningarhefðir í svona sýningu og kynna fyrir öðrum. Þau eiga þakkir skildar Árni Sigfússon, bæjarstjóri og Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi, því þau átta sig á aðdráttarafli svona sýningar fyrir ferðamennsku. Tenging hennar við Víkingaheima er einnig sterk. Það eru miklir markaðsmöguleikar hérna og samlegðaráhrif geta verið svo mikil. Sýningin er samtímaleg sýn á fornar hefðir. Listræn útfærsla Kristínar Rögnu þegar hún hannaði fígúrurnar, sameinar lifandi veruleika og nútímalega sýn á forna menningararfleifð“, segir Guðbrandur.
Hann segir mér jafnframt frá öllum erlendu gestunum, sem hafa séð sýninguna og lýst yfir ánægju sinni. Hann hefur fengið fræðimenn frá Norðurlöndum og Evrópu, sem finna þennan sameiginlega þráð með okkur Íslendingum í víkingafræðunum og höfðu unun af því að fara í gegnum sýninguna, sem tekur aðeins 20 mínútur.
Ævintýraheimur Íslendinga heillar
„Í erfiðleikum eigum við að kíkja í okkar eigin rann, hvað varðar td. ferðamennsku. Allt sem við eigum nú þegar í þjóðarsálinni sem er fallegt, satt og sammannlegt öðrum þjóðum. Hingað hafa komið Þjóðverjar og notið þess að kynnast sínum eigin rótum, því víkingar voru td. þýskir, breskir, norrænir, það eru svo margar þjóðir sem eiga þarna sameiginlegt upphaf en það virðast samt langflestir útlendingar tengja Ísland við víkinga. Fólk kemur jafnvel hingað til lands sérstaklega til að upplifa veröld víkinga en þá eru ekki margir staðir, sem bjóða ferðamönnum upp á það. Það eru ennþá mýmörg tækifæri í ferðamennsku tengdri norrænu goðafræðinni og hér á Suðurnesjum er stóra hliðið inn í landið okkar. Stundum stoppa ferðamenn aðeins í sólarhring og eru þá fluttir í rútum framhjá ykkar svæði og inn í land, þegar þið gætuð fengið þá alla með því að tengjast betur viðskiptaböndum hérna á svæðinu, taka ykkur saman. Ferðamenn, bæði útlendir og innlendir, gætu komið hingað til að sjá Heim Goðanna, Víkingaheima, ekið út á Reykjanes, farið í Bláa lónið og endað á veitingahúsi í ljúffengri fiskréttaveislu. Hér í Goðheimum mætti selja alls konar skart og varning sem vísar til víkinganna. Hér inni mætti opna veitingasölu og fleira. Það er létt að markaðssetja svona tækifæri fyrir fólk sem vill. Ég hef búið til tengslanet erlendra ferðaskrifstofa hingað inn. Ég hef fengið nemendur frá Harvard, sem sögðu við mig að við Íslendingar ættum svo mikil auðævi í menningarlegu tilliti og þeim fannst stórkostlegt að finna hvað margt úr Norrænu goðafræðinni lifir ennþá með þjóðinni. Þetta gæti orðið stórkostlegt markaðstækifæri, sem fáir aðrir á landinu eru núna að nýta sér. Með því að tengja okkur ævintýraheimi goðanna, erum við að skapa segul fyrir Suðurnesin, það kallar á ferðamenn að staldra lengur við hérna á svæðinu. Ég sé þetta sem gullnámu þegar fram líða stundir, þarna eru ma. menningarverðmætin okkar“, segir Guðbrandur hlýlega.
Hann segir mér að skólar hafi komið með nemendur til að fræðast um goðin og sjá sýninguna. Krakkarnir heillast alltaf af hetjunum í sýningunni. Það þekkja allir þessi goð eins og Óðinn, Þór og Frigg. Samkvæmt goðafræðinni þá sprettum við öll frá þessum brunni, Urðarbrunni og upplifunin er góð, þegar tónlist Hilmars Arnar spilar með goða frásögnunum í eyrunum þegar gengið er í gegn.
Guðbrandur hefur starfað margt á sinni ævi. Hann var fyrsti framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands og hafði umsjón með símenntun opinberra starfsmanna. Hann var einnig kennari og blaðamaður á Mogganum. Með honum blundar frumkvöðullinn og hefur hann valið að veita honum útrás síðustu árin.
Hann segist vilja sjá Íslendinga átta sig á auði sínum í menningararfinum og segir að útlendingar vilji sjá eitthvað annað en fossa og fjöll. Þeir vilja líka kynnast sögu landsins og þjóðinni sjálfri. Þeim á eftir að fjölga í 1,5 milljón á næstu tíu árum, samkvæmt markaðsrannsóknum og ferðamenn vilja finna sammannlegar rætur með okkur. Áhuginn er brennandi á öllu, sem viðkemur norrænni goðafræði og víkingum.
Guðbrandur segist setja stolt sitt og gleði í sýninguna þegar hann kynnir hana fyrir Íslendingum og útlendingum. Hann langar að sjá hana dafna í höndum annarra.
Guðbrandur má líka vera stoltur. Mín upplifun var mjög góð þegar ég gekk í gegnum ævintýraheima goðanna. Ég hugsaði allan tímann; Vá, afhverju gerðum við þetta ekki fyrir langa löngu?